is / en / dk

Við hvetjum félagsmenn til að fylgjast með vinnuaðstæðum í skólum og nota til þess gerða gátlista. 

Vinnuumhverfisnefnd hefur útbúið gátlista fyrir kennara til að auðvelda þeim að skoða og meta sitt nánasta starfsumhverfi. Gátlistarnir hafa verið sendir til félagsmanna en nú má nálgast þá á heimasíðu KÍ.

Gott starfsumhverfi og heilsusamlegar og öruggar vinnuaðstæður eru forsenda öflugs og ánægðs starfsfólks í skólum. Vinnuumhverfisnefnd KÍ vill gjarnan auka vitund félagsmanna um mikilvægi vinnuumhverfisins og efla áhrif þeirra og þátttöku í stefnumótun og ákvörðunum um það. Þannig getur hver og einn bætt eigið starfsöryggi, ánægju og líðan í vinnu.

Útbúnir voru gátlistar fyrir hvert skólastig fyrir sig, leik- grunn- og framhaldsskóla. Auk þess eru sér gátlistar fyrir verkmenntakennslu, tónlistarkennslu og íþrótta- og sundkennslu. Eftir að kennari hefur fyllt út viðeigandi gátlista getur hann í framhaldinu tekið virkan þátt í að bæta aðbúnað og vinnuaðstæður í sínum skóla t.d. með því að ræða við sinn yfirmann um umbætur.

Hver gátlisti inniheldur spurningar um helstu þætti er varða starfsumhverfið en er alls ekki tæmandi. Atriðin eiga misvel við, eftir störfum, verkefnum og aðstæðum hvers og eins. Listinn er hugsaður fyrir kennara til að skoða sitt nánasta umhverfi.

Vinnuumhverfisnefnd mælir með því að punkta niður þau atriði sem má skoða betur. Atriðin eiga e.t.v. við á ákveðnum stöðum og/eða tímum en ekki endilega alls staðar eða alltaf. Þeim atriðum sem eiga ekki við má einfaldlega sleppa. Hægt er að prenta gátlistann út og hafa með í árlegt starfsmannaviðtal.

Við hvetjum þig til að prófa gátlistann og nýta hann til þess að fylgjast með því að vinnuaðstæður í skólanum séu með þeim hætti að starfið verði sem árangursríkast. Það er allra hagur að vinnuumhverfi í skólum sé með þeim hætti að öllum líði þar vel.

Gátlistarnir eru hér. 

 

Tengt efni