is / en / dk

05. október 2015

Fimmta október ár hvert, á alþjóðadegi kennara, er vakin athygli á því mikilvæga og merka starfi sem unnið er dags daglega í skólum um allan heim. Afar mismunandi er eftir löndum hvernig framkvæmdin er. Dæmi eru um að nemendur taki klappandi á móti kennurum í tilefni dagsins og að skólar séu opnir almenningi. Víðast hvar í löndum heimsins eru kennarar og málefni þeirra áberandi í opinberri umræðu í tilefni dagsins. Því miður hefur ekki skapast nægilega sterk hefð hér á landi varðandi daginn og kennarar eru lítið sýnilegri fimmta október en á hverjum öðrum degi.

Þórður Árni Hjaltested, formaður KÍ skrifar

Kennarasambandið hefur hug á að breyta þessu og setti því á laggirnar sérstakan starfshóp undir formennsku Aðalheiðar Steingrímsdóttur, varaformanns KÍ, með það að markmiði að skipuleggja viðburði í tilefni dagsins. Með aðstoð fjölmargra félagsmanna KÍ hefur nefndin nú skipulagt fjölbreytta dagskrá. Efnt var til smásagnasamkeppni meðal nemenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum landsins þar sem efnið var „kennarinn“. Viðtökurnar voru vonum framar, en á annað hundrað sögur bárust. Höfundar bestu smásagnanna hljóta vegleg verðlaun sem afhent verða við hátíðlega athöfn í hádeginu í dag.

Skólastjórnendur og kennarar um land allt voru hvattir til að opna skólana og kynna starfsemina og kennarastarfið fyrir almenningi. Þar er mjór mikils vísir, en það er von mín að á næstu árum muni fleiri verða við þeirri beiðni og að landsmenn venjist því að leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar og tónlistarskólar séu almennt opnir á alþjóðadegi kennara.

Í tilefni dagsins stendur Kennarasambandið fyrir málþingium eitt heitasta umræðuefni kennara þessa dagana, samfélagsmiðlana. Spurningum eins og „hvernig er hægt að nota samfélagsmiðla til kennslu“ og „hvað þarf að varast“ verður varpað fram klukkan fjögur á Grand Hótel Reykjavík. Þó að þar muni væntanlega ekki fást neinn endanlegur sannleikur í þessu stóra máli, þá er umræðan nauðsynleg og mikilvægt að hún haldi áfram.

Kennarasambandið lét enn fremur gera stutt myndband í tilefni dagsins, þar sem nokkrir vegfarendur í Reykjavík eru spurðir um uppáhaldskennarann sinn og mikilvægi þess að hafa góða kennara. Það myndband verður sett á vefinn í dag og því dreift í gegnum samfélagsmiðla. Síðast en ekki síst þá kemur Skólavarðan út í dag – stútfull af spennandi efni sem tengist kennurum og skólum almennt. Það er von mín, og annarra sem að þessum verkefnum standa, að þau verði til þess að vekja athygli á starfi kennara og að almennir fjölmiðlar sinni deginum – en aðallega þó að félagsmenn um land allt njóti dagsins og þess sem hann hefur að bjóða.

Til hamingju með alþjóðadag kennara.


Greinin birtist fyrst á alþjóðadegi kennara 5. október í Skólavörðu Kennarasambands Íslands. 
Það er mjög þægilegt að lesa Skólavörðuna í spjaldtölvu eða í síma og hægt að nálgast smáforrit í App Store og Google Play. Einnig er hægt að lesa Skólavörðuna á netinu.

Tengt efni