is / en / dk

Ráðstefna um rannsóknir og nýbreytni í framhaldsskólum, 20. september. 

Ráðstefnugjald er 2.500 krónur og skráning fer fram á vefnum skolathroun.is. Að ráðstefnunni standa Félag framhaldsskólakennara, Félag stjórnenda í framhaldsskólum, Skólameistarafélag Íslands, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Námsbraut Háskóla Íslands um kennslufræði í framhaldsskóla og Rannsóknarstofa um þróun skólastarfs. 

Dagskrá:

12:00    Húsið opnað

12:30    Ráðstefna sett – ávörp

12:45    Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ, flytur lykilerindið Allir í fjölskyldunni hafa farið í þennan skóla nema ég. Skólaval, sjálfsmyndarsköpun og áskoranir nemenda í framhaldsskólum í borginni og á landsbyggðinni. Í erindinu verður sagt frá rannsókn á því hvernig ungir Íslendingar nota framhaldsskólakerfið til sjálfsmyndarsköpunar, hópamyndunar og aðgreiningar (stéttir). 

13:30    Fyrirspurnir til fyrirlesara

13:45    Kaffihlé

14:15    Málstofur I

15:05    Málstofur II

15:55    Málstofur III

16:35    Ráðstefnuslit – léttar veitingar og spjall í Gerðubergi (til kl. 18). 

 

ATHUGIÐ: Tvær málstofur eru í hverri stofu -- og skiptist tíminn jafnt. Hér að neðan er hægt að lesa um hverja málstofu fyrir sig. 

Yfirlit yfir málstofurnar í PDF-útgáfu. 

 

MÁLSTOFUR I KL. 14:15 TIL 14:55

Vangaveltur um tungumálakunnátta annarrar kynslóða innflytjenda á framhaldsskólaaldri.

Hlutfall innflytjenda á Íslandi hefur aldrei verið hærra en árið 2018 þegar það var 12,6% mannfjöldans og er nú orðið áþekkt því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. En aldursdreifing innflytjenda á Íslandi er frábrugðin dreifingunni á hinum Norðurlöndunum. Til dæmis eru nær allir annarrar kynslóðar innflytjendur hérlendis á aldrinum 0-17 ára og hlutfall þeirra lægra hér en á flestum hinum Norðurlandanna, sem er til marks um stutta sögu innflytjenda á Íslandi. Þarf að gera einhverjar ráðstafanir í framhaldsskólunum landsins með aukningu annarra kynslóða innflytjenda á framhaldsskólaaldri?

Í framhaldsskólanum sem ég starfa við höfum við orðið vör við mun á aðgengi innflytjenda að móðurmáli og færni í íslensku eftir kynslóðum, mun á fyrstu og annarri kynslóð. Það er nemendum sem hafa flutt til landsins með foreldrum sínum og börn innflytjenda sem hafa fæðst og alist hér upp.

Fyrstu kynslóðar innflytjendur hafa stundum betri aðgang að móðumálinu sínu en þeir sem fæddir eru hér. Þeir bjuggu í heimalandinu, heyrðu það í umhverfi sínu í æsku og hafa gjarnan lært að lesa það og skrifa í skólum þar. Þeir geta því nýtt sér móðurmálið í þekkingarleit sinni sem annarrar kynslóðar innflytjendur geta síður þar sem þeir hafa haft færri tækifæri á að rækta móðurmálskunnáttu sína. Þetta er mikill aðstöðumunur í námi.
Það getur einnig verið munur á íslenskukunnáttu annarrar kynslóðar innflytjenda og innfæddra Íslendinga vegna mismunandi aðgengi þeirra að íslensku.
Þar sem annarrar kynslóða innflytjendurnir hafa aðeins verið hluta vökutíma síns í íslensku málumhverfi. Þeir hafa jafnvel lítið heyrt íslensku á fyrstu árum sínum,
og hafa hvorki haft gott aðgengi að textum á málinu né orðabókum.

Rétt er að taka fram að mikill munur er á nemendum af annarri kynslóð innflytjenda þar sem aðstæður þeirra eru mismunandi. Sumir eru mjög vel settir í tungumálum en aðrir eru illa settir og allt þar á milli.
 

Hvernig er best að standa að móttöku nemenda í framhaldsskóla sem eru annað hvort flóttamenn eða með alþjóðlega vernd? Að hverju þarf að huga? Hvað virkar og hvað ekki? Fyrirlesturinn byggir á reynslu starfsmanna Menntaskólans á Ísafirði.
Menntaskólinn á Ísafirði tók s.l. haust á móti 5 nemendum á framhaldsskólaaldri sem hlotið höfðu alþjóðlega vernd og haustið þar áður tók skólinn á móti 1 flóttamanni. Á litlu var að byggja þegar kom að framkvæmd móttökunnar þó margir framhaldsskólar standi nú eða hafi staðið í sömu sporum.

Við móttöku nemendanna var strax í upphafi tekin meðvituð ákvörðun um að skrásetja allt sem tengdist verkefninu, s.s. móttöku, kennsluháttum og fræðslu. Var það m.a. gert til að bæta úr skorti á aðgengilegum upplýsingum. Smám saman varð til vegvísir sem nýst getur öðrum framhaldsskólum í svipuðum sporum.

Reynslan sýnir að stuðningur í kennslu og samstarf fagaðila innan skólans skiptir höfuðmáli. Nauðsynlegt er að sýna sveigjanleika þegar kemur að námsvali og námsaðferðum nemenda og að taka þarf mikið tillit til ólíkra fjölskyldna, menningarheima og venja.

Að lokum er þátttaka og samstarf stofnana í nærsamfélaginu nauðsynleg. Það er því ansi margt sem þarf að ganga upp til að vel takist til. Að öllum líkindum mun framhaldsskólanemum sem eru flóttamenn eða með alþjóðlega vernd fjölga í náinni framtíð og því nauðsynlegt að framhaldsskólar séu í stakk búnir til að taka vel á móti þeim.
 

Nýjar leiðir í kennslu miðaldabókmennta. Mig langar að leggja út af bókinni minni Skiptidagar sem ég gaf út á síðasta ári og var hugsuð fyrir nýja kynslóð. Mig langar semsé að ræða hvernig við getum kennt eldri bókmenntir okkar, ekki aðeins miðaldabókmenntir, á nýjan og vonandi ferskan hátt og tengt við þær breytingar sem við lifum. 

Í erindinu verður fjallað um hvernig gekk að innleiða samvinnunámsaðferð í nám og kennslu í Brennu-Njáls sögu í Menntaskólanum við Sund skólaárið 2018-2019. Aðferðin sem við beittum byggist á útfærslu Guðrúnar Pétursdóttur á samvinnunámi í fjölbreyttum nemendahópi. Aðferðin þjálfar nemendur í að fylgja ákveðnum hlutverkum, að leysa verkefni innan ákveðinna tímamarka, að taka tillit til annarra (hlusta og bíða) og að gefa af sér til hópsins. Markmið okkar var að vekja áhuga nemenda á Njálu og hvetja þá til sjálfstæðra vinnubragða, efla frumkvæði þeirra, gagnrýna hugsun og sköpunarkraft. Í kennslunni tókumst við á við tvenns konar áskoranir. Annars vegar að beita námsaðferðinni og hins vegar að útfæra verkefni eins og aðferðin krefst án þess að það kæmi niður á námsefninu sjálfu.

Hjá okkur vöknuðu ýmsar spurningar um það hvernig best væri að útfæra Njálu í samvinnunámsverkefnunum en að lokum fórum við þá leið að velja nokkur þemu úr sögunni og byggja verkefnin á þeim. Tilraun okkar leiddi til ákveðinnar togstreitu gagnvart nemendum sem höfðu ólíkar væntingar og viðhorf til þess hvernig kennslustundir ættu að vera. Eftir veturinn könnuðum við viðhorf nemenda til samvinnunámsins sem gaf þó til kynna nokkra ánægju með aðferðina. Í erindinu munum við fjalla nánar um þessa togstreitu og árangurinn af innleiðingunni.

Við styðjumst við frumkvæðiskvarða Gerðar G. Óskarsdóttur til að greina hvort tilraun okkar hafi skilað árangri, þ.e. hvort okkur hafi tekist að efla sköpunarkraft og frumkvæði nemenda. 

