is / en / dk

Aðalfundur, sem haldinn er fjórða hvert ár, hefur æðsta vald í málefnum Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum. Á aðalfundi eiga sæti stjórn og varastjórn, fagráð tónlistarskóla, samninganefnd, fulltrúar félagsins í öðrum nefndum og ráðum á vegum Kennarasambands Íslands og einn fulltrúi fyrir hverja 50 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu sem umfram kann að vera. Aðalfundur er opinn öllum félagsmönnum og hafa allir félagsmenn atkvæðisrétt á fundinum.

Ársfundur er haldinn þau ár sem ekki er aðalfundur. Á ársfundi er m.a. fjallað um starfsemi félagsins og starfsáætlun auk þess sem reikningar þess eru lagðir fram til kynningar. Rétt til setu á ársfundi hafa stjórn og varastjórn, fagráð tónlistarskóla, samninganefnd og fulltrúar félagsins í öðrum nefndum og ráðum á vegum Kennarasambands Íslands. Ársfundir eru opnir öllum félagsmönnum.

Stjórn fer með málefni félagsins milli aðalfunda og fylgir eftir samþykktum þeirra og starfar skv. hlutverki félagsins sem tilgreint er í lögum þess. Stjórn skipa fimm menn og þrír til vara og er kjörtímabil stjórnar á milli aðalfunda félagsins.

Samninganefnd hefur það hlutverk að ganga frá markmiðum og áherslum í samningsgerð og endanlegri kröfugerð, annast gerð kjarasamninga, taka ákvörðun um hvort efna skuli til atkvæðagreiðslu um verkfall og hvort undirrita eigi kjarasamning. Á aðalfundi félagsins eru kjörnir þrír fulltrúar sem ásamt stjórn félagsins mynda samninganefnd.

Fagráð tónlistarskóla hefur það hlutverk að fjalla um fagleg málefni og skólamál, efla samstarf milli fagaðila og stjórnvalda, efla svæðisbundið samstarf, fylgjast með þróun tónlistarfræðslu hér á landi og erlendis og efla tónlistarkennslu og tónlistarlíf. Fagráð skipa fjórir fulltrúar tilnefndir/kjörnir úr svæðadeildum félagsins auk stjórnar félagsins.

Svæðadeildir eru starfandi á þremur svæðum innan félagsins. Í hverri svæðadeild er starfandi þriggja manna stjórn. Hlutverk svæðadeilda er m.a. að vera tengiliðir við skrifstofu og stjórn félagsins, að vinna með stjórn FT og skrifstofu að undirbúningi svæðisþinga tónlistarskóla, funda/námskeiða með trúnaðarmönnum og annarra svæðisbundinna viðburða.

Faghópar vinna að framgangi mála hver á sínu sviði og skulu vera stjórn félagsins, nefndum og ráðum til ráðgjafar. Starfssvið faghópa einskorðast við menntun og/eða starfssvið viðkomandi tónlistarkennara/stjórnenda.

 

Um skipulag FT / KÍ 

 

Tengt efni