Félag sérkennara á Íslandi

Glæður eru tímarit Félags íslenskra sérkennara. Áhersla er lögð á að efni í tímaritinu endurspegli starfsvettvang íslenskra sérkennara og gefi innsýn í nýtt fræðilegt efni og nýjungar á fræðasviðinu.

Efni í Glæðum skiptist í:

 • ritrýndar greinar sem byggjast á fræðilegum rannsóknum,
 • greinar af vettvangi sem geta verið frásagnir af þróunarstarfi,
 • umræðugreinar um aðferðir og námsefni,
 • hugleiðingar,
 • pistlar almenns efnis,
 • viðtöl,
 • ritfregnir.

Ritnefnd tekur ákvörðun um birtingu efnis með tilliti til þema blaðsins hverju sinni og samhengi efnis og starfsvettvangs sérkennara. Efni í Glæðum er jafnan á íslensku, en ritnefnd áskilur sér rétt til að samþykkja erlent efni á ensku eða Norðurlandamálum, samræmist það áherslum tímaritsins um efni og innihald.

Glæður eru gefnar út í ágústl. Efni í blaðið þarf að berast ritstjórn fyrir 20. janúar ár hvert. Efni í ritið skal senda með tölvupósti á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..


Ritrýni fræðigreina er á þremur stigum. Í fyrsta lagi eru þær lesnar og ritrýndar af ritstjórn sem metur hvort greinin eigi erindi í tímaritið. Í öðru lagi eru samþykktar greinar ritrýndar af tveimur fræðimönnum á fagsviði greinarhöfundar. Faglegir ritrýnar skila af sér rökstuddri umsögn með ákvörðun um birtingu eða synjun. Grein sem samþykkt er með fyrirvara um breytingar, af ritrýnum, er send greinarhöfundi með ábendingum um lagfæringar. Höfundur sendir greinina síðan til baka með þeim breytingum sem hann hefur gert til endanlegrar samþykktar. Nafn faglegra ritrýna er ekki gefið upp. Þriðji yfirlestur er að lokum prófarkalestur og APA-yfirlestur. Miðað er við að ritrýnt efni hafi ekki birst opinberlega á öðrum vettvangi.

Ritrýndar greinar í Glæðum eru metnar til 10 rannsóknastiga í matskerfi opinberra háskóla.

Greinar af vettvangi og annað efni, er ritrýnt af ritstjórn og síðan prófarkalesið.

Tímaritið er gefið út á prenti en rafræn útgáfa er aðgengileg á vefsvæði Félags íslenskra sérkennara ári síðar. Höfundum er bent á að samþykkt efni í blaðið felur í sér leyfi til birtingar í prentútgáfu og rafrænni útgáfu.


Viðmið um framsetningu efnis

LENGD GREINA

Almennt er miðað við að greinar af vettvangi og annað efni sem birtist í ritinu sé á bilinu 1000-4500 orð að lengd ásamt stuttum útdrætti (100-150 orð) sem hafður er fremst.

Ritrýndar greinar eru almennt lengri en greinar af vettvangi (4.500 – 7.000 orð án heimildaskrár). Mikilvægt er að virða þessi viðmið. Ætlast er til að höfundar breyti og lagfæri í samræmi við ábendingar ritstjórnar og faglegra ritrýna en færi ella rök fyrir því að gera það ekki. Ritstjóri færir að öllu jöfnu inn leiðréttingar prófaraklesara.
 

REGLUR UM FRAMSETNINGU HANDRITA

 • Handrit skulu vera með 12 punkta letri (Times New Roman), línubili 1,5 og vinstri jöfnun.
 • Einfalt orðabilskal vera á eftir punkti.
 • Nota skal íslenskar gæsalappir.
 • Fyrirsagnir skulu vera vel aðgreindar.
 • Á forsíðu skal koma fram heiti greinar og nafn höfundar. Einnig skulu koma fram upplýsingar um höfund/a; menntun og núverandi starf, (tilgreina skal stofnun sem viðkomandi starfar hjá), rannsóknarsvið, netfang  (u.þ.b. 50 orð).
 • Á eftir forsíðu skal vera u.þ.b. 100-150 orða útdráttur á íslensku og 3-5 efnisorð á íslensku.
 • Töflur skulu vera með sem einföldustu sniði og á sérsíðum aftast í handriti en merkt við í handritinu hvar þær skulu staðsettar (t.d. Tafla 1 hér).
 • Ef ljósmyndir fylgja greinum skal senda þær sérstaklega í viðhengi ásamt því að merkja staðsetningu þeirra í Word-skjalið (t.d. Mynd 1 hér).  Almenna reglan er sú að myndir birtist í svart hvítu.
 • Greinar skulu vera vel yfirfarnar með tilliti til málfars og framsetningar.
 • Ekki skal nota skammstafanir í texta nema vegna heimildaskráningar.
 • Á eftir heimildaskrá skulu eftirfarandi upplýsingar á ensku fylgja:
  • Heiti greinarinnar.
  • U.þ.b. 100-150 orða abstract og 3-5 keywords.
  • Upplýsingar um höfund/a; menntun og núverandi starf, (tilgreina skal stofnun sem viðkomandi starfar hjá), rannsóknarsvið, netfang  (u.þ.b. 50 orð).
    

