is / en / dk

01. Nóvember 2017

Fjórði nóvember 2016 var föstudagur. Síðan eru liðnir 360 dagar.

Sem grunnskólakennari var lífið á kunnuglegum stað. Jólaauglýsingar voru farnar að hljóma í útvarpinu á leiðina í vinnuna en jólaskapið lét bíða eftir sér. Við vorum nefnilega í kjarabaráttu. Launanefnd sveitarfélaga harðneitaði að semja við okkur um annað en þær Salek-hækkanir sem „þjóðarsátt“ hafði orðið um. Við fengum ítrekað sama samninginn í hausinn – lítið breyttan. Ég hafði nýtekið við sem trúnaðarmaður í skólanum mínum og það kom því í minn hlut að kynna samningana. Sem ég gerði. Ég reyndi að gera það vel og vera hlutlaus.

Ragnar Þór Pétursson, frambjóðandi til formanns KÍ

Föstudaginn fjórða nóvember beið ég í lok vinnudagsins eftir samstarfskonu minni sem kennir yngri börnum í skólanum mínum. Við erum yfirleitt samferða. Meðan ég beið skammaði samstarfskona hennar mig. Hún sagðist ekki hafa kosið mig sem trúnaðarmann til að bera fyrir sig ónýta samninga trekk í trekk. Hún sagði að blóðlitlar og hlutlausar kynningar á lélegum samningum drægju úr fólki kjark. Hún vildi að ég berði kjark í fólkið.

Ég maldaði í móinn. Sagði að það væri ekki hlutverk trúnaðarmanns að vera vindurinn, heldur seglið. Kennararnir þyrftu sjálfir að vera byrinn.

Samtalið fékk mig samt til að hugsa.

Þegar ég kom heim sá ég að á fésbókinni ólgaði allt og bullaði hjá okkur grunnskólakennurum. Fólk var reitt og því var misboðið. Það skildi ekki hvers vegna við fengjum alltaf sama samninginn í hausinn. Margir voru farnir að tala um aðgerðir. Ýmsar aðgerðir voru ræddar – og í einhverjum skólum var ljóst að gripið yrði til einhverra ráða innan fárra daga ef ekkert breyttist. Á sama tíma sátu samninganefndir sveittar við að reyna að dulbúa sömu örfáu prósentin sem eitthvað meira og betra í enn eitt skiptið. Það var alveg ljóst að við vorum á leið í átök.

Það var komið rok
Allt í einu rann upp fyrir mér að kennararnir þyrftu engan vind. Það var komið hávaðarok. Það þurfti ekkert að espa neinn upp eða æsa til aðgerða. Það þurfti einfaldlega að finna einhverja leið til að virkja vindinn, sameina krafta okkar og kröfur. Ég lokaði mig inni í herbergi eftir kvöldmat og skrifaði stutta áskorun til sveitarfélaga. Efnislega laut hún að því að kennarar hefðu bara tvo kosti: Að skilja sveitarfélögin eftir með stórskemmt grunnskólakerfi – eða berjast fyrir því að kerfinu væri bjargað. Við vildum berjast.

Ég setti áskorunina inn á þar til gerða undirskriftasíðu og deildi með kollegum mínum. Nú var klukkan rúmlega hálf níu á föstudagskvöldi.

Fimm kennarar skrifuðu undir á fyrstu mínútunni. Fjórir þá næstu. Svo þrír.

Ég óttaðist að allt myndi lognast út af á örfáum mínútum. Það var öðru nær. Á miðnætti voru undirskriftirnar orðnar fimmhundruð og þrjátíu. Þegar ég vaknaði morguninn eftir höfðu hundrað og tuttugu bæst við. Í lok laugardags voru þær fimmtánhundruð. Á sunnudagskvöldi, þegar ég lokaði fyrir skráningar, voru þær orðnar nærri þrjúþúsund og tvöhundruð.

Undirskriftalistinn reyndist tæplega 60 þéttskrifaðar blaðsíður þegar ég prentaði hann út á mánudagsmorgni.

Boltinn rúllar
Næsta verkefni var að afhenda undirskriftirnar. Við ákváðum í sameiningu að ganga út undir lok vinnudags og mæta í ráðhúsin í sveitarfélögunum okkar og afhenda áskorunina. Við gerðum það. Kennarar um land allt tóku myndir af sér í stórum og litlum ráðhúsum – með kjörnum fulltrúum sem allir sögðu það sama: „Boltinn er ekki hjá okkur, heldur samninganefndinni.“ Borgarstjórinn í Reykjavík fékk lítinn hóp með sér á fund og sagði: „Takk fyrir þetta, en ég eitt skil ég ekki: Hvað eruð þið að gera hér?“

Við bentum á að stjórnmálamenn gætu ekki lengur falið sig á bak við samninganefnd sem síðan feldi sig á bak við Salek-hópinn. Nú væri kominn tími til að axla ábyrgð. Og við héldum áfram. Erla Súsanna, trúnaðarmaður í Háteigsskóla stóð upp í lok fundar með formanni okkar félags og kvartaði yfir því að ekki ætti að nýta meðbyrinn. Við yrðum að gera eitthvað meira. Halda áfram. Við gætum til dæmis haldið stóran fund. Reynt að þjappa okkur saman – efla samstöðuna.