Tilgangur rannsóknarinnar er að skilja betur framkvæmd stefnu um aukið sjálfstæði framhaldsskóla á Íslandi um námsframboð og inntak náms. Í rannsókninni eru tekin viðtöl við stjórnendur, kennara, nemendur, foreldra og fulltrúa í skólanefnd hjá fjórum framhaldsskólum. Val á þátttökuskólum tekur mið af því að þeir endurspegli fjölbreyttar aðstæður, litið er m.a. til staðsetningar, stærðar og námsframboðs. Í rannsókninni er sjónum beint að eftirfarandi meginþáttum: Hvernig mismunandi hagsmunaaðilar hafa túlkað stefnuna, hverju þeir telja að hún hafi eða muni koma til leiðar, hvernig stefnan hefur verið framkvæmd og hvernig mismunandi aðstæður skóla kunna að hafa haft áhrif á framkvæmd stefnunnar. Í erindinu verður fjallað um niðurstöður úr einum skóla.

Dregin verður fram mismunandi upplifun hópa viðmælenda með áherslu á þversagnir hugmyndafræði stefnu og veruleika. Þá verða dregnir fram þættir sem vekja upp spurningar um stefnumótunarferlið eftir setningu stefnunnar og varða sjálfa innleiðinguna, þróun í skólastarfi, hindranir og áskoranir.

Rannsóknarefni
Skólastjórnendur framhaldsskóla gegna lykilhlutverki í skólastarfi og mikilvægt er að þeir séu öflugir og faglegir leiðtogar innan skólans. Hlutverk þeirra er margþætt enda eru framhalds-skólar flóknar stofnanir þar sem verkefnin eru af ýmsu tagi. Stór hluti af starfi skólastjórnenda felst í að eiga góð og uppbyggileg samskipti við kennara og nemendur. Skólastjórnendur geti stutt við kennslu, byggt upp sameiginleg gildi og hvatt til áframhaldandi þróunar innan skólans.
Það rannsóknarverkefni sem liggur til grundvallar þessu erindi snýst um að kanna tengsl kennslufræðilegrar forystu og innra starfs í framhaldsskólum.

Með kennslufræðilegri forystu er vísað til þess að stjórnendur hafi áhrif á skólastarfið og starfsmenn og skapa aðstæður innan skóla þar sem nám og kennsla eru lykilþættirnir. DiPaola og Hoy þróuðu líkan til að lýsa samspili kennslufræðilegrar forystu, viðhorfa og námsárangurs. Í líkaninu eru þrír meginþættir sem tengjast innbyrðis: námsárangur nemenda, viðhorf til innra starfs og kennslufræðileg forysta. Kennslufræðilegri forystu er skipt niður í þrjá þætti sem eru: að greina og deila sameiginlegum gildum, fylgjast með og gefa endurgjöf á kennslu og stuðla að faglegri þróun skólastarfs. Líkanið lýsir því viðhorfi til innra starfs sem þarf að ríkja innan skóla þar sem forysta, traust og skólaumhverfið mynda samfélag.

Aðferð
Í erindinu er stuðst við viðtöl við átta skólastjórnendur, skólameistara og aðstoðarskóla-meistara, í fjórum fjölbrautaskólum. Greint verður frá viðhorfum þeirra til faglegrar þróunar og starfsumhverfis í þeirra skólum, þ.e. þeim þáttum sem DiPaola og Hoy segja að felist í kennslufræðilegri forystu.

Niðurstöður
Frumniðurstöður benda til að skiptar skoðanir séu á meðal skólastjórnenda um hvernig eigi að stuðla að faglegri þróun skólastarfs og móta jákvætt starfsumhverfi fyrir kennara í skólunum. Þegar horft er til hvort allir kennarar í skólunum séu áhugasamir um að sinna faglegri þróun í starfi voru skólastjórnendur ekki á sama máli. Einnig virðist vera áherslumunur á viðhorfum skólastjórnenda þegar litið er til möguleika kennara á endurmenntunarnámskeiðum og að sinna þróunarverkefnum innan þeirra skóla.
 

Íslenskukennsla á K2: Tækni- og vísindaleiðinni

Stúdentsnámsbrautin K2: Tækni- og vísindaleiðin er nýleg námsbraut við Tækniskólann en fyrstu nemendurnir hófu nám haustið 2016 og útskrifuðust vorið 2019. Um er að ræða lotukennt og verkefnastýrt nám þar sem áhersla er lögð á lausnaleit, hópvinnu og sjálfstæð vinnubrögð allra nemenda bekkjarins.

K2-nemendur taka fjóra íslenskuáfanga í námi sínu og í fyrirlestrinum verður fjallað um síðasta íslenskuáfangann sem nemendur taka á lokaönn sinni við skólann. Áfanginn er á sviði málfræði og málvísinda og lögð er áhersla á samvinnu við kennara annarra greina, einkum forritunaráfanga, auk þess sem hluti áfangans er unninn í samvinnu við Háskólann í Reykjavík.

Fjallað verður um tilraunir kennara til að tengja íslenskukennslu við nútímatækni, svo sem snjalltæki, þýðingavélar, gagnasögn og forritun sem og að ræða ýmsar siðferðilegar spurninga og vangaveltur varðandi tungumálið og menningararfinn. Allt þetta er gert með það fyrir augum að laga kennsluna að tækni og vísindum, sem er áherslusvið brautarinnar, en fylgja um leið hæfniviðmiðum aðalnámskrár.

Auk þess að gera grein fyrir námsmati og kennsluefni verður rætt um niðurstöður kennslumats og skoðanir nemenda, einkum hvort og hvernig þeir telji áfangann muni koma sér að notum framhaldsnámi sínu en langflestir hyggjast þeir fara í nám á sviði tækni- og raunvísinda. Niðurstöðurnar eru, enn sem komið er, mjög jákvæðar en athygli vekur að nemendur eru engu að síður mjög svartsýnir hvað varðar framtíð íslenskrar tungu.
  

Skólaárið 2018-2019 var í gangi Sprotasjóðsverkefnið Skapandi íslenska – MTR krakkarásin í MTR. Verkefnið miðaði að þróun á kennslu í skapandi íslenskuáfanga með áherslu á „framleiðslu“ á stuttum sögum og ævintýrum sem birt yrðu á myndrænan og leikrænan hátt með hjálp margmiðlunarforrita og appa og deilt á internetið þannig að þau yrðu aðgengileg ungum áhorfendum t.d. á youtube.

Vegna utanaðkomandi aðstæðna fór verkefnið af stað með aðeins öðrum hætti. Fleiri kennarar en íslenskukennarar voru fengnir í verkefnið. Ákveðið var að tileinka verkefninu eina til tvær vinnulotur í hinum ýmsu fögum. Búnar voru til verkefnalýsingar fyrir verkefni í þessum fögum. Þær voru allar svipaðar og miðuðu að því að nemendur byggju til margmiðlunarefni með íslensku tali fyrir unga notendur. Efnistökin voru fjölbreytt, allt frá sögum, til efnafræðitilrauna og líkamshreyfingar. Sum með fræðslumarkmið en önnur með skemmtunarmarkmið í huga fyrir unga notendur.

Nemendur voru látnir vinna saman í hópum sem leiddi til almennrar umræðu um íslensku, áhrif ensku og youtube á unga áhorfendur og þau sjálf, umræðu um skýrmæli og leikræna tjáningu sem og þeirra eigin samfélaglegu ábyrgð, t.d. á yngri systkini, frændsystkini og/eða börn.

Fjölgun kennara og faga sem tóku þátt í verkefninu hafði mjög jákvæð áhrif. Kennarar skólans töldu verkefnið ríma við menntunarfræðilega stefnu skólans og stefnu um frumkvæði og skapandi skil verkefna. Reynslan af samvinnu kennara í mismunandi fögum og á mismunandi þrepum mun nýtast kennurum í frekari samvinnu og jafnvel meiri samþættingu milli faga í framtíðinni en verkefnið jók áhuga kennara á samþættingu milli námsgreina.  

Enskudeildin í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ hefur undanfarin ár, en þó sérstaklega síðustu tvö ár, lagt áherslu á orðaforða frá, Averil Coxhead, leiðandi orðaforðasérfræðingi. Hún er höfundur 570 akademíska orðalistans. Hún vill meina að sérstök orðaforðakennsla skili sér ekki endilega til nemenda, frekar ætti að leggja áherslu á að kenna nemendum mismunandi aðferðir til að læra nýjan orðaforða. Einnig sýnir langtíma rannsókn Hafdísar Ingvarsdóttur og Birnu Arnbjörnsdóttur það sama.

