Félag sérkennara á Íslandi

 

1. gr.
Heimili og lögheimili

Félagið heitir FÉLAG SÉRKENNARA Á íSLANDI og er skammstafað FÍS. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Markmið félagsins

Markmið félagsins eru:

  • að vinna að alhliða framförum í uppeldi og kennslu nemenda með sérþarfir,
  • að vinna að réttinda og kjarabaráttu sérkennara,
  • að vinna að bættri grunn- og framhaldsmenntun sérkennara,
  • að vinna að endurmenntun sérkennara.

3. gr.
Félagsmenn

Félagsmenn geta þeir orðið sem lokið hafa B.Ed. prófi eða námi til kennsluréttinda og hafa leyfisbréf frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti til kennslu á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi og að minnsta kosti 60 ECTS eininga framhaldsnámi í sérkennslufræðum, eða sambærilegu námi sem tengist kennslu barna með sérþarfir. Núverandi félagsmenn með aðra menntun halda félagsaðild. Sérkennarar geta gerst félagsmenn að þessum skilyrðum uppfylltum með því að sækja um aðild til stjórnar FÍS.

 

4. gr.
Stjórn

Stjórn félagsins skipa fimm félagsmenn: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi. Í varastjórn skulu kjörnir tveir félagsmenn.

Stjórnin fer með málefni félagsins milli aðalfunda og skal halda fundi a.m.k. fjórum sinnum á ári. Allar veigameiri ákvarðanir stjórnar skulu teknar á formlegum stjórnarfundum og skulu haldnar fundargerðir um slíka fundi. Stjórnarfundur telst ályktunarhæfur séu a.m.k. þrír stjórnarmenn mættir. Standi atkvæði á jöfnu við atkvæðagreiðslu á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns útslitum.

Formaður félagsins boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Bæði aðal- og varamenn skulu boðaðir á fundina. Komi upp sú staða að stjórnarmeðlimur hættir skal varamaður taka sæti í stjórn félagsins.

Stjórnarmeðlimir eru undanþegnir félagsfjöldum.

5. gr.
Kosningar

Stjórn félagsins og varastjórn skal kjörin á aðalfundi samkvæmt tillögum uppstillingarnefndar og fundarmanna. Stjórn félagsins skipa fimm aðilar, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og einn meðstjórnandi. Formaður skal kjörinn sérstaklega annað hvert ár. Tveir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn sitthvort árið og aðrir tveir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára, sitt árið hvort á móti. Sjórnin skiptir með sér verkum strax að aðalfundi loknum. Kjósa skal tvö skoðunarmenn reikninga árlega, þriggja manna fræðslunefnd og tveggja manna uppstillingarnefnd. Fyrsta stjórnarfund skal halda innan tveggja vikna frá aðalfundi. Formaður boðar fund.

6. gr.
Árgjald

a.  Ákvarðanir um félagsfjöld skulu tengar á aðalfundi ár hvert.
b.  Félagsmenn sem náð hafa 70 ára aldri og eru skuldlausir við félagið eru undanþegnir félagsgjaldi (en greiði fyrir Glæður óski þeir eftir tímaritinu).
c.  Þeir félagar sem ekki hafa greitt félagsgjöld í 2 ár, teljast ekki lengur meðlimir í félaginu enda hafi þeir ekki brugðist við áminningum gjaldkera um að greiða félagsgjöldin.

7. gr.
Glæður

FÍS gefur úr fagtímaritið Glæður einu sinni á ári. Stjórn félagsins ræður ritstjóra og tilnefnir þrjá aðila í ritnefnd. Einn af þeim sem sitja í ritnefnd er tengiliður við stjórn.

8. gr.
Heiðursfélagar

Stjórn félagsins tilnefnir heiðursfélaga FÍS og leitar eftir ábendingum félagsmanna. Heiðursfélagar eru undanþegnir félagsgjöldum.

9. gr.
Fundir félagsins

Aðalfundur skal haldinn í október og nóvember ár hvert. Auk þess skal halda a.m.k. einn fræðslufund á starfsárinu. Til aðalfundarins skal boðað með tilkynningu á heimasíðu félagsins og með því að senda fundarboð til félagsmanna í tölvupósti með tveggja vikna fyrirvara hið skemmsta. Telst hann þá löglegur. Í fundarboði skal getið þeirra mála sem kunnugt er að lögð verði fyrir fundinn auk venjulegra aðalfundarstarfa. Á dagskrá aðalfundar skal vera:

a.  kosning fundarstjóra,
b.  skýrsla stjórnar flutt af formanni,
c.  reikningar síðasta árs lagðir fram til samþykktar,
d.  ákvörðun félagsgjalda,
e.  lagabreytingar (ef einhverjar) eru kynntar, ræddar og afgreiddar,
f.  kosning formanns,
g.  kosning stjórnar og tveggja varamanna,
h.  kosning skoðunarmanna reikninga,
i.  kosið í fræðslunefnd,
j.  kosið í uppstillingarnefnd,
k.  önnur mál,
l.  fundarslit.

10. gr.
Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi með 2/3 greiddra atkvæða. Tillögur um lagabreytingar er skylt að senda félagsmönnum ásamt fundarboði a.m.k. tveim vikum fyrir aðalfund.

Samþykkt á aðalfundi 3. nóvember 2014