is / en / dk

06. október 2015

Fyrir sjö árum var sett sameiginleg menntastefna í lögum og námskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem hefur nám og þroska barna og ungmenna í forgrunni, sem og réttindi þeirra og velferð. Fyrir nokkru birti Skólamálaráð KÍ úttekt á því hvernig miði að innleiða stefnuna og byggist matið á samræðum við sérfræðinga og opinberum gögnum. Í úttektinni er sjónum beint að nokkrum meginþáttum: réttarstöðu nemenda, námskrárbreytingum, mati og eftirfylgni og fjármunum til skólastarfs. Helstu niðurstöður eru þessar:

Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður KÍ skrifar. 

Réttarstaða nemenda: Auka þarf áhrif barna og ungmenna á námið, viðfangsefni og skólastarf og efla stoðkerfi skóla og stuðning við nemendur, einkanlega nemendur með sérþarfir og þá sem hafa annað móðurmál en íslensku.

Námskrárbreytingar: Breitt bil er á milli markmiða menntastefnu um kennsluhætti og námsaðstæður nemenda og veruleikans í skólastarfinu. Stuðning menntamálaráðuneytis sveitarfélaga vantar við skóla og kennara við að útfæra í námi og kennslu og starfsháttum áhersluþætti menntastefnu um skólastarfsbreytingar.

Mat og eftirfylgni: Efla þarf innra mat skóla sem aðferð við skólaþróun og eftirfylgni með niðurstöðum, og stuðning, fræðslu og ráðgjöf vantar frá menntamálaráðuneyti og sveitarfélögum við skóla og kennara til að fylgja eftir niðurstöðum ytra mats í umbóta- og þróunarstarfi.

Fjármunir til skólastarfs: Kreppan í kjölfar hrunsins 2008 hafði víðtæk áhrif á skólastarfið sem engan veginn eru gengin til baka. Sjóðir sem stofnaðir voru í tengslum við lögin um skólastigin, Námsgagnasjóður grunnskóla, Þróunarsjóður námsgagna og Sprotasjóður, rísa ekki undir hlutverkum sínum. Mikil þörf er á stórauknum fjárframlögum stjórnvalda í raunverulegar aðgerðir á sviði náms- og kennslugagna og stuðning við þróun og nýjungar í skólastarfi á öllum skólastigum.

Hvítbók um menntamál
Mikilvægt er að íhuga vel þessa stöðu og einnig þarf að skoða hana í samhengi við það sem er ofarlega á baugi í menntamálunum hér á landi: stefnu og ákvarðanir menntamálaráðherra. Þegar ráðherrann tók við lyklunum vorið 2013 var hafist handa við að undirbúa Menntamálastofnun sem Alþingi rak smiðshöggið á fyrr í sumar og samhliða var ráðist í samningu hvítbókar þar sem fjallað er um þær stoðir í íslensku menntakerfi sem þurfi að styrkja og leiðir sem eru best til þess fallnar að veita börnum og ungu fólki þá menntun sem lög og námskrár boða. Þar segir að skort hafi á næga leiðsögn um framkvæmdina en það séu þó einkum niðurstöður PISA og námsframvinda í framhaldsskólum sem gefi tilefni til aðgerða. Á grundvelli þessa eru settar fram tillögur um að bæta læsi og stytta nám til lokaprófa í framhaldsskólum til að laga námsframvinduna.

Í hvítbók er mikið rætt um mikilvægi samráðs við þá sem láta sig menntun varða, sérstaklega kennara og samtök þeirra, og vísað til góðrar reynslu af þess háttar samstarfsaðferðum í menntamálum í öðrum löndum. Það var því ekki ástæðulaust að álykta sem svo að menntamálaráðherra myndi horfa til þessa verklags við skipan í verkefnahópa ráðuneytis um málaflokka hvítbókar. Fljótlega kom þó á daginn að ráðherrann leit öðruvísi á málin og sniðgekk óskir KÍ um form lega aðkomu að vinnunni. Í staðinn var KÍ boðið upp á að rýna tillögur hópanna með umsögnum um þær.