Við höfum lagt mikla áherslu á að finna efni sem tengt er samtímanum. Nemendur vinna með efnið á ólíkan hátt. Við höfum verið með lestexta, myndbönd, kvikmyndir og annað efni til að nota í orðaforðakennslu. Efninu er oft skipt í þemu og nemendur vinna með orðaforðann á fjölbreyttan hátt. Í FMOS eru 20 einingar í ensku skylda og í síðasta áfanganum er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér orðaforða tengdan sínu áhugasviði. Markmiðið er að nemendur komi sér upp orðaforðabanka í því efni sem þeir ætla að leggja fyrir sig.

Markmiðið er að nemandi kynnist fjölbreyttum orðaforða frá mismunandi miðlum.

  • Nemendur auka orðaforða sinn og geta notað hann í nýju samhengi.
  • Nemendur vinna með ólíkan orðaforða sem hentar því þrepi sem nemandinn er á, sem þyngist við hvert þrep.
  • Nemendur efla færni sína í að öðlast nýjan orðaforða og kynnast aðferðum til þess.

Enskudeildin fór úr því að vinna sérstaklega með 570 orðalistann yfir í að vinna með mismunandi og fjölbreyttan orðaforða. Við teljum nemendur betri í að tileinka sér nýjan orðaforða og þau hafa nú leiðir til að vinna með orðaforða framtíðarinnar, óháð því hvaða nám verður fyrir valinu.

Á ráðstefnunni munum við kynna okkar aðferðir og koma með sýnishorn af verkefnum. Okkar langar til að fá endurgjöf til að þróa verkefnið áfram.

Haustið 2018 var gerð tilraun í Fjölbrautaskólanum við Ármúla til að bjóða áfanga í pólsku fyrir pólskumælandi nemendur. Markmiðið var að nemendur ættu kost á áfanga þar sem þeir gætu talað móðurmál sitt en einnig fræðst um og þjálfað sig í ýmsu sem tilheyrir pólskri menningu, stjórnmálum o.sv.frv. sem ekki er endilega sinnt á hverju heimili.

Áfangalýsingin hófst með þessum orðum: „Áfanginn er ætlaður pólskumælandi nemendum. Nemendur auka orðaforða sinn og fylgjast með því sem er að gerast í Póllandi á líðandi stundu, svo sem kvikmyndum, tónlist og fréttum almennt. Nemendur hljóta þjálfun í að tjá sig bæði munnlega og skriflega og í sjálfstæðum vinnubrögðum.“ Skólinn fékk styrk úr Sprotasjóði til að vinna gegn brottfalli nemenda af erlendum uppruna og var hluti hans nýttur í þennan áfanga, auk þess sem pólska sendiráðið studdi framtakið með ráðum og dáð. Fimm nemendur luku áfanganum um haustið og voru svo ánægðir að ákveðið var að bjóða framhaldsáfanga vorið 2019.

Hér verður fjallað um hvernig farið var að og byggt á viðtölum við bæði nemendur og kennara. Viðtöl við nemendur leiddu m.a. í ljós að þeim líkaði afar vel að fá tækifæri til að læra á móðurmáli sínu í sínum eigin framhaldsskóla, að þau öðluðust skilning á og fræddust um margt sem kynslóð foreldra þeirra hefur upplifað, ekki síst fyrir hrun kommúnismans, öðluðust nauðsynlegt menningarlæsi sem gagnaðist þegar í stað í samskiptum við ættingja og fylgdust mun betur með pólsku þjóðlífi.

Veturinn 2018 – 2019 var sannarlega lærdómsríkur en furðu má sæta að ekki fyrr en nú sé verið að stíga einhver fyrstu skrefin í að bjóða stórum hópi pólskumælandi Íslendinga nám á móðurmáli sínu.

 

MÁLSTOFUR II KL. 15:05 TIL 15:45

Málstofustjórar segja frá hvernig nýta megi margs konar námefni í kennslu sem varpar ljósi á menningu og sögu hinsegin fólks. Hugmyndir um sérstaka vefsíðu sem inniheldur námsefni og hugmyndir fyrir nemendur og kennara verða kynntar til sögunnar.
Jón Ingvar Kjaran, dósent við deild menntunar og margbreytileika við Menntavísindasvið, gerir stuttlega grein fyrir rannsóknum sínum en þær miða að því að efla sýnileika og rými hinsegin nemenda innan skólastofunnar.

Að endingu verða kynntar hugmyndir um kennslu sérstaks hinsegin áfanga sem yrði sameiginlegt verkefni nokkurra skóla. Hugsunin er sú að áfangi þessi verði kenndur þvert á skóla, í lotum og á netinu í samstarfi við Háskóla Íslands og Samtökin 78.

Markmiðið er að bjóða hinsegin nemendum sem og þeim er áhuga hafa á málefninu vettvang til að fræðast og kynnast. Hugsunin er að brjóta upp veggi stofnana og fá kennara og nemendur í ólíkum skólum til að vinna saman þar sem þeir miðla reynslu sinni en fanga um leið nýja þekkingu.

  • Guðjón Ragnar Jónasson framhaldsskólakennari við Menntaskólann í Reykjavík
  • Jón Ingvar Kjaran dósent við Menntavísindasvíð Háskóla Íslands
  • Kristófer Eggertsson framhaldsskólakennari við Verslunarskóla Íslands
  • Katrín Ólafsdóttir framhaldsskólakennari og doktorsnemi

 

Kynheilbrigði er skilgreint sem verund sem einkennist af líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan þegar kemur að kynlífi. Ein undirstaða kynheilbrigðis er heildstæð kynfræðsla, en kynfræðsla er ævilangt ferli þar sem einstaklingur aflar sér þekkingar og myndar sér skoðanir, viðhorf og gildi um eigin sjálfsmynd og kynverund. Kynverundin er hluti af kjarna hverrar manneskju og felur til dæmis í sér kynhegðun, kyngervi, kynhlutverk, kynhneigð og ánægju. Kynfræðsla er því mikilvæg fyrir alla nemendur óháð skólastigi.

Kynfræðsla hefur verið gagnrýnd fyrir að vera vandamálamiðuð og líffræðileg. Kynfræðsla sem fjallar samhliða um þau samfélagslegu áhrif sem móta kynverund einstaklinga, svo sem hugmyndir um karlmennsku og kvenleika, gagnkynhneigðarhyggju, kynlífshandritið og klámvæðingu, og andlega þætti eins og sjálfsmynd og líkamsímynd er því betur til þess fallinn til að efla nemendur í eigin kynverund og hjálpa þeim að njóta þess kynlífs sem þau kjósa að stunda. Það er mikilvægt að framhaldsskólanemendur fái alhliða og upplýsandi kynfræðslu, að þeim gefist tækifæri á að spyrja spurninga og tala um málefni kynverundarinnar á jafningjagrundvelli með hliðsjón af viðurkenndum fræðum.

Til þess að nemendur í framhaldsskólum fái heildstæða kynfræðslu þarf að bjóða upp á heilan áfanga í kynheilbrigði. Reynsla af kynfræðsluáfanga í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi gefur vísbendingar um að nemendur í framhaldsskóla þurfi á slíkum áfanga að halda. Nemendur virðast hafa gagn af því að læra kynfræðslu, bæði vegna þess að kynfræðslan sem þau fengu í grunnskóla var mögulega ekki næg og vegna þess að þau vilja fá rými til að spjalla saman, ígrunda og eflast í eigin hugmyndum, skoðunum og tilfinningum varðandi kynlíf.

Áfanginn í FVA hefur einungis verið keyrður einu sinni en samkvæmt dagbókum nemena þá fékk hann þá til að ígrunda sín eigin viðhorf, viðhorf samfélagsins og viðhorf fjölskyldu sinnar til hinna ýmsu málefna kynverundarinnar.

Kynnt verður rannsókn sem fjallar um hvernig grunnþættir menntunar í aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 voru innleiddar í einn skóla, þ.e. Kvennaskólann í Reykjavík sem var nokkurs konar þróunarskóli í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðueytið. Rannsóknin miðaði að því að auka skilning á hvað þessir grunnþættir eru, hvernig áhrif þeim er ætlað að hafa á skólastarfið samkvæmt opinberri menntastefnu og síðan hvernig þeir voru útfærðir í skólastarfi Kvennaskólans. Sagt verður frá hvernig grunnþættirnir jafnrétti og lýðræði og mannréttindi skiluðu sér fyrst í skólanámskrána og síðan hvernig þeir höfðu áhrif á efnisval og kennsluhætti. Tvær námsgreinar voru skoðaðar, stærðfræði og félagsfræði, og birting grunnþáttanna innan þeirra.