MEÐFYLGJANDI GÖGN OG UPPLÝSINGAR

Með öllu efni sem sent er í ritið skulu eftirfarandi gögn fylgja:

 • Nýleg mynd af höfundi á tölvutæku formi, í góðri upplausn (ekki tekin af Netinu).
 • Höfundar eru beðnir að tilgreina ef greinin er byggð á lokaverkefni í námi og ef höfundur hefur hlotið styrk vegna rannsóknar sem greinin byggir á.
 • Póstfang höfunda(heimili eða vinna).
   

HEIMILDIR

Um tilvísanir og heimildaskrá vísast til APA - tilvísanakerfis bandaríska sálfræðingafélagsins. Handhægar upplýsingar um það er að finna t.d. í eftirfarandi ritum: Gagnfræðakver handa háskólanemum 4. útgáfu (2007) eftir Friðrik H. Jónsson og Sigurð J. Grétarsson og Publication Manual of the American Psychological Association, nýjustu útgáfu.

Dæmi um heimildaskráningu:
American Psychological Association. (2001). Publication Manual of the American Psychological Association (5. útgáfa). Washington: APA.
Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson. (2002). Gagnfræðakver handa háskólanemum (3. útgáfa). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

ATH! Höfundar eru beðnir um að yfirfara heimildaskráningu vandlega og gæta þess að samræmi sé milli heimilda sem vitnað er í og birtast í heimildaskrá. Eingöngu heimildir sem vitnað er í, eiga að vera í heimildaskrá.
 

VIÐMIÐ VIÐ RITRÝNINGU

Eftirfarandi atriði eru höfð að leiðarljósi við ritrýningu:

 • Útdráttur sé í samræmi við innihald.
 • Titill greinar sé lýsandi.
 • Uppbygging greinarinnar sé skilmerkileg.
 • Efnistökum, tilgangi og mikilvægi viðfangsefnisins sé lýst í inngangi.
 • Grein sé gerð fyrir fræðilegu samhengi og nýjustu rannsóknum, mikilvægi rannsóknarefnisins, tilgangi rannsóknar, rannsóknarspurningum, rannsóknarsniði, rannsóknaraðferðum og úrvinnslu gagna.
 • Yfirlitsgreinar byggi á víðtækri skoðun á fræðilegum skrifum og rannsóknum á viðkomandi efni.
 • Niðurstöður séu settar skýrt fram, studdar gögnum og rannsóknarspurningunum svarað.
 • Ályktanir séu studdar gögnunum og fræðilegri umræðu.
 • Greinin bæti við skilning og þekkingu á sviðinu og leggi af mörkum til rannsókna, starfsvettvangsins eða stefnumörkunar á sviði uppeldis- og menntamála.
 • Skráning heimilda sé í samræmi við APA - kerfið.
 • Vandað sé til frágangs og málfars.

Eftirfarandi viðmið eru leiðbeinandi um mat á greinum, hvort ritrýnar og ritnefnd telja þær hæfar til birtingar eður ei.

Höfundar eru beðnir um að fylgja ofangreindum leiðbeiningum, það eykur líkur á birtingu og flýtir fyrir útgáfuferlinu.
 

SKRÁNING GREINA

Glæður eru efnisteknar og greinar skráðar í Gegni sem er bókasafnskerfi allra landsmanna.
 

UMBUN FYRIR SKRIF OG RITRÝNI

Greinaskrif eru án launalegrar umbunar. Hver höfundur fær eitt eintak af blaði sem hann hefur skrifað í (póstfang þess vegna nauðsynlegt).


Uppfært í maí 2011