Félag sérkennara á Íslandi
23. Nóvember 2016

Aðalfundur FÍS, sem haldinn var á Grand Hótel í Reykjavík 21.nóvember 2016, sendir frá sér eftirfarandi ályktun:

Félagsmenn FÍS skora á samninganefndir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara að beita sér fyrir verulegum kjarabótum sérkennara, varðandi vinnuálag og launakjör. Við mótmælum eindregið að sérkennarar hafa dregist aftur úr í kjörum miðað við annað sérfræðimenntað fagfólk í skólum undanfarin ár og krefjumst leiðréttingar á því. Minnt er á að áður fyrr hafi laun sérkennara verið þau sömu og laun náms- og starfsráðgjafa en nú eru laun þeirra 2 launaflokkum hærri en sérkennara. Þá voru laun sérkennara hærri en laun umsjónarkennara en eru nú þau sömu. Einnig hefur kennsluskylda sérkennara verið aukin og því hefur svigrúm til að sinna öðrum þáttum starfsins, svo sem greiningum, ráðgjöf, skýrslugerð og einstaklingsmiðaðri námsefnisgerð, minnkað með tilheyrandi aukaálagi.

Sérkennarar eru lykilfagfólk til að stefnan um skóla án aðgreiningar geti orðið að veruleika, ekki einungis í kennslu nemenda, heldur hvað varðar greiningu og ráðgjöf um kennslu þeirra.  

Fréttir af biðlistum eftir sérfræðiþjónustu fyrir börn með sérþarfir og slæmri líðan barna í skólum hafa verið áberandi að undanförnu og er það mikið áhyggjuefni. Því skiptir sköpum að hafa menntaða sérkennara til að sinna þeim málum innan skólanna og vera í samstarfi við aðrar fagstéttir utan skólans til að fylgja eftir besta hugsanlega stuðningi fyrir börn sem þurfa á því að halda.

 

Fyrir hönd félagsmanna,

stjórn Félags íslenskra sérkennara

 

Sædís Ósk Harðardóttir, formaður                Sigrún Huld Auðunsdóttir, gjaldkeri

Aldís Ebba Eðvaldsdóttir,varaformaður           Jónína Rós Guðmundsdóttir, ritari

Kristín Arnardóttir, meðstjórnandi