Byggt er á fjölbreyttum gögnum sem var aflað með eigindlegum aðferðum, skjalarýni, viðtölum og vettvangsathugunum á árunum 2009 – 2014. Textar úr aðalnámskrá og skólanámskrá Kvennaskólans voru greindir og hálfstöðluð viðtöl tekin við alla kennara, alls 9, í námsgreinunum tveimur, ásamt því að fylgst var með á vettvangi kennslu hjá sömu kennurum. Stuðst var við greiningarramma Morais og Neves, byggðan á kenningum Bernsteins. Í þessari rannsókn var greiningarrammanum beitt til að greina hvar og hvernig grunnþættirnir jafnrétti og lýðræði og mannrétttindi birtast í ferlinu frá aðalnámskrá og þar til þeir birtast í framkvæmd í skólastarfi í samskiptum nemenda og kennara.

Kenningum Basil Bernsteins er beitt til að greina orðræðuna um menntun (e. pedagogic discourse) eins og hún birtist í opinberri stefnu í aðalnámskrá, síðan er því fylgt eftir hvernig Kvennaskólinn staðfærði stefnuna í skólanámskrá og síðar í framkvæmd í skólastarfi.

Kenningar Bernsteins reyndust hjálplegar til að greina og skilja betur orðræðu menntunar í aðalnámskránni og skólanámskránni, ásamt orðræðunni innan námsgreinanna tveggja. Niðurstöðurnar sýna mikilvægi þess að greina aðskilið skólanámskrána þ.m.t. áfangalýsingar í námsgreinunum og hins vegar orðræðuna á vettvangi í framkvæmd í kennslustundum. Þótt grunnþættir menntunar séu ekki sýnilegir í inntaki náms og aðferðum eins og þeim er lýst í áfangalýsingum í skólanámskrá og námsáætlunum geta þeir birst í samskiptum kennara og nemenda í skólastofunni. Þessi niðurstaða fékkst fram með því að beita vettvangsathugunum til viðbótar við textagreiningu og viðtöl og hentuði kenningar Bernsteins mjög vel í þeim tilgangi. Einnig sýna niðurstöður hversu faggreinasjónarmið kennara hafa mikil áhrif á útfærslu opinberrar menntastefnu eins og hún birtist nemendum í skólastofunni.  

Rökræður, gagnrýnin hugsun, gagnrýnislæsi
Þetta þróunarverkefni er unnið út frá grunnþáttunum lýðræði og mannréttindi. Samkvæmt nýrri Aðalnámskrá eiga nemendur í framhaldsskóla ekki bara að læra um lýðræði heldur einnig tileinka sér það í framkvæmd, vera þátttakandi, að læra um lýðræði í lýðræði.

Þróunarmarkmið/rannsóknarspurning
Þjálfa lýðræðisborgara framtíðarinnar í að taka virkan þátt í að skapa það samfélag sem viðkomandi býr í, beita gagnrýnni hugsun og vera meðvitaður um sig í stærra samhengi, tileinka sér samábyrgð.
Efla samvitund, þjálfa hæfni í að og tileinka sér upplýsta afstöðu, tileinka sér gagnrýna hugsun og gagnrýnislæsi, vera læs á málefni og umræðu, tileinka sér hæfni í rökræðum/umræðum, hlusta á sjónarhorn annara, ígrunda. - Og ekki síst geta beitt ólíkum sjónarhornum á málefnin og átta sig á því í víðara samhengi.

Aðferð
Í þessari rannsókn hefur áfangi í kynjafræði orðið fyrir valinu. Tvær leiðir hafa verið valdar að markmiðinu.
Annars vegar umræðuhringur með féttaflutningi – með kennara sem stjórnar og leiðir umræðuna.
Hins vegar örlítið flóknari útfærsla, aðferð sem kallast stýrð umræða með eða án kveikju – án kennara, sem situr til hliðar og tekur ekki þátt. Hér fer kennarinn úr miðlunarhlutverki sínu og treystir nemendum til að ráða ferðinni. Nemendur mynda tvo hringi, sá innri tekur þátt í umræðum, sá ytri mælir útkomuna. Eitt af lykilatriðum hér er öryggi innan hópsins.

Helstu niðurstöður
Hefur sýnt sig að í umræðuhring með fréttaflutningi er það mikið sömu nemendur sem taka til máls, og styðja sig við kennarann, að hann leiði umræðuna.
Í stýrðri umræðu hins vegar taka fleiri til máls, sérstaklega þar sem það hefur gilt til einkunna – hefur hvatt fleiri til að tjá sig og taka þátt. Mikil áskorun í fyrstu en hefur þróast í að fleiri láta til sín taka.
 

Við líffræðikennarar við MS höfum endurskipulagt kennsluna talsvert í kjölfar aukinnar áherslu á námshæfni í Aðalnámskrá framhaldsskóla frá 2011. Við viljum að nemendur taki virkan þátt í námi sínu. Þrátt fyrir að hafa tekið upp fjölbreytta kennsluhætti m.a. með samvinnunámi og skapandi verkefnum hefur vantað upp á það hjá of mörgum nemendum að þeir leggi kraft og metnað í verk sín. Hvað er til ráða? Ég tel það grundvallaratriði að vekja áhuga nemenda á líffræði. Brýnt er að setja skýr markmið með verkefnum, bæði þekkingarleg en ekki síður færni- og hæfniviðmið.

Undanfarin tvö ár hef ég tekið þátt í þróunarverkefni um innleiðingu leiðsagnarnáms við MS og hef ég einbeitt mér að skýrri markmiðasetningu, matskvörðum, jafningjamati og aukinni leiðsögn meðan á námi stendur.

Ég mun gera grein fyrir starfendarannsókn minni þar sem markmiðið var að auka áhuga nemenda á líffræði, efla námskraft og ábyrgð nemenda á eigin námi. Í því augnamiði gaf ég nemendum aukið frjálsræði við námið og nokkurt val um verkefni eftir hæfni og áhuga hvers og eins. Ég skipti áfanganum í 2-3 vikna lotur, setti fram verkefnahefti í byrjun hverrar lotu en í því voru skylduverkefni til þess gerð að nemendur tileinkuðu sér efnið og valverkefni þar sem nemendur dýpkuðu þekkingu og skilning eftir áhugasviði og hæfni. Nemendur gátu unnið verkefnin á eigin hraða innan hverrar lotu og ég fékk betri tíma til að leiðsegja nemendum eftir þörfum. Verkefnin höfðu skýr hæfniviðmið en útfærsla þeirra var í mörgum tilfellum á ábyrgð nemenda. Afurð verkefna var á ýmsu formi s.s. vísindasmásaga, myndbandsgerð, námsspil, verklegar æfingar og teiknimyndasaga.

Ég mun gera grein fyrir niðurstöðum þessa tilraunaverkefnis, bæði mati mínu og viðhorfi nemenda til þessa námfyrirkomulags.

Innan skólasálfræðinnar hefur lengi verið horft framhjá líðan í æðra námi nema þá helst í tengslum við kvíða. Rannsóknir hafa sýnt, að tilfinningar nemanda meðan á námi stendur sýna marktæka fylgni við drifkraft, námsskipulagningu, námsgetu, sjálfsstjórn og námsárangur nemandans og einnig marktæka fylgni við persónuleika nemandans og skipulag kennslunnar. Þessar niðurstöður benda til þess að það sé full ástæða til að gefa þessum þáttum gaum til að auka gæði og árangur æðra náms (1).

Önnur rannsókn (2), fjallaði um það hvernig nemendur upplifðu líðan sína í námi með tilliti til þess hverjar framfarir í námi voru hjá viðkomandi einstaklingum. Nemendur voru látnir læra á tölvuöpp með vélrænum leiðbeinanda, þar sem boðið var upp á spurningar frá nemdum sem talvan svaraði. Greint var milli sex tilfinningaþátta, þ.e. gremju, leiðinda, flæðis, þokukenndrar áttunar (confusion), já einmitt!(eureka) og hlutlausri tilfinningu.

