is / en / dk


1. gr. Nafn
Félagið heitir Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og á aðild að Kennarasambandi Íslands. Félagssvæðið er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
 

2. gr. Hlutverk
Hlutverk félagsins er að:

 • Fara með málefni þeirra kennara og skólastjóra í tónlistarskólum, sem eru félagsmenn Kennarasambands Íslands,
 • vera málsvari félagsmanna sinna og gera kjarasamninga fyrir félagið,
 • halda fundi og námskeið fyrir trúnaðarmenn Kennarasambands Íslands í tónlistarskólum,
 • sjá um kjör fulltrúa á þing Kennarasambands Íslands,
 • afla og miðla upplýsingum um þróun tónlistarfræðslu sem og fagleg málefni er varða tónlistarskóla,
 • efla samstarf við samtök og stofnanir hér á landi og erlendis og vera tengiliður við stjórnvöld,
 • efla samvinnu og faglega umræðu meðal félagsmanna og við hagsmunaaðila,
 • stuðla að bættri tónlistarkennslu og styrkja stöðu tónlistarfræðslu í landinu,
 • skipa fulltrúa í stjórnir sjóða og nefndir Kennarasambands Íslands í samræmi við lög Kennarasambandsins,
 • tilnefna skoðunarmenn reikninga Kennarasambands Íslands.
   

3. gr. Aðild
Allir, sem starfa við kennslu eða stjórnun í tónlistarskólum eða stofnunum sem sinna eða tengjast tónlistarkennslu og eru félagsmenn í Kennarasambandi Íslands og Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum semur fyrir, skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, eða samkomulagi við viðkomandi launagreiðanda, eru félagar í Félagi kennara og stjórnenda í tónlistarskólum.
 

4. gr. Svæðadeildir
Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum skiptist í þrjár svæðadeildir:

 • Vesturland og Vestfirðir,
 • Norður- og Austurland,
 • höfuðborgarsvæðið, Suðurland og Suðurnes.

Hlutverk svæðadeilda er m.a. að vera tengiliður við skrifstofu og stjórn félagsins. Hver svæðadeild vinnur með stjórn FT og skrifstofu þess að undirbúningi og skipulagningu svæðisþinga tónlistarskóla, funda og námskeiða fyrir trúnaðarmenn og annarra svæðisbundinna viðburða. Hver svæðadeild gerir tillögu um fulltrúa á aðalfund félagsins og á þing KÍ. Í hverri svæðadeild skal vera starfandi þriggja manna stjórn og þar af er einn formaður. Stjórn svæðadeildar setur sér starfsreglur í samráði við stjórn félagsins.
 

5. gr. Faghópar
Heimilt er að stofna faghópa og skulu þeir starfa á landsvísu. Faghópar vinna að framgangi mála hver á sínu sviði og skulu vera stjórn félagsins, nefndum og ráðum til ráðgjafar. Stofnun og starfssvið faghópa skal einskorðast við menntun og/eða starfssvið viðkomandi tónlistarkennara/stjórnenda og þarf að öðlast staðfestingu stjórnar félagsins.
 

6. gr. Aðalfundur
Aðalfundur Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum skal haldinn fjórða hvert ár innan sex mánaða fyrir eða eftir þing Kennarasambands Íslands. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins, sbr. þó 19. og 20. gr. þessara laga. Á aðalfundi eiga sæti með atkvæðisrétti stjórn og varastjórn, fagráð tónlistarskóla, samninganefnd, fulltrúar félagsins í öðrum nefndum og ráðum á vegum Kennarasambands Íslands og einn fulltrúi fyrir hverja 50 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu sem umfram kann að vera. Kjörtímabil þeirra er á milli reglulegra aðalfunda.

Til aðalfundar skal boðað með a.m.k. sex vikna fyrirvara. Tillögur til umfjöllunar á aðalfundi þurfa að berast stjórn félagsins eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund. Aðalfundargögn skulu send út með minnst tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Aðalfundur félagsins er opinn öllum félagsmönnum. Allir félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi.
 