Við héldum fundinn. Við gengum út úr skólunum aftur. Á Höfuðborgarsvæðinu sprengdum við utan af okkur Háskólabíó. Kennarar víða um land héldu sína fundi, suma mjög stóra.

Boltinn hélt áfram að rúlla út allan nóvembermánuð.

Sjálfsprottnar aðgerðir
Nákvæmlega mánuði eftir að bjó til undirskriftalistann fékk ég eftirfarandi skilaboð frá kennara á fésbókinni: „Sæll, Ragnar. Mér finnst alveg með ólíkindum hvað þú ert búinn að berja saman stéttina, fá okkur til að hugsa og blása okkur byr í brjóst.“ 

Staðreyndin er sú að það var ekki ég sem blés. Það eina sem ég gerði var að draga upp segl til að virkja mætti byrinn sem þegar var til staðar. Allt gerðist af sjálfu sér eftir það. Allar aðgerðir voru sjálfsprottnar. Það var engu stýrt eða stjórnað. Allt var ákveðið á samskiptamiðlum – og allt var uppi á borðum. Fjöldi fólks um allt land stóð fyrir aðgerðum. Enginn stýrði því eða skipaði fyrir. Þegar fólk sendi mér spurninguna: „Hvað gerist næst?“ svaraði ég alltaf: „Ég veit það ekki.“

Aðgerðir okkar voru heiðarlegar og frá hjartanu. Kennarar sem staðið höfðu í langvinnum þrætum á netinu stóðu skyndilega saman sem einn maður. Það var ofsalegur léttir.

Salek fer að hrikta
Sveitarfélögin urðu skelfingu lostin þegar boltinn fór að rúlla. Kjörnir fulltrúar gátu ekki lengur falið sig. Við nutum meðbyrs í samfélaginu. Fólk sá að þetta voru heiðarlegar aðgerðir og einlægar. Það fór að hrikta í Salek. Stjórnendur nokkurra sveitarfélaga létu vita af því innan Sambandsins að þeir ætluðu ekki að steypa sínum sveitarfélögum í vandræði til að verja það að okkur yrði enn einu sinni boðinn sami samningurinn. Niðurstaðan var að samninganefnd okkar var boðið að fá allt sem eftir var innan Salek-rammans á einu bretti. Þannig væri hægt að bjarga í horn gagnvart ASÍ sem stóð hótandi á hliðarlínunni. 

Þetta var tímabundin redding og alls ekki nein draumaniðurstaða. Svo fór að meirihlutinn samþykkti hana, fyrst og fremst með þeim rökum að þetta væri bara árssamningur og sem slíkur væri hann ekki svo slæmur. Aðrir voru hundfúlir og töldu að sveitarfélögin hefðu gengið lengra ef meðbyrinn hefði verið nýttur alla leið. Það væri ómögulegt að fá upp sama kraft aftur að ári.

Í dag eru 360 dagar síðan þetta hófst alltsaman.

Nú er komið að kosningum
Á morgun kjósum við okkur formann í KÍ. Þar er ég í framboði.

Ég er í framboði vegna þess að ég tel að KÍ og aðildarfélög þess hafi orðið hluti af vandamálinu. Þar hefur verið stundað skipulegt undanhald síðustu ár. Á örfáum árum hefur hinu opinbera tekist að fá meira og minna allt sitt í gegn. Ég er nokkurnveginn á nákvæmlega sama stað í launum (miðað við launavísitölu) og ég var árið 2006. Það sem hefur breyst er að starfsævi mín hefur lengst um fimm ár og ég mun þurfa að kenna miklum mun meira síðustu 15 ár ævinnar en ég hefði þurft miðað við samninginn sem ég hafði fyrir örfáum árum. Það er búið að stórskerða lífeyrisréttindi mín. Vinnumat veldur því að stöðugt er reynt að skerða rými til faglegrar vinnu.

Leikskólinn liggur undir alvarlegum skemmdum.