Allir þessir tilfinningaþættir geta verið til staðar hjá einstaklingi meðan á námi stendur. Rannsóknirnar leiddu í ljós marktæk tengsl milli framfara í námi og leiða, flæðis og þokukenndrar áttunar (confusion). Jákvæð marktæk tengsl, sem fundust milli þokukenndrar áttunar (confusion) og námsárangurs eru í samræmi við líkan sem gerir ráð fyrir að vitrænt ójafnvægi, í leit að jafnvægi, sé ein af grundvallarforsendum æðra náms. Neikvæð fylgni milli námsárangurs og leiðinda og jákvæð fylgni milli námsárangurs og flæðis er í samræmi við áður fengnar niðurstöður flæðisrannsókna Csikszentmihalyi et.al.

Það sem ég kem til með að fjalla um í erindi mínu er það hvernig reynt hefur verið að taka tillit til þessara niðurstaðna í kennsluháttum áfanga í raungreinum með allgóðum árangri.
____
(1)Academic Emotions in Students' Self-Regulated Learning and Achievement: A Program of Qualitative and Quantitative Research
Reinhard Pekrun,Thomas Goetz,Wolfram Titz &Raymond P. Perry
Pages 91-105 | Published online: 08 Jun 2010
Educational Psychologist
Volume 37, 2002 - Issue 2
(2) Affect and learning: An exploratory look into the role of affect in learning with AutoTutor
Scotty Craig, Arthur Graesser, Jeremiah Sullins & Barry Gholson
Pages 241-250 |
Published online: 21 Jul 2010

“Suppose you have a brown monkey who lives in the forest and meets a red fish from the sea and out of their conversations a new idea comes. That‘s what I call a red monkey“
Jef Staes (The Red Monkey Story)

Við verðum að vilja og þora að tala saman þó við tilheyrum ólíkum námsgreinum (tungumál og raungreinar) og deilum ólíkri sýn á nám, kennsluaðferðir og námsmat - við verðum að vilja og þora að prófa eitthvað nýtt, breyta og bæta. Við verðum að vilja og þora að vera rauðir apar.

Undirritaðar eru brúnn api og rauður fiskur, þ.e. kenna ólíkar námsgreinar en hafa talað mikið saman um nám, kennsluaðferðir og námsmat. Þetta samtal hefur verið endalaus uppspretta hugmynda, vangaveltna og breytinga og hefur leitt til þess að oftar en ekki er stokkið beint út í djúpu laugina í kennslustundum og rauði apinn látinn taka við.

Á vorönn 2018 unnu undirritaðar þróunarverkefni í FVA og hittust á vikulegum fundum til að ræða kennsluaðferðir, námsmat og nám nemenda.

Af nógu var að taka en ákváðið var að að einblína á samvinnunám eitthvað sem við höfðum byrjað á í starfshópi um fjölbreytta kennsluhætti á vorönn 2017. Báðar höfum við það sem markmið að þora að breyta og prófa (vilja vera rauðir apar!) í kennslustundum, láta nemendur vera virka þátttakendur í námi og skipulagi náms og leyfa námsmati að breytast frá önn til annar.

Við rýndum á gagnrýnan hátt í okkur sem kennara, rýndum í nám nemenda, lögðum fyrir þá spurningar og leyfðum þeim að hafa áhrif á sitt nám og vöktum þá jafnframt til umhugsunar um það hvernig nemendur þeir væru. Ólíkar námsgreinar geta nefninlega nýtt sér svipaðar kennsluaðferðir og hugmyndir.

Kristín Luise Kötterheinrich og Þorbjörg Ragnarsdóttir
 

Í erindinu verður kynning á starfendarannsókn félagsfræðikennara þar sem markmiðið er að bæta mig í starfi með því að innleiða leiðsagnarnám og byggja upp námsmenningu um námskraft nemenda. Byggt er á aðferðafræði Jean McNiff um starfendarannsóknir. Rannsóknaraðferðir mínar eru dagbókin mín, könnun á meðal nemenda, viðræður við nemendur, dagbækur og verkefni nemenda. Hugtakarammi starfsemiskenningar Yrjö Engestöm er nýttur við greiningu gagnanna og haft er til hliðsjónar mikilvægi þess að beina athygli að togsteitu í starfinu.

Kenning Dylan Wiliam um lykilþætti leiðsagnarmats er höfð að leiðarljósi við innleiðingu leisagnarmats og kenning Guy Claxtons um námskraft við innleiðingu námsmenningar um námskraft nemenda. Helstu niðurstöður eru að ég hef byrjað að innleiða leiðsagnarnám í mína kennslu með fjölbreyttum verkefnum, umræðum nemenda, markmiðssetningu með öllum verkefnum, gátlistum fyrir mat á stærri verkefnum, munnlega endurgjöf, einstaklingsmiðuðu námsmati, sjálfsmati, jafningjamati og viðtölum við nemendur.

Einnig hef ég byrjað að innleiða námsmenningu um námskraft nemenda með því að hafa samtímis í huga innihald náms, meðnám og námsumhverfi, með kynningu á hugmyndafræðinni, veggspjöldum um námskraftinn, hópavinnu byggð á námsvinum og dagbókum námsvina. Ég hef upplifað ýmsa kosti við leiðsagnarnámið t.d. aukna virkni nemenda, meiri jákvæðni í samskiptum og betri hópanda. En ég hef einnig upplifað togstreitu sérstaklega við að veita munnlega endurgjöf og hversu tímafrekir ýmsir verkþættir eru t.d. viðtöl við nemendur og úrvinnsla úr sjálfsmati og jafningjamati nemenda. Kjarkur minn og þor til breytinga hefur aukist í gegnum starfendarannsókn mína.

Á Íslandi gera mörg ungmenni hlé á framhaldsskólanámi. Það hefur að hluta verið rakið til sveigjanleika skólakerfisins að því leyti að nemendur eiga auvelt með að hætta og byrja aftur síðar. Líklegt má telja að áhrifin geti bæði verið jákvæð og neikvæð fyrir námsferilinn. Aftur á móti hafa mjög fáar rannsóknir beinst að nemendum sem snúa aftur í nám.

Tilgangur rannsóknarinnar var tvíþættur. Annars vegar að draga fram einkenni framhaldsskólanemenda sem gera hlé á námi og hins vegar áhrif þess á námsferil þeirra. Notuð voru gögn úr langtímarannsókninni Námsframvinda nemenda og skilvirkni framhaldsskóla. Gagnasöfnun fór fram árið 2007 og náði til allra almennra framhaldsskóla á landinu. Þátttakendur voru 1326 á aldinum 17 og 18 ára.
Niðurstöður benda til að þeir sem tóku hlé áttu foreldra með litla formlega menntun, stóðu verr að vígi námslega, og sýndu minni skuldbindingu til náms og skóla samanborið við aðra nemendur. Niðurstöður aðhvarfsgreiningar hlutfalla sýndu að námshlé spáði fyrir um brotthvarf úr framhaldsskóla. Nemendur sem gerðu hlé á námi voru ólíklegri til að hafa lokið framhaldsskólanámi við 23 og 24 ára aldur. Þetta kom fram að teknu tilliti til bakgrunns nemenda, fyrri námsárangurs og skuldbindingar þeirra til náms og skóla.

Rannsóknin gefur vísbendingu um, að þó svo nemendur hætti námi, þarf það ekki þýða endalok námsferils þeirra, heldur byrjar nokkur hluti þeirra aftur í námi og lýkur því. Það átti einkum við um nemendur sem tóku stutt hlé frá námi, stóðu betur námslega og sýndu meiri skuldbindingu. Niðurstöðurnar ættu að gagnast fagaðilum til að taka betur á móti þessum nemendum þegar þeir snúa aftur í nám og veita þeim þann stuðning sem þeir þarfnast til að ljúka því. 

