is / en / dk

14. September 2015

Síðustu daga hafa fréttir um kjaramál og kjarasamninga verið áberandi í fjölmiðlum. Fréttin er yfirleitt sú sama – forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði eru brostnar vegna þess að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga fengu hækkanir sem eru langt umfram það sem ASÍ og SA sömdu um sín á milli. Í framhaldi hafa formenn ýmissa stéttarfélaga, svo sem Eflingar og VR, auk forseta ASÍ og framkvæmdastjóra SA stigið ábúðafullir fram og lýst því yfir að forsvarsmenn stéttarfélaga opinberra starfsmanna, meðal annars innan Kennarasambands Íslands, hafi gert óábyrga samninga og með því stefnt efnahagslegum stöðugleika í uppnám. Niðurstaða gerðardóms hafi síðan virkað sem olía á eldinn.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta er rugl. Eða í besta falli útúrsnúningur.

Aðalbjörn Sigurðsson, útgáfu- og kynningarstjóri KÍ skrifar

Síðustu áratugi hefur skapast sú hefð að samningar stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins við Samtök atvinnulífsins hafa orðið fyrirmynd allra annarra kjarasamninga. Þar er yfirleitt samið um „hóflegar almennar hækkanir“ sem oft eru á bilinu 1,5 til 3,5%. Í samningunum er síðan kveðið á um að það verði að vera niðurstaða samninga annarra stéttarfélaga. Þeir sem skrifa undir þessa samninga vita að á almennum vinnumarkaði getur meirihluti starfsmanna sótt sér persónulegar launahækkanir til viðbótar. Það á þó síst við þá sem eru á lægstu laununum, og því er yfirleitt samið um að þeir fái meiri hækkanir en aðrir. Það tryggir að meirihluti almennra starfsmanna er að fá hækkanir sem eru umfram þær „hóflegu hækkanir“ sem nánast eru dæmdar á aðrar stéttir. Þetta býr til misræmi sem auðvelt er að sýna fram á með tilbúnu dæmi um tíu ára launaþróun tveggja starfsmanna.

Opinber starfsmaður var árið 2005 með 300.000 krónur í mánaðarlaun. Hann hefur að meðaltali fengið 3,5% samningsbundna hækkun á ári síðustu tíu árin.

2005 – 300.000
2006 – 310.500
2007 – 321.368
2008 – 332.615
2009 – 344.257
2010 – 356.306
2011 – 368.777
2012 – 381.684
2013 – 395.043
2014 – 408.869
2015 – 423.180

Félagsmaður VR var með sömu laun árið 2005. Hann hefur fengið sömu samningsbundnu hækkunina en til viðbótar að meðaltali 1,5% vegna góðrar frammistöðu og framgangs í starfi. Laun hans hafa þróast svona:

2005 – 300.000
2006 – 315.000
2007 – 330.750
2008 – 347.288
2009 – 364.652
2010 – 382.884
2011 – 402.029
2012 – 422.130
2013 – 443.237
2014 – 465.398
2015 – 488.668

Munurinn á launum þessara tveggja starfsmanna tíu árum síðar er rúm 13%. Það sýnir vandann, sem er að það kerfi við samningagerð sem SA og ASÍ hafa byggt upp síðustu áratugi verður til þess að nánast þeir einu sem fá aðeins þær lámarks kjarabætur sem samið er um í kjarasamningum eru opinberir starfsmenn. Þetta vita forsvarsmenn opinberra stéttarfélaga og samninganefndir ríkis og sveitarfélaga sem fara í það öðru hvoru, segjum á tíu ára fresti, að stoppa upp í það gat sem kerfisvillan hefur skapað. Og semja þá um til dæmis hefðbundna 3,5% hækkun en bæta við þeim 13% sem uppá vantar – samtal 16,5% hækkun. Þá lítur út fyrir að þessar stéttir séu að bera gríðarlega mikið úr býtum, sem er einfaldlega ekki satt. Þær hafa síðustu níu ár mátt þola að vera á lægri launum en samanburðarstéttir á almennum vinnumarkaði. Því til viðbótar gerist það oftar en ekki að þessir starfsmenn þurfa að hluta að greiða fyrir þessar „gríðarlegu“ og „stórhættulegu“ hækkanir úr eigin vasa, til dæmis með breyttu vinnuframlagi og auknu álagi.

Að kalla þessar leiðréttingar nú forsendubrest og ógn við stöðugleikann er því útúrsnúningur og mér finnst furðulegt að virtir forsvarsmenn félaga atvinnurekenda og launþega komi nú fram með svo ódýran málatilbúnað. Verkefni næstu ára eiga ekki að vera að benda á sökudólga innan verkalýðshreyfingarinnar heldur að búa til kerfi þar sem mismunandi launaþróun er tekin til greina þegar unnið er að því að endurnýja kjarasamninga. Þangað til er galið að nota samninga Samtaka atvinnulífsins við félög innan Alþýðusambandsins sem forsendu við gerð kjarasamninga fyrir opinbera starfsmenn.

Tengt efni