is / en / dk

1. Nafn og lögheimili
Sjóðurinn heitir Orlofssjóður Kennarasambands Íslands og er eign þess. Lögheimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. Tilgangur sjóðsins
Tilgangur sjóðsins og hlutverk sjóðstjórnar er:

  1. að kaupa orlofsheimili einn sér eða ásamt öðrum, fjármagna byggingu þeirra og annast viðhald og rekstur á þeim hluta er heyrir undir sjóðinn. Fjárfesting og eignasala, annað en eðlilegt viðhald eigna, er þó ekki heimil nema að fengnu samþykki stjórnar KÍ,
  2. að taka á leigu orlofshús og endurleigja félagsmönnum eftir því sem þurfa þykir,
  3. að annast úthlutun orlofshúsa KÍ skv. reglum sem stjórnin setur sér. Reglur þessar skulu hljóta staðfestingu stjórnar KÍ,
  4. að semja um orlofsferðir fyrir félagsmenn KÍ innan lands sem utan.

3. Tekjur
Tekjur sjóðsins eru sérstakt gjald sem vinnuveitendur greiða í orlofssjóð vegna félagsmanna í KÍ, vaxtatekjur svo og tekjur af rekstri orlofsheimila og ferðaþjónustu.

4. Stjórn
Stjórn sjóðsins skipa sjö menn og sjö til vara. Hvert aðildarfélag KÍ tilnefnir einn aðalmann og einn varamann. Stjórn KÍ skipar formann úr þeirra hópi og staðfestir tilnefningar aðildarfélaga. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Falli atkvæði jafnt á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns úrslitum. Ef formaður lætur af störfum á tímabilinu skipar stjórn KÍ nýjan formann úr röðum stjórnarmanna.

Hlutverk sjóðsstjórnar er að framfylgja því sem fram kemur í 2. grein um tilgang sjóðsins. Skrifstofa KÍ sér um þjónustu fyrir sjóðinn samkvæmt þjónustusamningi.

5. Kostnaður af starfi stjórnar og starfsemi sjóðsins
Allur kostnaður af starfi stjórnar og starfsemi sjóðsins greiðist úr Orlofssjóði svo og sú þjónusta sem skrifstofa KÍ veitir skv. samkomulagi við stjórn KÍ.

6. Reikningar og endurskoðun
Reikningar sjóðsins skulu birtir með reikningum KÍ. Þeir skulu endurskoðaðir af kjörnum skoðunarmönnum sambandsins svo og löggiltum endurskoðendum. Kostnaður við endurskoðun greiðist af orlofssjóði.

7. Breytingar á reglum sjóðsins
Reglum þessum má aðeins breyta á þingi Kennarasambands Íslands og fer með þær breytingar eins og um lagabreytingu væri að ræða.

8. Sjóðurinn lagður niður
Verði sjóðurinn lagður niður færast eignir sjóðsins í félagssjóð KÍ eftir að skuldbindingar hans hafa verið gerðar upp.

Tengt efni