Erindi um þróunarverkefni í framhaldsskólanum á Laugum. Haustið 2017 byrjuðum við á kerfisbreytingum þar sem hefðbundnum kennslutímum var fækkað niður í 2 á viku og þannig skapað svigrúm fyrir fjóra hálfa daga með samfelldum tíma nemenda og kennara í vinnustofum. Þar eru allir nemendur og flestir kennarar við vinnu. Nemendur skipuleggja viðfangsefni sín sjálfir en hafa aðgang að kennurunum eftir því þurfa þykir. Út úr þessum vinnustofum geta kennarar tekið nemendur. Til þess að samræma og skipuleggja þessar úttektir er nauðsynlegt að halda vikulega skipulagsfundi með kennurum. Á þessum fundum verður til fljótandi stundaskrá næstu vikna sem send er með rafrænum hætti á nemendur og kennara. Til að gera nemendur ábyrgari fyrir námi sínu og þeim sé unnt að skipuleggja tíma sinn í vinnustofum hefjast þær á standandi fundum. Þar standa nemendur upp og segja að hvaða verkefnum þeir ætla að vinna og er það skráð á töflu sem hangir á vegg. Þar kemur einnig fram hvort nemandinn óskar aðstoðar. Til þess að styðja enn frekar við þessar skipulagsbreytingar þarf að auka vægi rafrænna kennsluhátta, s.s. vendikennslu.

Unnið er með eftirfarandi lykilhugtök; Líkaminn, hreyfing, næring, hvíld, geðheilbrigði, siðvitund, félagsfærni, kynheilbrigði, umhverfi, menning, listir og upplýsingalæsi. Eiga þær áherslur að vera greinilegar í öllum kenndum áföngum sem og í öðru starfi skólans. Markmiðið er að nemendur tileinki sér þessar stoðir sem grunn fyrir lífstíl sinn til framtíðar. 

 

MÁLSTOFUR III KL. 15:55 TIL 16:35

Samstarf skóla og vinnustaða - Stöðluð vinnubrögð, sameiginleg ábyrgð þriggja aðila.

Sagt er frá alþjóðlegum verkefnum sem VMA hefur átt aðild að og miða að því að þróa vinnubrögð við samstarf skóla og vinnustaðar þegar nemi er í vinnustaðanámi / starfsþjálfun.

Grundvallar viðhorf er að gera þrjá aðila ábyrga fyrir námi nemans. Skóli - Vinnustaður - Nemi

Alþjóðleg verkefni. POETE. 2008 - 2010. Portfolio of Evidence To Europe. Þróuð og prófuð fyrirlögn á vinnubók sem nemar áttu að bera ábyrgð á og sýna eigin vinnu og hæfni. WorkMentor. 2011 - 2013. Þróa námskeið og umræðuvettvang fyrir starfsmentora á vinnustöðum til að styðja nema/nýliða á vinnustaðnum. WorkQual. 20014 - 2016. Þróuð handbók um þau skref sem þarf að taka þegar skóli og vinnustaður vinna saman að þjálfun nema. (Í gæðastjórnunarstíl.)

Niðurstaða: Hægt er að nota hliðstæð og sömu vinnubrögð þegar nám í skóla er samþætt námi og þjálfun á vinnustað óháð hæfniþrepi, faggrein og atvinnugrein. Alltaf þarf að sjá fyrir og fara yfir sömu atriðin en til viðbótar koma faglegu, greinabundnu atriðin sem verið er að þjálfa.  

Í erindi mínu hef ég hug á að fjalla um hluta meistararitgerðar minnar þar sem ég framkvæmdi rannsókn á Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu. Skólinn er einn sá fámennasti hérlendis en litlir skólar á landsbyggðinni hafa ekki fengið mikla athygli í rannsóknum hingað til. Hluti af markmiði rannsóknarinnar og það sem lögð verður áhersla á í þessu erindi, er að varpa ljósi á hvernig skólinn hefur tekist á við áskoranir sem tengjast nýjum þörfum fyrir menntun á sviði ferðaþjónustu vegna fjölgunar ferðamanna í nágrenni sínu. Í því samhengi er fjallað sérstaklega um þróun náms á fjallamennskubraut sem staðið hefur yfir síðustu ár og um fjölþjóðlegt verkefni sem skólinn tekur þátt í sem kallast ADVENT og snýr að námi á þessu sviði.

Um er að ræða tilviksrannsókn þar sem gögnum var safnað með vettvangsathugunum, viðtölum og greiningu fyrirliggjandi gagna. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar er á sviði menningar-sögulegrar starfsemiskenningar, kenninga um samsett nám og kenninga um starfssamfélög. Í þeim hluta sem fjallað verður um í erindinu er þó greiningartólum sem falla undir menningar-sögulega starfsemiskenningu fyrst og fremst beitt.

Niðurstöður leiddu meðal annnars í ljós að FAS er í mjög nánu sambandi við nærsamfélag sitt og eitt af meginmarkmiðum skólastarfsins er að mæta þeim þörfum sem þar eru til staðar. Til að bregðast við þörfum fyrir nám á sviði ferðaþjónustu hefur skólinn þróað nám á fjallamennskubraut. Með því að beita greiningartólum sem byggja á menningar-sögulegri starfsemiskenningu var þróun þess greind. Greiningin til að mynda í ljós hvaða þættir hafa stutt við þróun námsins og einnig hvað hefur torveldað að mögulegt væri að sinna öllum þeim þörfum sem því var ætlað í upphafi. Aðlögun námsins að framhaldsskólakerfinu krafðist þess að gerðar hafa verið á því ýmsar breytingar sem hafa valdið því að námið hentar ekki fullorðnu fólki sem er starfandi í ferðaþjónustu. FAS hefur því þurft að leita nýrra leiða til að sinna þessum þörfum þrátt fyrir að fjallamennskunámið sé orðið viðurkenndur hluti af námsframboði hans.

Hvað er það sem veldur því að nemendur eru virkari í sumum kennslustundum en öðrum? Og hvað er það í hegðun og viðmóti kennara sem hvetur nemenda til að taka virkan þátt í því sem kennarinn ætlast til?

Á árunum 2013–2014 safnaði 15 manna hópur rannsakenda frá Háskóla Íslands ítarlegum lýsingum á 130 kennslustundum í níu íslenskum framhaldsskólum sem annars vegar fólust í því að skrá og tímasetja framvindu hverrar stundar og hins vegar lögðu einn til tveir rannsakendur sem sátu hverja stund mat á kennslustundina strax að henni lokinni. Unnið hefur verið úr þessum lýsingum á margvíslegan hátt. Í þessu erindi er kannað hverjar voru athafnir kennara og viðmót í þeim stundum þar sem nemendur voru virkastir. Í því skyni voru greindar ítarlega þær 83 kennslustundir þar sem a.m.k. 75% nemendanna voru virkir þátttakendur í því sem kennarinn ætlaðist til a.m.k. 75% af stundinni. Þessar stundir nefnum við virknistundir og tilgangurinn með að rýna sérstaklega í þær er að afla upplýsinga um þær aðstæður sem virðast skapa virka nemendur.

Unnið var úr mati rannsakenda á kennslustundunum með þemagreiningu og greindir fjórir helstu flokkar athafna og viðmóts kennara. Flokkarnir eru: jákvætt viðmót, hlýlegt andrúmsloft, skýr fyrirmæli og hvetjandi kennari. Alls voru greind 243 tilvik flokkanna í kennslustundunum 83. Jákvætt viðmót kennara kom fram í 72 stundum, hlýlegt andrúmsloft í 61 stund, skýr fyrirmæli í 59 stundum og hvetjandi kennari í 51 stund. Algengast var að tveir til þrír flokkar birtust í sömu kennslustundinni, það er í 40 stundum, og allar athafnirnar í 35 kennslustundum en sjaldan bara einn flokkur. Höfundar álykta út frá þessum gögnum að athafnir og viðmót kennara skipti miklu máli fyrir virkni nemenda.

Kynning á Erasmus verkefninu Appmentor sem gekk út á að að þarfagreina um það bil 60 smáforrit eða öpp með hliðsjón af því þegar skóli, vinnustaður og nemi þurfa að hafa samskipti í rauntíma.
Sendir voru út spurningalistar til fyrirtækja á Norðurlandi, farið í heimsóknir og forsvarsmönnum fyrirtækja og áhugamönnum um vinnustaðanám boðið til hádegisverðar í VMA. Spurningar snéru að mestu um álit þeirra á notkun samfélagsmiðla við vinnustaðanám, hvort þeir notuðu slíkt, hvort annmarkar væru á notkun þeirra, í hvað þeir myndi nota appið o.s.frv.

