is / en / dk

19. Janúar 2018

Kennarasamband Íslands (KÍ) er ekki aðili að rammasamkomulagi um launaþróun eins og flestir aðrir aðilar vinnumarkaðarins. Það á sér meðal annars þá eðlilegu skýringu að þegar núllstaða þess samkomulags var valin haustið 2013 var launastaða kennara með versta móti. Á þeim tíma voru til dæmis meðaldagvinnulaun félagsmanna Kennarasambands Íslands í framhaldsskólunum um 16% lægri en annarra sérfræðinga hjá ríkinu. Kennarasamband Íslands reyndi ítrekað að hafa áhrif á þennan viðmiðunarreit án árangurs. Og þess vegna afþakkaði forysta KÍ þátttöku í rammanum, oft kenndum við SALEK.

Skoðum aðeins söguna. Launagögn fjármálaráðuneytisins frá árinu 2006 sýna að það ár voru laun framhaldsskólakennara 6% lægri en laun annarra sérfræðinga hjá ríkinu. Laun innan framhaldsskólans hafa nefnilega verið sveiflukennd í gegnum árin og ítrekað hafa laun framhaldsskólakennara dregist verulega aftur úr öðrum hópum á vinnumarkaði.

Með kjarasamningi KÍ við íslenska ríkið frá 4. apríl 2014 gerðu aðilar samkomulag um að færa laun innan framhaldsskólans til betri vegar. Það fól meðal annars í sér ákveðin ábataskipti aðila og grundvallarkerfisbreytingar á vinnurammanum sem reyndi mjög á stéttina. Eðlilega þurfti að hækka laun framhaldsskólakennara talsvert og meira en annarra hópa sem höfðu búið við betri launastöðu og sýna launagögn að framhaldsskólakennarar eru enn eftirbátar annarra sérfræðinga hjá ríkinu.

Sé haustið 2013 upphaf sannleikans lítur út fyrir að framhaldsskólakennarar hafi náð fram verulegum kjarabótum í samanburði við aðra launþega. Ef launasetning framhaldsskólakennara er hins vegar skoðuð lengra aftur í tímann, kemur í ljós að hún hefur tæplega verið á pari við launaþróun almennt í landinu.

Launaþróun framhaldsskólakennara hefur ekki verið meiri en annarra launþega síðustu 10 ár. Eins og sést á meðfylgjandi mynd hefur hún ítrekað verið mun lakari en almennt. Reyndar svo mjög yfir tiltekin tímabil að það hefur leitt til verulegra skerðinga á heildartekjum félagsmanna.

Ef framhaldsskólakennarar fá minna en aðrir hópar á grundvelli rammasamkomulags um launaþróun mun launastaða kennara hrökkva niður í þá arfaslöku stöðu sem hún var í haustið 2013 og var aðdragandi að verkfalli stéttarinnar. Það viljum við ekki, hvorki framhaldsskólakennarar eða aðrir.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 22. desember 2017. 

   

Tengt efni