is / en / dk

14. október 2015

um kjaramál skólastjóra

Ólafur Arngrímsson, skólastjóri Stórutjarnarskóla skrifar. 

Flestir kannast við að finnast þeir vera sniðgengnir, hafðir útundan eða gleymdir. Þá er eins og enginn nenni að tala við mann, öllum sé sama. Stundum stafar þessi tilfinning bara af því að maður sjálfur er eitthvað illa upplagður og asnalegur, en þá er þetta líka meira ímyndun en raunveruleiki. - Stundum er þetta hins vegar blákaldur raunveruleikinn, - staðreynd, - það vill í raun og veru enginn tala við mann, a.m.k. ekki um neitt sem einhverju máli skiptir. Þegar þannig er komið fyrir manni er oftast tímabært að líta í eigin barm - athuga hvort manni hefur einhvers staðar orðið á í messunni - athuga hvort maður gæti hugsanlega gert betur á einhverju sviði. Margt bendir til að samninganefnd Skólastjórafélags Íslands sé stödd á þessum punkti núna. Samninganefnd sveitarfélaganna neitar að tala við samninganefnd SÍ um nokkuð það sem hægt er að segja að skipti máli þegar samið er um kaup og kjör. Það er vond staða og virkilega ástæða til að staldra við.

Það er ástæðulaust að fara í gegnum þessa sögu í löngu máli, það var samið við kennarana en skólastjórarnir og aðrir stjórnendur í grunnskólum sátu eftir. Þeir voru lagðir til hliðar, settir í salt eða eiginlega í frost.

Sennilega er samninganefnd sveitarfélaganna dálítið útundir sig. Þar hafa menn greinilega áttað sig á því að skólastjórum er nokkur vandi á höndum í kjarabaráttu sinni verandi án réttar til verkfalla. Það veikir stöðu stjórnenda og gerir þá mikið til vopnlausa þegar kemur til bardaga. Þetta kann samninganefnd sveitarfélaganna að nýta sér. Hún veit líka að hún hefur oftast haft í fullu tré við samninganefnd SÍ, náði m.a. í síðustu samningum að semja um fjögurra kennslustunda fjölgun hjá ákveðnum hópi aðstoðarskólastjóra. Núna síðast sömdu þeir svo við kennara um að sumir þeirra skyldu fá hærri laun en ákveðnir yfirmenn þeirra í skólunum. Þetta minnir auðvitað um margt á leik kattarins að músinni (og er þá ekki átt við þá Tomma og Jenna).

Stjórn og samninganefnd SÍ hafa verið heldur seinheppnar síðasta árið en alvarlegast af öllu er þó að skólastjórar skuli hafa sleppt því gullna tækifæri sem fólst í að neita að hrinda nýjum kjarasamningum kennara í framkvæmd. Þar var verulegur slagkraftur sem skólastjórar í ögn kjánalegum metnaði sínum létu ónotaðan. Eina von skólastjóra var að sinna ekki sínum þætti í innleiðingu vinnumats kennara, enda ósamið um þau mál við skólastjóra. Því miður virðast skólastjórar almennt hafa tekið vinnumatinu fagnandi og einhent sér í að koma hinu nýja skipulagi á sem allra fyrst. Það var barnaskapur og kolrangt á þeim tímapunkti. Þar var farið offari í faglegum metnaði. Starfsstétt sem þannig leikur af sér í miðri kjarasamningagerð hefur ekki ýkja mikið „nef" fyrir kjarabaráttu. Kannski verða menn bara að horfast í augu við það. Kjarabarátta og faglegur metnaður fer illa saman í tíma og rúmi. Faglegheitin verða menn að leggja til hliðar meðan þeir „stræka“ og kjarabaráttuna eiga menn svo að leggja til hliðar þegar þeir fara með fræðilegum himinskautum.

Samninganefnd sveitarfélaganna liggur ekkert á. Hún veit að stjórnendur í grunnskólum eru heldur seinheppinn hópur og vopnlaus að auki. Sumir þeirra segjast ætla að segja upp og fara aftur að kenna. Það má auðvitað prófa það. Einhverjir þeirra myndu þá hækka í launum. Ekki þó allir. Skólastjórar geta líka prófað að semja sjálfir beint við sín sveitarfélög. Það tíðkast í hinum svo kallaða einkageira og þykir flott. Það er líka betra fyrir sveitarfélögin vegna þess að þannig missa þau ekki þá þekkingu sem núverandi skólastjórar hafa komið sér upp og geta um leið tekið tillit til aðstæðna í sínum skólum. Raunar bendir margt til að stéttin sé komin út í horn og því miður getur hún að nokkru kennt sjálfri sér um það. Kannski kann nútíma fólk ekki að vera í kjarabaráttu og kannski kærir það sig heldur ekkert um það? En þá er stjórn og samninganefnd Skólastjórafélags Íslands auðvitað mikil vorkunn að þurfa að draga vopnlausan og áhugalítinn her á eftir sér fram á vígvöllinn.

En neyðin kennir naktri konu að spinna og einhverra hluta vegna kemur upp í hugann sagan af gamla skólastjóranum í Reykjavík, sem hafði þann sið að hverfa á klósettið flesta morgna skömmu eftir að hann kom til vinnu. Þangað tók hann gjarnan með sér góðan bunka af Andrési Önd - á dönsku. Þarna sat hann svo með Andrési og félögum þar til langt var liðið á dag og flestir höfðu yfirgefið vinnustaðinn. Þessi siður var ekki liður í kjarabaráttu skólastjórans, enda voru skólastjórar vellaunuð stétt á þessum árum. Þetta var hins vegar liður í almennri lífsbaráttu hins aldraða manns. Þetta var hans leið til að forða sér undan ágengum kennurum og óþægum krökkum. Hann var nefnilega EKKI VIÐ meðan hann sat á salerninu.

Sennilega þarf „skærur“ allra stjórnenda samtímis til að knýja fram ásættanlega kjarasamninga við samninganefnd sveitarfélaganna. Samræmd og tímastillt náðhúsvist stjórnenda í grunnskólum er trúlega sú aðferð sem næst getur komist verkfallsréttinum að virkni og áhrifamætti. Aðferðin er lögleg og verður að teljast líkleg til að vekja athygli. Í sjálfu sér er ástæðulaust að einskorða sig við félagsskap Andrésar Andar, vel má hugsa sér frjálsa lesningu, enda væri verkefnið þá farið að „fitta“ vel við lestrarátak menntamálaráðherrans.

Er ekki eðlilegast að stjórn Skólastjórafélags Íslands flauti til leiks?

Með baráttukveðju,
Ólafur Arngrímsson skólastjóri Stórutjarnaskóla

 

Tengt efni