Rýnihópur og hádegisfundur fór í létt spjall um hvaða skilyrði þarf fyrirtæki að uppfylla til að hafa nema í vinnustaðanámi? Hvaða skilyrði þarf skólinn að uppfylla? Hvaða skilyrði þarf nemandinn að uppfylla? Flest fyrirtæki vildu fá áhugasama nemendur og leist vel á þessa hugmynd. Þó voru áhyggjur af nokkrum hlutum eins og tíma, greiðslum og tryggingamálum nemenda. Ekki er ljóst hvort nemendur séu tryggðir og hvernig á að snúa sér í þeim málum. Jafnframt er ekki ljóst hvort eða hvernig nemendur ættu að vinna verkefni á vegum skólans í þessum heimsóknum. Mörg fyrirtæki á Íslandi eru með fáa starfsmenn og nokkra sérhæfingu. Því gæti komið upp sú staða að fyrirtækið væri ekki með “rétt” verkefni í náminu. Þetta eru aðeins nokkur dæmi.

Meginniðurstaðan er þó að það er iðngreinabundið hvaða samfélagsmiðlar eru notaðir í vinnu og einkalífi.

Lokaafurð verkefnisins er heimasíða sem býður upp á námskeið á netinu í tengslum við notkun á átta smáforritum sem vel koma til greina til samskiptanotkunar þegar nemandi er í vinnustaðanám/i á vegum skóla. Smáforritin eru Trello, WhatsApp, Facebook, Messenger, Workplace, Workchat, Wunderlist og Instagram. Hér er hægt að kynna sér smáforritin og kosti þeirra og galla þegar kemur að samskiptum milli skóla, vinnustaðar og nema. Hér er hægt að nálgast heimasíðu verkefnisins.
 

IÐNÚ útgáfa stendur að tilraunaútgáfu og -kennslu á völdu námsefni í vefbókarformi fyrir framhaldsksólastigið með sérstakri áherslu á iðn- og verknám. Stefnt er að því að nemendum í viðkomandi námsgreinum í iðn- og verkmenntaskólum í landinu, sem eru jafnframt aðildarskólar IÐNMENNTAR, verði boðið námsefnið ókeypis í tilraunskyni á haustönn 2019. Almenn sala og dreifing mun svo hefjast fyrir vorönn eða í janúar 2020.

Notaður verður þaulreyndur hugbúnaður frá dönsku námsbókaútgáfunni Systime (sjá: www.systime.dk), sem hefur verið í notkun og þróun þar í landi s.l. átta ár. IÐNÚ útgáfa hefur með samningi, undirrituðum í febrúar 2019, tryggt sér notkunarrétt á þessum hugbúnaði fyrir útgáfu vefbóka á íslensku.

Nú þegar eru 4 bækur tilbúnar í kerfinu en fleiri munu svo bætast við eftir því hvernig viðtökur þessi nýjung fær. Þessar bækur eru:

1. Vinnuvernd – kennslubók í vinnuvernd eftir Eyþór Víðisson fyrir allar iðngreinar.
2. Bakarabókin – nýtt námsefni um brauð- og kökugerð, þýtt og staðfært úr sænsku fyrir nám í bakaraiðn.
3. Stærðfræði 1 – ný kennslubók eftir Gísla Bachmann og Helgu Björnsdóttur fyrir fyrsta þrep í framhaldsskóla. Sérstaklega samin sem undirbúningur fyrir iðnnám.
4. Líffræðibókin – nýtt námsefni, þýtt og staðfært úr dönsku.

Að okkar áliti skapast tækifæri til að blása nýju lífi í námsbókaútgáfu á framhaldsskólastigi með þróun á vefbókakerfi fyrir gagnvirkar kennslubækur. Auk þess felur slík útgáfa í sér lækkun á kostnaði á námsbókum til nemenda um leið og gefnar eru út uppfærðar og aðgengilegar vefbækur. Þar að auki er hægt að bjóða upp á einstaklingsmiðað nám, nýta tæknilegar lausnir í kennslu, tengja kennslubækur við annað námsefni og fylgja þeirri tæknilegu samfélagsþróun sem ný kynslóð framhaldskólanema lifir og hrærist í. Hugbúnaðurinn sem IÐNÚ hefur kosið að vinna með býður jafnframt upp á þann möguleika að unnt verði að framleiða prentuð eintök af vefbókunum sé þess óskað.

Við sjáum fram á mikla hagræðingu með þessari útgáfu, bæði fyrir útgefendur, höfunda og notendur. Vefbækur stytta boðleiðina á milli þessara aðila, auðvelt og aðgengilegt er að uppfæra kennsluefnið og notendur fá tækifæri til að vera virkir þátttakendur í útgáfuferlinu.

Síðast en ekki síst er um að ræða mikla hagræðingu fyrir nemendur. Vefbækurnar bjóða upp á heildrænt námsumhverfi, þar sem lesefni, myndskýringar, orðskýringar, glósur og verkefni eru tengd saman í einum miðli.

Reykjavík, 8. júlí 2019
Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri 

Á vorönn 2018 hóf hópur kennara í FMOS vinnu við að þróa úrræði fyrir nýnema sem hafa ekki staðist námsmarkmið grunnskólans. Afrakstur vinnunnar varð námsbrautin Framhaldsskólabrú, þar sem megináhersla brautarinnar er að sporna við brotthvarfi þessa nemendahóps. Kennsla hófst á brautinni á haustönn 2018. Lagt er upp með að styrkja sjálfsmynd nemendanna og byggjum við á hugmyndum um mannkostamenntun (e. character education) og vaxtarmiðað hugarfar (e. growth mindset). Kennt er í 3ja eða 4ra vikna þemum, nemendur safna einingum jafnóðum og það eru alltaf tveir kennarar í hverri kennslustund. Dæmi um þemu eru: Sjálfsmynd og siðferði, Matur og markmið.

Þrír kennarar halda utan um brautina og skiptast þeir á að sjá um kennslu ásamt fagkennurum sem tengjast þemunum. Rík áhersla er á að nemendur finni að þeir hafi áhrif á eigið nám, bæði í gegnum verkefnin og í einstaklingsviðtölum við kennara. Jafnframt er lögð áhersla á samskipti, bæði milli nemenda, nemenda og kennara, sem og við foreldra.

Kennt hefur verið á brautinni í einn vetur og virðist upplifun nemenda og foreldra vera góð, nemendur hafa jákvæðari sýn á skólastarf. Könnun í vetrarlok sýnir að sjálfmynd og vellíðan nemendanna hefur aukist. Af þessum viðkvæma hópi nemenda, sem rannsóknir sýna að eru í mikilli brotthvarfshættu, eru enn 88% nemenda sem byrjuðu á brautinni virk í skólastarfi í lok vetrarins.

Við teljum okkur hafa náð markmiðum okkar eftir þetta fyrsta ár, þó það sé ýmislegt sem við vitum að betur má fara á næsta ári, t.d. ákváðum við að lengja þemun og auka einingafjöldann í hverju þema. Við teljum líka þörf á því að hafa einstaklingsviðtölin markvissari til að ræða væntingar nemenda til námsins og framgang þess. Við lítum á þessa ráðstefnu sem kjörið tækifæri til að fá álit annarra á þetta verkefni okkar, enda er það í stöðugri þróun.  

Vitað er að nám og kennsla þarf að taka mið af samtímanum en það er illmögulegt nema starfsfólk skóla nái að mynda sterk lærdómssamfélög þar sem fólk sækir sér kunnáttu og færni úr öllum áttum, miðlar til hvers annars og eflist í eigin fagmennsku. Þessi þróun getur átt sér stað í ýmsum hornum en það vantar mikið uppá til þess að skólasamfélagið læri og þróist sem heild. Styrkur var veittur úr Sprotasjóði til SamNOR skólanna á Norðausturlandi til að hrinda af stað verkefni sem byggist á að halda menntabúðir í hverjum framhaldskóla sem og sameiginlegar menntabúðir fyrir alla framhaldsskólana.

Nemendur hafa oftast staðið utan sviga þegar skólamál eru annars vegar en auðvitað miðast öll skólaþróun í grunninn að heill og velferð nemenda. Það er því mikilvægt að koma því svo í kring að nemendur verði virkur hluti af lærdómssamfélaginu. Þess vegna er gert ráð fyrir að nemendur komi með virkum hætti inn í menntabúðir skólanna og að þeir verði aðstoðaðir eftir þörfum við að koma sínum hugðarefnum að.

