is / en / dk

20. Júní 2015
Hafdís Dögg Guðmundsdóttir, sérfræðingur KÍ í vinnuumhverfis- og jafnréttismálum skrifar. 

Jafnréttisnefnd KÍ sendi í upphafi vorannar 2015 frá sér ályktun til rektora/skólameistara allra framhaldsskóla í landinu um að gera kynja- og jafnréttisfræðslu að skyldufagi. Nefndin hvatti skólana til að taka erindið formlega fyrir og nýta það tækifæri sem að endurskoðun og endurnýjun skólanámskráa skapaði til skólaþróunar og nýrrar forgangsröðunar. Vel var tekið í erindi nefndarinnar og svör bárust frá 22 af 34 framhaldsskólum.

Í flestum skólunum sem svöruðu er kynjafræði valáfangi fyrir nemendur, oft á félagsfræðibrautum. Í tveimur skólum kom fram að kynjafræði væri hluti af námsefni í áfanga sem væri skylduáfangi fyrir alla nemendur skólans.

Þeir framhaldsskólar sem sögðust vera með kynjafræði sem skylduáfanga, ýmist fyrir alla nemendur eða stóran hluta þeirra, eru FNV, FSN, MB og ML. Hjá FNV hafði kynja- og jafnréttiskennsla farið fram í ýmsum öðrum áföngum skólans og reynt var að höfða til beggja kynja þegar kemur að framboði námsbrauta við skólann, sérstaklega til stúlkna varðandi hefðbundnar verknámsgreinar. Í kjölfar erindis jafnréttisnefndar var svo ákveðið að ganga skrefinu lengra og gera kynjafræði að skyldufagi á öllum bóknámsbrautum skólans.

Í flestum tilfellum hafði erindi nefndarinnar verið tekið til umræðu eða þegar verið rætt innan skólans. Í sumum skólum var niðurstaða kennara og stjórnenda þó sú að ekki ætti að hafa kynjafræði sem skyldufag. Ástæður þess voru m.a. að ekki eigi að gera fleiri greinar að skyldugreinum en nú þegar eru, að grunnþættir eigi að vera samþættir öðrum áföngum skólans og að kynja- og jafnréttisfræðsla eigi að vera hluti af öllu starfi skólans en ekki einangrað fag. Svör skólanna sýndu að gróskumikið jafnréttisstarf fer víða fram í framhaldsskólunum svo sem í árlegu þemastarfi, stofnun femínistafélaga og jafnréttisfélaga nemenda, tilvist jafnréttisfulltrúa innan sumra skóla og gerð jafnréttisáætlana. Í þeim skólum sem ekki höfðu tekið afstöðu til málsins var ástæðan alla jafna sú að ný námskrá og/eða væntanleg stytting náms til stúdentsprófs væri í vinnslu.

Sú kennsla í kynja- og jafnréttisfræði í framhaldsskólum sem hefur farið fram hefur þegar sýnt árangur, m.a. í umfjöllun ungmenna í fjöl- og samfélagsmiðlum um jafnréttismál sem og stofnun félagasamtaka framhaldsskólanema sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Jafnréttisnefnd KÍ vonar að framhald verði á eflingu kynja- og jafnréttisfræðslu í framhaldsskólum landsins.
 

 

Tengt efni