Kreppuskýrslur um menntakerfið
Á síðustu 20 árum eða svo hafa mörg lönd ráðist í breytingar á menntakerfinu. Undanfarinn er oft greining á einhvers konar meintu kreppuástandi í menntakerfinu, þannig að það valdi ekki hlutverki sínu. Hér er hægt að nefna þekktar skýrslur í Bretlandi, Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum undir lok síðustu aldar þar sem dregin var upp dökk mynd af versnandi samkeppnisstöðu á heimsmörkuðum þar sem menntakerfið væri ekki að standa sig, og lagðar upp aðferðir við að komast í fremstu röð í menntamálum. Hugmyndir um kreppu í menntakerfinu fengu mikinn byr í seglin fyrir 15 árum þegar OECD hóf að birta niðurstöður PISA mælinga. Þó að PISA niðurstöðurnar séu aðallega hugsaðar til brúks við að bera saman upplýsingar um menntakerfi hafa þær orðið til að ýta undir ákveðið hugarástand sem einkennist af ótta við að vera að dragast aftur úr öðrum löndum og þrýsting á að nú verði að fara í róttækar aðgerðir í menntakerfinu, og fyrir þessu er stjórnmálastéttin sérlega móttækileg. Meint kreppuástand í menntakerfinu er síðan notað sem efni í málflutning um aukinn mælanlegan árangur, auka þurfi gæði menntunar með því að bæta árangur á prófum í ákveðnum greinum og þá sérstaklega í þeim sem PISA kannar og farið er í að bylta námskrám og skólastarfi til að ná þessu fram. Aðaleinkenni kreppuhugarfarsins í menntamálum er að jafnræði í menntakerfinu víkur fyrir viðskiptalegum áherslum sem helgast meðal annars af nánu samhengi PISA við hæfniviðmið eða afrakstur menntunar og þarfa atvinnulífsins. Því má greina svipaðar aðferðir í mörgum löndum við að auka árangur menntakerfa sem einkennast af markaðslausnum og vöruvæðingu menntunar – að tilgangur menntunar miðist eingöngu við undirbúning fyrir störf á vinnumarkaði og að meginhlutverk skólakerfisins sé að drífa hagvöxtinn áfram. Svona hugsun horfir alveg fram hjá almannagæðum menntunar, lýðræðislegum áhrifum hennar og þýðingu fyrir einstaklinga og samfélagið.

Það er í sjálfu sér ágætt framtak hjá menntamálaráðherra að láta taka saman hvítbók um menntamál. Engum ætti að dyljast mikilvægi góðrar lestrarkunnáttu fyrir einstaklinga og samfélag, sem og þess að fleiri nemendur ljúki skilgreindum námslokum í framhaldsskóla en nú er. Í hvítbók eru reifaðar helstu ástæður hægrar námsframvindu og brotthvarfs úr námi, sem hafa verið í umræðunni í langan tíma, og réttilega tilgreint að þessi einkenni eru algengari í starfsnámi og á almennum brautum en í bóknámi.

En stytting náms og aukin námsframvinda leiðir ekki sjálfkrafa til minna brotthvarfs. Skynsamlegra hefði verið að gera skólunum kleift að mæta breytilegum þörfum nemendahópa og treysta skólum fyrir ákvörðunum um sveigjanlegt námsskipulag eins og aðalnámskrá felur í sér. Á fundum með verkefnahópi ráðuneytis um námstíma fékkst stytting náms aldrei rædd með tilvísun til þess að ráðherra væri búinn að ákveða að svona ætti þetta að vera og að vel flestir framhaldsskólar stefndu að þessum breytingum haustið 2015. Þar að auki bjó ráðherrann þannig um hnútana að flétta einhliða ákvörðun um styttingu náms kyrfilega saman við fjárlög. Títtnefnd rök ráðherrans fyrir styttingu náms eru sparnaður, þjóðhagslegur ábati vegna lengri starfsævi fólks og minna brotthvarf úr námi. Hér er svipaður mælikvarði lagður á menntun og kemur fram í kreppuskýrslum um menntakerfið. Skólar og menntun lúta sömu lögmálum og fyrirtækjarekstur á markaði, menntakerfið er færiband sem þarf að snúast hraðar og gæði menntunar eru mæld í skilvirkni og afköstum.

Framkvæmd á aðgerðaráætlunum
Verkefnahópar um málaflokka hvítbókar lögðu ýmislegt til sem kemur inn á nokkra af þeim meginþáttum menntastefnu sem úttekt KÍ tók til: styrkingu stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku, fjölbreytta kennsluhætti og námsmat í samræmi við áherslur menntastefnu og markvissa starfsþróun fyrir kennara í því skyni, að sveitarfélög og ríki sjái til þess að náms og starfsráðgjöf verði í boði fyrir alla nemendur í grunn- og framhaldsskólum, að yfirvöld styðji dyggilega við útgáfu rafræns námsefnis án afritunarvarna og það verði gert öllum aðgengilegt. Þegar skoðaðar eru ákvarðanir ráðuneytis á því hvað úr áætlunum eigi að framkvæma, sést að þessar mikilvægu tillögur lenda ýmist mjög neðarlega á blaði eða eru ekki nefndar á nafn.