Verkefnið mun standa yfir tvö ár þar sem hver skóli mun halda sínar eigin menntabúðir nokkrum sinnum á önn og þeir sem eru með erindi fá borgað fyrir þá vinnu. Stórar menntabúðir verða svo á hverri önn þar sem allir skólarnir hittast og málstofur verða frá hverjum skóla.

Nemendamenntabúðir verða á hverju skólaári og þær verða að mestu leyti í höndum hagsmunaráða skólanna en þó munu kennarar teymisins auðvitað verða þeim til aðstoðar ef þörf er á. Í erindinu verður fjallað um hvers vegna farið var í þetta verkefni, hvernig verkefninu verður háttað og að lokum um vonir þeirra sem standa að þessu verkefni um hverju það á að skila.

Þetta verkefni er byggt að tveggja ára þróun menntabúða innan Menntaskólans á Akureyri.

Eftir langt og strangt breytingarferli í MS og nýja námskrá hefur verið unnið að þróunarverkefni um leiðsagnarnám síðastliðin tvö skólaár. Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði og hefur að markmiði að bæta nám og kennslu, þróa símatskerfi í áföngum og efla þar með nám nemenda. Þetta samræmist stefnu skólans þar sem stuðst er við hugmyndafræði Guy Claxton um að efla seiglu og námskraft nemenda.
Leiðsagnarnám í MS byggir á fræðilegum hugmyndum Black og Wiliam (Wiliam, 2018, 2013; Black og Wiliam, 2001, 2009; Black et al 2003) og hugmyndum Shirley Clarke (2014) um leiðsagnarnám. Þau segja að leiðsagnarnám sé leiðsegjandi svo lengi sem námsmat sé notað til þess að bæta kennsluhætti og ákvarða næstu skref í kennslu.

Hópur kennara við skólann hefur öðlast fræðilega þekkingu á leiðsagnarnámi, skilning á grundvallaruppbyggingu þess, útbúið matskvarða og prófað að beita einföldum matsaðferðum við leiðsagnarnám. Allir þátttakendur settu sér starfsþróunarmarkmið út frá fimm lykilþáttum leiðsagnarnáms samkvæmt kenningum Black og Wiliam:

1. Útskýra og miðla námsmarkmiðum og viðmiðum svo nemendur skilji.
2. Nota markvissar spurningar, viðfangsefni og samræður sem gefa vísbendingar um hvort markmiðum hafi verið náð.
3. Veita endurgjöf sem gefur upplýsingar um næstu skref í námi.
4. Námsskipulag sem stuðlar að samvinnu og félagastuðningi milli nemenda.
5. Sjálfsmat sem á að auka ábyrgð og sjálfstæði nemenda í námi.
Í fyrirlestrinum verður starfssemi þróunarhóps um leiðsagnarnám í MS kynnt og hvernig hann byggir á grunni áralangrar hefðar fyrir starfendarannsóknum í skólanum. Kynnt verða verkefni kennara, aðferðir sem hafa verið notaðar og hvernig verður unnið með leiðsagnarnám í skólanum í framtíðinni.

Heimildir:

Black, P. og Wiliam, D. (2001). Inside the Black Box. Raising Standards Through Classroom Assessment. BERA.
Black og Wiliam. (2009). Developing a Theory of formative assessment í Educational Assessment. Evaluation and Accountability 21:5
Black, P., Harrison, C., Clee, C., Marshall, B., Wiliam, D. (2003). Assessment for Learning. Putting it into practice. Maidenhead: Open University Press
Clarke, S. (2014) Outstanding Formative Assessment. Culture and Practice. London: Hooder Education
Hattie, J. og Clarke, S. (2018). Visible learning – Feedback. Routledge.
Leahy, S., Lyon, C., Thompson, M. and Wiliam, D. (2005). Classroom Assessment. Minute by Minute, Day by Day.
Regier, N. (2012). Book Two: 60 Formative Strategies. Focus on Student Learning – Instructional Strategies Series. Regier Educational Resourses https://www.teacherspayteachers.com/Product/Book-Two-60-Formative-Assessment-Strategies-635493
Wiliam, D. (2018). Embedded formative assessment. Bloomington: Solution Tree Press.
Wiliam, D. (2013). Assessment: The Bridge between Teaching and Learning. Í Voices from the Middle. 21:2

Samkvæmt innbyggðum leikreglum samfélaga getur enginn átt tilkall til réttinda sem samfélagsþegn nema uppfylla ákveðnar skyldur. Meðal annars að koma fram við aðra í samfélaginu með virðingu og á siðferðilega ábyrgan hátt. Að vera meðvitaður um bæði réttindi og skyldur sem samfélagsþegn er kallað borgaravitund. Í dag fer líf okkar að miklu leyti fram á netmiðlum, bæði þekkingaröflun okkar og samskipti. Það er því þörf á að skilgreina borgaravitund með hliðsjón af því. Í því sambandi er talað um svokallaða stafræna borgaravitund. (e. digital citizenship). Stafrænn borgari er sá sem notar upplýsingatækni til þátttöku í samfélagi og stafræn borgaravitund er til staðar þegar netborgari þekkir bæði rétt sinn og skyldur, og notar Netið á ábyrgan hátt.

Í erindinu „Hvernig má efla stafræna borgaravitund?“ er markmiðið að gera grein fyrir stöðu stafrænnar borgaravitundar og reyna álykta hvernig skólar og þá meðal framhaldsskólar gætu stuðlað að eflingu borgarvitundar, einkum hvað varðar samskipti og siðferði á samskiptamiðlum. Í þessu sambandi verður fjallað í fyrsta lagi um niðurstöður nýlegra erlendra rannsókna í öðru lagi um íslenska eigindlega rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við tvo framhaldsskólanema. Í þriðja lagi er fjallað um hugmyndfræði félags- og tilfinningalegs náms (SEL) og siðferðis- og mannkostamenntunar.

Í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ hefur verið stunduð þróunarvinna í kvikmyndafræðum og kennslu með kvikmyndum síðan árið 2011. Í dag geta nemendur tekið marga áfanga sem notast aðallega við kvikmyndir í kennslu. Með opinni stúdentsbraut geta nemendur sérhæft sig í kvikmyndafræðum og lokið stúdentsprófi með heildstæðu námi í kvikmyndafræði.

Árið 2013 gaf Arnar Elísson, heimspeki og kvikmyndafræðikennari út bókina Heimspeki og kvikmyndir og árið 2016 gaf hann út bókina Kvikmyndafræði fyrir framhaldsskóla. Báðar bækurnar eru fyrstu kennslubækur af sinni gerð á Íslandi og standa kennurum og nemendum til boða þeim að kostnaðarlausu á vefnum. Bækurnar voru styrktar af Rannís og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og eru byggðar á grunnþáttum menntunnar eins og þeim er lýst í aðalnámskrá.

Innan Framhaldsskólans í Mosfellsbæ hefur einnig mikill uppgangur í kennslu með kvikmyndum. Nú eru um 5 áfangar úr mismunandi námsgreinum eins og sögu, lífffræði, heimspeki og íslensku sem bjóða upp á kennslu með kvikmyndum þar sem kvikmyndaskoðun og rannsóknir eru í fyrirrúmi.

Í þessari málstofu ætla ég að kynna bæði kvikmyndafræðinámið í Fmos og bækurnar sem hafa verið gefnar út. Síðan mun ég tala almennt um kennslu með kvikmyndum og segja frá reynslu minni og kennsluaðferðum sem ég hef þróað til þess að nýta kvikmyndir sem allra best í kennslu í Framhaldsskóla.

Markmið með kennslu með kvikmyndum er byggt á lykilhæfni úr Námskrá Framhaldsskóla þar sem segir að nemendur þjálfist í að geta notið lista, menningar og skapandi starfs á margvíslegu formi og skilið hvernig menning og listir tengjast atvinnusköpun og samfélagsþróun. Allt skólastarf bæði í og utan kennslustunda, þarf að styrkja nemendur til að móta sér skoðanir, viðhorf og hæfni bæði almennt og á tilteknum sviðum sem er markmið kennslu með kvikmyndum, að fá nemendur til að mynda sér skoðanir

Kennsluhættir miðast að því að veita öllum nemendum tækifæri til að nýta hæfileika sína það eru margir nemendur í Fmos sem einmitt njóta sín af því þeir þekkja þennan miðil og finnst gott að læra í gegnum kvikmyndir. Það höfðar til þeirra, hér er skólastarfið að aðlaga sig að reynsluheim nemenda en ekki öfugt.

 

Tengt efni