is / en / dk

04. Nóvember 2015

Nú er liðið á haustið og skólastarf komið vel í gang, haustönnin hálfnuð og vetrarfrí búin hjá þeim sem það taka. Kennarasambandið stóð fyrir fræðslufundum undir forystu fræðslunefndar KÍ í október. Fræðslan var þríþætt, fræðsla fyrir nýja trúnaðarmenn, fræðsla til forystufólks í röðum KÍ og að síðustu fræðsla um lífeyrismál þar sem markhópurinn er félagsmenn sem eiga stutt eftir fram að töku lífeyris. Fræðslan gekk vel og var góð þátttaka. Fundirnir voru teknir upp og hægt er að skoða myndböndin á heimasíðu KÍ. Ég vil þakka fræðslunefndinni góð störf.

Þórður Árni Hjaltested, formaður KÍ, skrifar. 

Kjaramálin hafa einnig verið í brennidepli. Þrjú aðildarfélög KÍ, þ.e. Félag leikskólakennara, Skólastjórafélag Íslands og Félag stjórnenda leikskóla, hafa verið með lausa samninga um alllangt skeið og hefur lítið miðað í kjarasamningagerð. Kjarasamningur Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum losnar nú um mánaðamótin og bætist félagið þá í hóp þeirra sem bíða.

Ástæða þessar biðstöðu er að atvinnurekendur og viðsemjendur okkar, ríki og sveitarfélög, urðu fyrir því sem þau meta sem „áfall“ við úrskurð kjaradóms í kjaradeilu BHM og FÍH (hjúkrunarfræðinga). Ramminn sem kjaradómur úrskurðaði varð mun stærri en þau höfðu gert ráð fyrir og því fór allt í lás. Það er meðal annars ástæða þess að hinn svokallaði SALEK hópur var kallaður saman til að fara yfir stöðuna, en að hópnum standa allir stærstu aðilar vinnumarkaðarins, þar á meðal KÍ.

Fyrir hópinn var lagt nýtt verkefni af hálfu ríkissáttasemjara sem fólst í því að leysa „bráðavandann“ og tengja við langtímaverkefnið um að skapa nýtt íslenskt kjarasamningsumhverfi. Lausn á bráðavandanum snerist um að koma í veg fyrir að forsenduákvæði kjarasamninga SA og ASÍ í febrúar komandi yrði virkjað á grunni þess að launabreytingar annarra stétta hefðu verið umfram viðmið í kjarasamningum ASÍ. Þar með væru kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði lausir. Niðurstaðan var að ramma inn launahækkanir allra launamanna til ársloka 2018.
Framan af gekk illa að ná utan um verkefnið, en unnið var eftir grunnhugmyndum sem lagðar voru á borðið af hálfu SA, ASÍ og ríkis. Þetta upphafsskjal varð leiðarljósið fyrir alla vinnuna. KÍ reyndi margsinnis, ásamt BHM og BSRB, að fá því breytt en því varð ekki haggað, að því er virðist vegna ráðandi stöðu SA og ASÍ í samstarfinu. Af þeirri ástæðu, og ýmsum öðrum, varð það niðurstaða forráðamanna KÍ að ekki væri rétt að skrifa undir samkomulagið eins og það lá fyrir.

KÍ samdi yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla, birt á heimasíðu KÍ og er einnig að finna aftar í þessu blaði. Þetta var gert um leið og niðurstaða SALEK hópsins var kunngjörð og rammasamkomulag aðila undirritað. Í yfirlýsingunni er þessi ákvörðun KÍ rökstudd.
Meginástæðan er sú að blanda á inn í verkefnið breytingum á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og reikna útgjöld ríkis og sveitarfélaga sem tengjast þeim breytingum til frádráttar mögulegum launahækkunum til framtíðar. Önnur ástæða er sú að viðmiðunarárið, þar sem vísitala er núllstillt, er 2013 sem er vond tímasetning fyrir aðildarfélög KÍ, því þá var launastaða félagsmanna afar slæm. Það var þá sem Kennarasambandið hóf þá vegferð að lagfæra laun kennara og hafði til þess gild og góð rök. Það var kynnt fyrir þjóðinni sem þjóðarátak í lagfæringu launa og að gera kennarastarfið áhugavert í augum ungs fólks sem er að velja sér ævistarf.

KÍ hefur ekki frekar en BHM sagt sig frá SALEK vinnunni eða dregið sig út úr hópnum. Við erum þeirrar skoðunar að það sé tilraunarinnar virði að reyna að skapa nýtt samningamódel á Íslandi. Við hefðum viljað að SALEK hópurinn hefði haft kjark til að skoða launasetningu einstakra hópa og bera þá saman við röðun sambærilegra hópa, t.d. í Danmörku. Við treystum okkur hins vegar ekki til þess að gera það með þeim ákvæðum sem felast í lausn bráðavandans til ársloka 2018.


Greinin birtist fyrst í Skólavörðu Kennarasambands Íslands sem kom út 3. nóvember. 
Það er mjög þægilegt að lesa Skólavörðuna í spjaldtölvu eða í síma og hægt að nálgast smáforrit í App Store og Google Play. Einnig er hægt að lesa Skólavörðuna á netinu. 

Tengt efni