7. gr. Dagskrá aðalfundar
Dagskrá aðalfundar:

 1. Skýrsla stjórnar
 2. Ársreikningar félagsins
 3. Lagabreytingar
 4. Kosning nýrrar stjórnar
 5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara
 6. Kosning þriggja fulltrúa í samninganefnd (sbr. 16. gr.)
 7. Önnur mál
 8. Stjórnarskipti
   

8. gr. Kosning fulltrúa á aðalfund félagsins, á þing Kennarasambands Íslands, í fagráð tónlistarskóla og stjórnir svæðadeilda félagsins
Stjórn félagsins á þriggja kosta völ við kjör fulltrúa:

 1. Á fundi (kjörfundi) sem boðaður er með minnst 10 daga fyrirvara. Heimilt er að hafa fleiri en einn kjörfund eða kjördeildir í félaginu.
 2. Í bréflegri kosningu og fá félagsmenn þá senda kjörseðla. Þegar þeir hafa kosið senda þeir kjörseðilinn til stjórnar/kjörstjórnar félagsins eða afhenda trúnaðarmanni innan tilskilins tíma.
 3. Samkvæmt tillögu félagsstjórnar, stjórna svæðadeilda eða einstakra félagsmanna. Séu jafnmargir í kjöri og kjósa á er sjálfkjörið.
   

9. gr. Ársfundur
Þau ár, sem ekki er aðalfundur, skal stjórn félagsins boða til ársfundar þar sem m.a. er fjallað um starfsemi félagsins og starfsáætlun auk þess sem reikningar þess eru lagðir fram til kynningar. Rétt til setu á ársfundi hafa stjórn og varastjórn, fagráð tónlistarskóla, samninganefnd og fulltrúar félagsins í öðrum nefndum og ráðum á vegum Kennarasambands Íslands. Stjórn félagsins hefur umboð til að kalla til fleiri fulltrúa ef þurfa þykir. Til ársfundar skal boðað með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Ársfundir eru opnir öllum félagsmönnum.
 

10. gr. Félagsfundir
Félagsfundir skulu haldnir þegar stjórnin telur þess þörf eða 1/10 hluti félagsmanna krefst þess og tilgreinir fundarefni.
 

11. gr. Stjórn
Stjórn félagsins skipa fimm menn og þrír til vara, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Kjörtímabil stjórnar er á milli aðalfunda félagsins. Stjórn og varamenn eru kjörnir á aðalfundi félagsins. Formaður er kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn saman og skipta þeir síðan með sér verkum.
 

12. gr. Hlutverk stjórnar
Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og ber ábyrgð á allri starfsemi þess. Stjórn félagsins fylgir eftir samþykktum aðalfunda og starfar skv. hlutverki félagsins sbr. 2. gr. þessara laga. Formaður ber ábyrgð á daglegri starfsemi félagsins og hefur yfirumsjón með rekstri þess. Varaformaður er staðgengill formanns.

Stjórnin heldur stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir. Formaður stýrir stjórnarfundum og annast dagskrá þeirra. Einfaldan meirihluta þarf til að ákvarðanir stjórnarfunda séu lögmætar. Stjórnarfundir eru lögmætir ef 2/3 hlutar stjórnarmanna eru mættir.

Stjórn félagsins tilnefnir skoðunarmenn reikninga Kennarasambands Íslands úr hópi kjörinna félagslegra skoðunarmanna reikninga. Stjórn félagsins skipar einnig fulltrúa félagsins í stjórnir sjóða og nefndir Kennarasambands Íslands.
 

13. gr. Um gjörðarbækur
Ritari félagsins heldur gjörðarbækur og fundargerðir skulu samþykktar á stjórnarfundi og undirritaðar af ritara og formanni.
 