Búið er að stórskaða framhaldsskólann vegna þess að þar fékk að leika lausum hala stjórnmálamaður sem reynst hafði misheppnaður hirðir sjóða og var því ekki treyst fyrir öðru í ríkisstjórn en menntakerfinu. Heilt ár var skorið af stúdentsprófinu í óðagoti og honum nánast lokað fyrir fólki sem reynir að berjast til mennta eftir að hafa lent í tímabundnum erfiðleikum í lífinu. Framhaldsskólakennarar létu þetta yfir sig ganga, að hluta til vegna þess að þeim var lofað að þetta yrði á endanum til stóreflingar skólastigsins – en að hluta til líka vegna þess að það virðist yfirlýst afstaða kennaraforystunnar (margítrekuð) að hið opinbera „megi“ gera það sem það vill í krafti valds síns. Þegar í ljós kom að logið hafði verið að framhaldsskólakennurum um eflingu skólastigsins gerðist ekkert.

Vandi KÍ og tilgangslítill formaður
Á sama tíma og hið skipulega undanhald hefur átt sér stað hafa völd innan KÍ safnast á sífellt færri hendur. Dregið hefur verið úr vægi lýðræðislegra stofnana og völd formanna hafa verið aukin verulega. Í úttekt Capacent á starfsemi sambandsins kemur auk þess fram nokkur gagnrýni á formann þess.

Bent er á að hlutverk hans sé óljóst. Það sé ekki skýrt hvers málsvari hann sé. Jafnvel er stungið upp á því að hlutverk hans sé endurskoðað frá grunni og ráðinn framkvæmdastjóri eins og í fyrirtækjum. Þá er bent á að lítið heyrist frá honum um fagleg mál. Hann sé til dæmis megintengiliður KÍ í erlendu samstarfi – og samt viti nánast enginn hvað það samstarf felur í sér.

Það er ástæða fyrir því að formaður KÍ er valinn úr hópi félagsmanna. Hann er ekki lögfræðingur eða viðskiptafræðingur. Þeir koma fæstir til álita enda myndi þeir ekki sætta sig við kennaralaun og eru þar af leiðandi ekki gjaldgengir. Formaður KÍ er skólamanneskja fyrst og fremst – vegna þess að hann er málsvari skólanna. Hans hlutverk er að standa vörð um hagsmuni okkar – og draga upp segl þegar það á við.

Núverandi formaður Félags grunnskólakennara, og frambjóðandi til formanns KÍ, hefur í tvígang, svo ég hafi heyrt, stært sig af aðgerðum kennara fyrir ári síðan. Hann hefur hróðugur sagt að sér hafi verið hrósað af kunnugum – og verið spurður hvort hann hafi ráðið sömu ráðgjafa og læknar höfðu í sínum aðgerðum. Hann gaf í skyn á nýlegum fundi trúnaðarmanna að hann hefði hrundið aðgerðunum af stað með því að sá fræjum hugmynda í koll kennara.

Hér liggur einn meginvandi forystu kennara.

Aðgerðirnar síðasta vetur voru einlægar og heiðarlegar. Það var þess vegna sem gamlir andstæðingar gátu sameinast og tekið höndum saman. Þær voru ekki útpældar og lymskulegar. Þær áttu ekki uppsprettu sína hjá almannatengli eða á auglýsingastofu.

Forysta okkar er því miður í mörgum tilfellum betur tengd við almannatengla en kennara.

Svo miklu meira en stéttarfélag
Því hefur verið haldið fram að menntastefna sé ekki meginviðfangsefni KÍ. Það sé fyrst og fremst stéttarfélag. 

Um það má segja tvennt. Í fyrsta lagi það að síðustu ár hefur það ekki reynst neitt sérstaklega gott stéttarfélag. Hver einasti kennari hefur séð hve mikið hefur verið gefið eftir – og hve miklu hefur verið fórnað. Það að selja réttindi eða fórna innviðum fyrir launahækkanir er hinn gamli dauðadans samtaka kennara. Vissulega hafa t.d. framhaldsskólakennarar fengið launahækkanir – en það segir allt um þær hækkanir að framlög ríkisins til skólastigsins eru samt að dragast saman. Það hefur aldrei verið vandamál að fá launahækkanir sem kosta ekki neitt.

Það er leikskólakennurum skammgóður vermir að fá sömu grunnlaun og grunnskólakennarar þegar þeim er gert nánast ómögulegt að halda uppi faglegu starfi vegna aðstöðuleysis, tímaskorts og manneklu – og þess inngróna viðhorfs að það þurfi ekki að framfylgja lögum ef það kostar peninga.

Síðustu ár hefur staða okkar kennara versnað mjög til lengri tíma litið. Hið opinbera hefur ítrekað hótað kennaraforystunni bak við tjöldin og hún hefur alltaf gefið eftir.

