Félag sérkennara á Íslandi
13. Febrúar 2016

Það er ekki öll sérkennsla „sér-kennsla“

Á dögunum birtust tölulegar upplýsingar um sérkennslu í skólum landsins. Hagstofan heldur utan um þessar upplýsingar sem hún hefur frá öllum grunnskólum landsins og birtir árlega. Árin 2014-2015 er hlutfall nemenda grunnskóla sem fengu sérkennslu eða stuðning  28.4% eða 12.263 nemendur. Í skýrslu Hagstofunnar kemur fram að skólaárið 2014-2015 hafi 49.054 klukkustundum á viku verið varið  til sérkennslu og stuðnings í grunnskólum og hafa ekki verið fleiri síðan að formleg upplýsingaöflun hófst.

Nú er mikilvægt að rýna í þessar tölur og greina á milli og velta þessari aukningu fyrir sér. Er sérkennsla og „sér-kennsla“ það  sama?  Nei það er það ekki. Sérkennsla felur það í sér að sérkennari metur þarfir nemenda sem þurfa sérkennslu, sér um kennsluna og skipuleggur sérkennslutíma fyrir þá í samráði við umsjónarkennara og foreldra.  Hann metur námsstöðu einstakra nemenda eða hópa með greinandi prófum. Gerir einstaklingsnámskrá og hópáætlanir í samráði við umsjónarkennara fyrir þá nemendur sem hann kennir. Veitir kennurum ráðgjöf varðandi námsefni og kennsluaðferðir fyrir nemendur með sérþarfir þegar þess er þörf.  Hann veitir foreldrum og nemendum ráðgjöf varðandi efnistök og skipulag í námi. Sérkennarar koma talsvert að hegðunarmótun, þeir vinna með líðan nemenda og samskiptavanda nemenda. Verkefni sérkennara eru ótalmörg og afar fjölbreytt og ekki hægt að telja það allt upp hér í einni grein.  Sérkennarar eru þeir sem hafa lokið framhaldssnámi í sérkennslufræðum.

Síðan er það stuðningur sem veittur er inn í bekk og þá yfirleitt af stuðningsfulltrúum. Í þessari sömu skýrslu Hagstofunnar kemur fram að af þessum 49.054 klukkustundum er einungis 18.586 klukkustundum sinnt af sérkennurum og 30.468 klukkustundum sinnt af stuðningsfulltrúum eða 62,1%. Stuðningsfulltrúar hafa það hlutverk að vera kennara innan handar í bekkjarstofunni, aðstoða nemendur undir leiðsögn kennara, sinna gæslu auk ýmissa fleiri mikilvægra verkefna sem þeim er falin. En, stuðningfulltrúi er sjaldnast sérkennari og því er ekki um að ræða sérkennslu.

Samkvæmt þessum tölum Hagstofunnar er um  afar óskýra skilgreiningu á sérkennslu að ræða, ekki er hægt að lesa út úr skýrslunni hvar mörkin á milli sérkennslu, stuðnings eða einstaklingsmiðaðar kennslu liggur. Er verið að vinna í litlum hóp með nemendur sem ef til vill þurfa aukinn stuðning í ákveðni námsgrein ? Er til dæmis verið að kenna nemendum deilingu í 3 vikur, er þetta stuðningur inni í bekk eða er um beina sérkennslu að ræða?

Spurningarnar sem Hagstofan sendir skólunum gera ekki ráð fyrir að greinarmunur sé gerður, í svörunum, á aðkomu stuðningsfulltrúa inni í bekk, tímabundnum stuðningi við barn, (vegna sérstakra aðstæðna s.s. veikinda), lestrarátaks,  barns sem þarf stuðningsfulltrúa með sér í allar kennslustundir, eða barns sem þarf sérkennslu í flestum bóklegum greinum.  Þetta þýðir að alls ekki er gerður greinarmunur á einni stund með sérkennara á viku og 100% eftirfylgd stuðningsfulltrúa með einu barni;  nemanda sem er t.a.m 10 tíma á viku í sérkennslu –  eða öllum þeim mismunandi útfærslum sem liggja þar á milli. 

Á bak við þessar tölur er ekki greint á milli hvort nemendur séu með formlegar greiningar eða ekki. Allir nemendur sem fá einhvernskonar stuðning hvort sem hann er í formi sérkennslu, málörvunar eða hreyfiþjálfunar eru inni í þessum tölum. Einnig eru þarna inni nemendur sem fá  félagsfærni- og eða reiðistjórnunarþjálfun. Nemendur sem njóta þjálfunar þorskaþjálfa sem og stuðnings frá stuðningsfulltrúa. Sum börn þurfa, svo dæmi sé tekið, aukinn stuðning í sundi og eru þá þeir tímar sem sundkennari sinnir þeirri kennslu taldir sem sérkennsla. Komi upp langvarandi veikindi og fjarvistir þannig að nemandi missir úr  námi, fær sá hinn sami oft sérkennslu til að bæta upp það tap.  Allir þessir nemendur falla undir þessi 28,4%  sem Hagstofan flokkar sem sérkennslu.

Eftir að stefnan um skóla án aðgreiningar tók í gildi hefur fjölbreytileiki í skólastofunni aukist til muna.  Mikilvægt er að koma til móts við þarfir hvers og eins nemanda.  Í 17. grein laga nr. 91/2008 um grunnskóla er kveðið á um að nemendur með sérþarfir eigi rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.  Það er því mikilvægt að horfa á þessar tölur í réttu ljósi og ef vel ætti að vera þyrfti að bæta enn frekar í, því í skýrslunni kemur fram að hlutfall kennslu sérkennara hafi farið lækkandi undanfarin ár og það er ekki viðunnandi þar sem í reglugerð um nemendur með sérþarfir (585/2010, 2. grein) er kveðið á að um að  stuðningur við nemendur með sérþarfir sé veittur af sérkennurum eða öðrum sérmenntuðum fagaðilum.

Sú ákvörðun að vilja hafa hér skóla án aðgreiningar er pólitísk – en vissulega útfærð í samvinnu við skólasamfélagið. Skóli án aðgreiningar kallar á öflug teymi sérkennara og annarra fagaðila – allt kostar það peninga. Vilji yfirvöld skólamála hafa skólann með öðrum brag verða þau að gera það upp við sig með pólitískri stefnumótun – en láta um leið í friði það skólastarf sem þegar er í gangi því annars sitjum við uppi með laskaðan skóla án aðgreiningar en bara óljósar hugmyndir um „eitthvað annað“ en hvorugt er til þess fallið að þjóna, hvorki þeim nemendum sem í dag þurfa á sérkennsluúrræðum að halda né skólastarfinu í heild.

 

Sædís Ósk Harðardóttir

Formaður Félags íslenskra sérkennara og forseti Nordiska Förbundet för Specialpedagogik