14. gr. Fjárreiður og bókhald
Þing Kennarasambands Íslands ákveður félagsgjöld og skiptingu þeirra. Stjórn félagsins hefur eftirlit með fjárreiðum þess og bókfærslu og leggur fram endurskoðaða reikninga á aðalfundi. Auk þess skal stjórn félagsins gefa ársfundi yfirlit yfir fjárhagsstöðu félagsins. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
 

15. gr. Seta í stjórn Kennarasambands Íslands
Formaður félagsins situr í stjórn Kennarasambands Íslands en varaformaður er staðgengill hans.
 

16. gr. Samninganefnd
Á aðalfundi félagsins skal kjósa þrjá fulltrúa sem ásamt stjórn félagsins mynda samninganefnd og fer hún með gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn sbr. lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Formaður félagsins er formaður samninganefndar en að öðru leyti skiptir samninganefndin með sér verkum.

Hlutverk samninganefndar er:

 • Að ganga frá markmiðum og áherslum í samningsgerð og endanlegri kröfugerð,
 • að annast gerð kjarasamninga,
 • að taka ákvörðun um hvort efna skuli til atkvæðagreiðslu um verkfall,
 • að taka ákvörðun um hvort undirrita eigi kjarasamning með fyrirvara um samþykki félagsmanna og um hvort fresta skuli verkfalli.

Formaður félagsins í umboði KÍ ber ábyrgð á undirritun kjarasamninga fyrir félagsmenn og gerð og undirritun viðræðuáætlunar vegna endurnýjunar þeirra.

Formaður eða varaformaður Kennarasambands Íslands starfa með samninganefndinni eftir nánari ákvörðun stjórnar félagsins hverju sinni.
 

17. gr. Fagráð tónlistarskóla
Í fagráði tónlistarskóla sitja fjórir fulltrúar sbr. eftirfarandi svæðaskiptingu, auk stjórnar Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum:

 • Frá Vesturlandi og Vestfjörður - einn fulltrúi,
 • frá Norður- og Austurlandi - einn fulltrúi,
 • frá höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Suðurnesjum - tveir fulltrúar.

Svæðisbundnir fulltrúar fagráðs skulu tilnefndir/kosnir á hverjum stað fyrir aðalfund félagsins. Fagráðið velur úr sínum hópi fjóra fulltrúa til að fara með hlutverk félagsins sbr. 28. gr. laga Kennarasambands Íslands. Að öðru leyti skiptir fagráðið með sér verkum.
 

18. gr. Hlutverk fagráðs tónlistarskóla

Hlutverk fagráðs tónlistarskóla er að:

 • Fjalla um fagleg málefni og skólamál,
 • efla samstarf milli fagaðila og stjórnvalda,
 • efla svæðisbundið samstarf,
 • fylgjast með þróun tónlistarfræðslu hér á landi og erlendis,
 • efla tónlistarkennslu og tónlistarlíf.
   

19. gr. Allsherjaratkvæðagreiðsla um kjarasamninga, boðun verkfalls o.fl.
Um kjarasamninga og boðun verkfalls skal fara fram leynileg, skrifleg allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna, skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Kjörskrá skal miða við félagatal í þeim mánuði sem atkvæðagreiðsla fer fram. Stjórn félagsins getur efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um önnur mikilvæg málefni sem eigi falla sérstaklega undir aðalfund.
 

20. gr. Lagabreytingar
Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytingarnar verið kynntar í fundargögnum. Tillögur um lagabreytingar þurfa að hafa borist stjórn fjórum vikum fyrir aðalfund. Til þess að breyting nái fram að ganga verður hún að hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Breytingar á lögunum koma fyrst til framkvæmda er stjórn Kennarasambands Íslands hefur staðfest þær.
 

21. gr. Gildistaka
Lög þessi öðlast gildi þegar stjórn KÍ hefur staðfest þau.
 

Lögin þannig samþykkt á aðalfundi FT 21. febrúar 2015

Tengt efni