Kennarasamband Íslands er svo miklu meira en stéttarfélag – á sama hátt og kennarar eru svo miklu meira en bara launþegar.

KÍ gegnir lykilhlutverki í að varðveita og styrkja menntakerfið á Íslandi. Til þess erum við í kennarasambandi.

Fagmennska okkar er ekki bara réttlæting fyrir hærri launum. Fagmennska okkar er grundvöllur hins lýðræðislega samfélags. Ástæða þess að hið opinbera er yfir höfuð til. Því ber að sjá til þess að hér séu starfrækt kerfi sem tryggja velferð, heilbrigði og menntun.

Kennarasamband Íslands á að standa vörð um menntun fyrst – og peninga svo.

Leiðin áfram
Kennarasamband Íslands er ekki Alþingi. Það er ekki svo að kosningar skili einhvernveginn á endanum alltaf Framsókn. Kosningar KÍ bjóða upp á tækifæri til stefnubreytinga.

Meira að segja hlutlaust ráðgjafafyrirtæki sér að skort hefur upp á forystu KÍ síðustu ár. Ég hygg að kennarar viti það flestir líka.

Leiðin sem ég sé áfram er ekki sú sem farin hefur verið af forystu FG eða FF. Leiðin er þessi: Ég vil meiri heiðarleika og hugrekki í forystu KÍ. Ég hafna því að hið opinbera eigi menntakerfið og megi gera við það hvað sem það vill. Ég hafna því að okkar hlutverk sé að fá sæti við borðið þar sem valtað er yfir okkur trekk í trekk. Við eigum að eiga okkar eigið borð og bjóða hinu opinbera sæti við það.

Að raunverulegum framförum eigum við að vinna af öllu hjarta með öllum sem vilja vera með – gegn raunverulegri afturför eigum við að standa af miklu meira afli en síðustu ár.

Verði ég kosinn formaður vil ég efla lýðræðið í félaginu. Til þess að svo geti orðið þarf að stórefla upplýsingagjöf til félagsmanna. Það þarf að standa gegn áformum um að safna valdi á fáar hendur. Það þarf að kalla fleira fólk til starfa – og efla grasrótina. Og þegar rokið blæs á að setja upp segl – ekki reisa skjólveggi.

Formaður KÍ er holdtekja þess sem sameinar okkur. Það sem sameinar okkur er tvennt: Ástríða fyrir menntun – og virðing fyrir þekkingu og sannleikanum. Kennarar ráða alveg við að höndla sannleikann og beina síðan forystu sinni þá braut sem þeir vilja fara. En til þess þurfa þeir að vera upplýstir og treysta forystu sinni. Slíkt traust verður ekki til með því að forystan loki sig af með allar stórar ákvarðanir, jafnvel þótt hún hafi almannatengla á hverjum fingri.

Goggunarröðin
Guðríður Arnardóttir sagði í umræðum í gær að hún sæi ekkert eftir því með hvaða hætti hún stóð gegn kjarabótum grunnskólakennara meðan hún starfaði á vettvangi sveitarfélaga. Það væri þvert á móti styrkur hennar að hafa reynslu af því að sitja hinum megin við borðið. Henni hefði samt alltaf verið hlýtt til kennara en vandinn hefði verið sá að hún „fékk ekki að ráða öllu.“

Í þessu kristallast misskilningur sem hefur orðið okkur dýrkeyptur.

Menntamál eru ekki stjórnmál. Þau snúast ekki um að ráða öllu, að verða sá sterkasti og geta komið fram vilja sínum í krafti valda og stöðu sinnar. Ef maður verður formaður KÍ þá er maður einmitt ekki orðinn sá sem „ræður öllu.“

Það getur vel verið að ríkið sé ofar í pólitísku goggunarröðinni en framhaldsskólakennarinn og sveitarfélagið ofar en leik-, tónlistar- og grunnskólakennarinn. En það gerir kennarann ekki að hinum veika – sem vaða má yfir. Ef kennarar eru heiðarlegir og hugrakkir þá standa þeir saman. Þúsundir þeirra. Ef baráttan er að auki réttlát þá standa tugir þúsunda að baki þeim. Það getur fengið hvaða stjórnmálamann sem er til að skjálfa. Við höfum séð það gerast.

Við eigum að taka slaginn þegar við þurfum að taka slaginn vegna þess að það er réttlátt. Ég trúi því að réttlætið hafi tilhneigingu til að sigra og að stundum geti sá veiki sigrað hinn sterka.

Ef ég tryði því ekki væri ég auðvitað ekki að bjóða mig fram gegn tveimur af valdamestu formönnum samtaka okkar.

 


 

Tengt efni