is / en / dk

18. Júní 2015

Ágætu félagar

Við fögnum 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna í dag. Þessara merku tímamóta í sögu þjóðar er minnst veglega á þessu ári með viðburðum um land allt.

Þórður Árni Hjaltested, formaður KÍ skrifar. 

Krafan um kosningarétt kvenna komst fyrst í opinbera umræðu árið 1885. Níu árum síðar setti Hið íslenska kvenfélag kosningaréttinn í stefnuskrá félagsins og safnaði rúmlega tvö þúsund undirskriftum kvenna árið 1895 þar sem skorað var á Alþingi að samþykkja kosningarétt kvenna. Kvenréttindafélag Íslands, stofnað 1907, tók svo við kaleiknum og barðist ötullega fyrir þessum sjálfsagða rétti kvenna.

Á þessum degi árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt. Reyndar ekki allar konur því miðað var við konur 40 ára og eldri en kosningaréttur karla miðaðist við 25 ár. Fimm árum síðar var kosningarétturinn jafnaður að fullu.

Margar merkar konur voru kyndilberar baráttunnar fyrir kosningarétti í upphafi síðustu aldar og margar þeirra tilheyrðu stétt kennara og börðust fyrir bættri menntun, einkum stúlkna. Má þar nefna Ingibjörgu H. Bjarnason, Halldóru Bjarnadóttur, Ingu Láru Lárusdóttur og Svöfu Þórleifsdóttur. Fremst meðal jafningja var baráttukonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir en hún sinnti kennslu barna og unglinga í Þingeyjarsýslu um skeið.

Baráttan fyrir jafnrétti kynjanna á sér langa sögu og margt hefur áunnist. Konur og karlar hafa jafnan aðgang að námi og við búum við lög sem kveða á um jafna stöðu kynjanna. Við skorum hátt þegar jafnrétti er mælt á heimsvísu.

Enn er þó verk að vinna

Jafnrétti er einn af grunnþáttum menntunar og frá árinu 1976 hefur verið kveðið á í jafnréttislögum að jafnréttisfræðsla skuli fara fram á öllum skólastigum. Í aðalnámskrám fyrir öll skólastig er jafnrétti skilgreint sem einn af sex grunnþáttum menntunar ásamt læsi, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindum, sjálfbærni og sköpun. Því miður hefur jafnréttismenntun á öllum skólastigum ekki verið sinnt með markvissum hætti.

Innan Kennarasambandsins er stöðugt unnið að jafnréttismálum á hinum ýmsum sviðum. Jafnréttisnefnd KÍ var falið á 6. þingi KÍ að hvetja til að grunnþátturinn jafnrétti verði raungerður í íslensku menntakerfi og starfandi kennurum verði sköpuð tækifæri til menntunar um grunnþáttinn jafnrétti.

Jafnréttisnefndin hefur ekki setið auðum höndum og fyrr á þessu ári sendi hún ályktun til allra framhaldsskóla um að gera kynja- og jafnréttisfræðslu að skyldunámsgrein. Erindi nefndarinnar hefur almennt verið tekið mjög vel og leitt til umræðu innan skólanna. Jafnréttisnefndin mun á haustdögum beina sjónum sínum að grunnskólanum og leikskólanum hvað þessi mál varðar. Hvert skólastig þarf að skapa sér vettvang til að ræða jafnréttismál og ákveða hvaða leiðir séu færar til að markmið jafnréttismenntunar náist.

Þá var samþykkt á 6. þingi KÍ að gerð yrði úttekt á launamun kynjanna meðal félagsfólks KÍ. Undirbúningsvinna er hafin innan KÍ og þar munu nýlegar rannsóknir aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins á launamun og stöðu kynjanna á vinnumarkaði nýtast vel. Fyrstu niðurstöður aðgerðahópsins voru kynntar í vetur og þar kemur meðal annars fram að kynbundinn launamunur er 7,6% á vinnumarkaðnum í heild; launamunurinn er meiri á almennum vinnumarkaði eða 7,8% en á opinberum vinnumarkaði mælist hann 7,0%. Tekist hefur að draga hægt og bítandi úr kynbundnum launamun en hluta vandans má samkvæmt niðurstöðum aðgerðahópsins rekja til kynbundins vinnumarkaðar. Hér þurfum við að gera enn betur í framtíðinni.

Kynjabókhald KÍ leit dagsins ljós á ársfundi sambandsins í apríl síðastliðnum en þar er að finna lykiltölur eftir kynjum á helstu sviðum KÍ og aðildarfélaga þess. 

Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla vinna að langtímaátaki sem felur í sér að fjölga körlum við kennslu yngri barna. Kynjabilið í stétt leikskólakennara er mjög mikið en aðeins 1 prósent þeirra sem hafa leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi eru karlar. Þetta er verðugt langtímaverkefni sem vinna verður að af festu.

Í dag minnumst við hinna dugmiklu kvenna sem ruddu brautina fyrir 100 árum. Um leið skulum við horfa fram á við og heita því að að vinna áfram að jafnréttismálum í samfélaginu og innan skólakerfisins þannig að markmiðum aðalnámskrár um jafnréttismenntun á öllum skólastigum verði náð. Jafnrétti kynjanna er hagsmunamál okkar allra.

Fyrir hönd Kennarasambands Íslands óska ég öllum, konum og körlum, til hamingju með daginn.

Þórður Árni Hjaltested
formaður Kennarasambands Íslands

 


 

Tengt efni