Margar spurningar vakna einnig um framkvæmdina á læsisverkefninu. Læsisráðgjafar eru í sjálfu sér ágæt ráðstöfun en óraunsætt er að átta ráðgjafar geti stutt við kennara, foreldra, skólastjórnendur og sveitarstjórnir um allt land við að efla læsi, eins og gert er ráð fyrir. Hér þarf miklu meira að koma til, svigrúm kennara í starfi til að vinna að eflingu læsis og markviss stuðningur við símenntun og starfsþróun. Hvernig á að vinna að því að allir kennarar skilgreini sig sem læsiskennara? Skimanir og viðbragðsáætlanir koma ekki að gagni ef ekki eiga að fylgja fjármunir til skóla til að bregðast við með markvissri kennslu og stuðningi við nemendur, og nægilega margt fagfólk til að sinna þessu. Í dag vantar 1.300 leikskólakennara til að uppfylla lágmarksákvæði laga um hlutfall leikskólakennara af starfsfólki leikskóla. Í úrvinnslu ráðuneytis á aðgerðaáætlun um læsi kemur ekki fram hvort skólar fái sérstaka fjármuni vegna verkefnisins en í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 er gert ráð fyrir að 150 milljónir kr. fari í að efla læsi.

Hlutverk Menntamálastofnunar
Menntamálastofnun er ætlað að útbúa ýmis próf og verkfæri fyrir skóla og kennara í tengslum við læsisverkefnið og aðstoða við mat á árangri og eftirfylgni.

Hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum er að stuðla að auknum gæðum skólastarfs og framförum í þágu menntunar í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið. Lögin gera einnig ráð fyrir að menntamálaráðherra setji reglugerð um framkvæmd laga um stofnunina og reglugerð um stofnun og starf fagráða fyrir helstu verksvið. Þau skulu skipuð sérfróðum aðilum á viðkomandi sviði og vera stofnuninni til ráðgjafar og aðstoðar. Forstjóri á að hafa sér til ráðgjafar nefnd um langtímastefnumótun um starfsemina. Ekkert bólar á regluverki um þetta.

Stofnunin sá sjálf um að stimpla sig rækilega inn í læsisverkefnið með eftirminnilegum hætti fyrir skömmu og tilkynnir þessa dagana um framkvæmd námsmats í grunnskólum samkvæmt aðalnámskrá sem tekur gildi næsta vor og fleiri atriði.

Í undirbúningi er að þróa hæfnipróf (les samræmd könnunarpróf) í samræmi við hæfniviðmið námskrár grunnskóla sem fela í sér aukna áherslu á hæfni frekar en bóklega þekkingu. Einnig er verið að athuga hvort hægt sé að útbúa próf sem tengjast meðal annars lykilhæfni í skapandi og gagnrýninni hugsun og nýtingu miðla og upplýsinga, og að æskilegt sé að útbúa próf í verklegri og listrænni hæfni á síðari stigum. Fram kemur að búið sé að ákveða að forprófa hæfnipróf næsta vor en eftir sé að ákveða fyrirkomulagið. Verið er að athuga hvort veita eigi þeim framhaldsskólum sem það vilja heimild til að taka að einhverju leyti mið af niðurstöðum hæfniprófa við inntöku nemenda næsta vor. Allir nemendur eigi þó rétt á framhaldsskólavist hver svo sem niðurstaða þeirra verður á hæfniprófi.

Er hægt að aðskilja hæfni frá þekkingu á innihaldi? Er það faglega æskilegt að leggja staðlaðan mælikvarða á skapandi og gagnrýna hugsun? Eru próf í list- og verkgreinum aðferð til að gera veg þeirra meiri í skólakerfinu? Er í uppsiglingu að taka aftur upp gömlu samræmdu prófin sem inntökuaðferð í framhaldsskóla? Er verið að undirbúa það að áherslur á mælanlegan árangur með stöðluðum prófum ráði för í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og eftirlitsiðnað með skólastarfi?

Hver yrðu áhrifin á fjölbreytni í námi og kennsluháttum, jafnræði nemenda, faglegt sjálfstæði kennara og skóla?

Við þekkjum vel áhrifin af svona stjórnvaldsaðferðum og hugmyndafræði í öðrum löndum, svo sem í Englandi og Bandaríkjunum.

Er það þess háttar menntakerfi sem við viljum?

Greinin birtist fyrst á alþjóðadegi kennara 5. október í Skólavörðu Kennarasambands Íslands.

Það er mjög þægilegt að lesa Skólavörðuna í spjaldtölvu eða í síma og hægt að nálgast smáforrit í App Store og Google Play. Einnig er hægt að lesa Skólavörðuna á netinu.

Tengt efni