is / en / dk

05. Apríl 2018

Vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um innanfélagsdeilur Kennarasambands Íslands í tengslum við Vísindasjóð framhaldsskólakennara vil ég koma eftirfarandi á framfæri.

Fjárreiður Kennarasambands Íslands eru endurskoðaðar árlega af löggiltum endurskoðendum. Bókhald félagsins er fært samkvæmt ítrustu kröfum um gegnsæi og skýrleika.

Fyrrverandi stjórnarmenn Vísindasjóðs framhaldsskólakennara hafa staðið í persónulegum deilum við Kennarasambandið í nær áratug. Alls kyns ágreiningsefni hafa verið dregin upp úr hattinum á þeim tíma.

Þessir einstaklingar hafa stefnt Kennarasambandinu fyrir ýmsar sakir ávallt án árangurs. Tugum milljóna hefur verið eytt úr sjóðum félagsmanna í málarekstur sem engu hefur skilað þar sem kærendur hafa tapað öllum málum fyrir dómstólum.

Enn og aftur var haldið af stað og málefni sjóðsins kærð til lögreglu haustið 2015. Eins og lögreglu ber að gera fór fram skoðun á málinu sem leiddi ekkert saknæmt í ljós og var kærunni vísað frá. Sú frávísun var staðfest af ríkissaksóknara.

Stjórn félags framhaldsskólakennara kallaði saman aðalfundarfulltrúa félagsins á aukaaðalfund árið 2016 og fól þannig æðstu stofnun félagsins að fjalla um málið. Um 60 manns eru löglega kjörnir aðalfundarfulltrúar og var niðurstaðan sú að nú væri mál að linni. Lýðræðislegri verður umfjöllun málsins varla. Það vekur hins vegar upp spurningar hvers vegna þessir fyrrverandi stjórnarmenn eyddu milljónum af fjármunum framhaldsskólakennara í lögfræðiálit þar sem reynt var að fá lögbann á umræddan aðalfund, í stað þess að fagna lýðræðislegri umfjöllun um málið.

Hafa ber í huga að tveir af þremur fyrrverandi stjórnarmönnum, sem nú ráðast gegn eigin stéttarfélagi, voru kosnir úr stjórn Vísindasjóðsins á reglulegum aðalfundi 2014. Þriðji stjórnarmaðurinn er ekki lengur félagsmaður í Kennarasambandi Íslands.

Kennarasamband Íslands hefði viljað verja þessum fjármunum og hinum ómælda tíma starfsmanna sinna í uppbyggilegri verkefni í þágu félagsmanna. Að lokum harma ég þær tilhæfulausu ásakanir sem starfsfólk Kennarasambandsins hefur þurft að sitja undir. 
 

Þórður Árni Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. apríl 2018. 
 

Tengt efni