is / en / dk

16. Apríl 2018

Það er flókið að skilgreina tilgang menntunar. Ein skilgreining, sem ég held að heilmikið vit sé í, er að segja að menntun felist í að kenna fólki að grípa tækifæri. Menntuð manneskja fær lykla að heiminum. Hún getur hagnýtt sér orku vindsins, afla sjávarins og tækifærin í mannlífinu. Íslendingar hafa auðvitað alltaf verið menntuð þjóð. Það var eina leiðin til að lifa af, oft við mjög erfiðar aðstæður. En lífið snýst ekki um það eitt að komast af. Lífið snýst líka um að skapa. Sköpun fylgja ný tækifæri. Þjóð sem finnur fisk í sjó öðlast meiri farsæld með því að fara sér hægt í veiðunum en með græðgi og ofveiði. Þjóð sem heimsótt er af mörgum ferðamönnum öðlast meiri farsæld ef hún sinnir þeim vel og af gestrisni en með okri og ágirnd.

Nú, þegar ég skrifa þennan pistil, sit ég uppi í risi Kennarahússins hér við horn Landspítalans í Reykjavík. Þetta er fyrsti dagurinn minn í nýrri vinnu sem formaður Kennarasambands Íslands. Í gærkvöldi las ég nærri hundrað og tíu ára gamla ræðu sem flutt var við útskrift kennara úr þessu sama húsi. Þar stendur: „Þér eigið nú það mikilsverða hlutverk fyrir höndum, að koma almenningi í skilning um, að eigi hafi verið að óþörfu eða ófyrirsynju í það ráðist, að auka kröfurnar um undirbúning barnakennara og kosta til þess ærnu fé eftir vorum efnum. Þér eigið að hjálpa alþýðu manna til að skilja það, sem hún hefir átt of bágt með að skilja til þessa, hvílíkur munur er á góðri barnakenslu og slæmri; að það er hrópleg fyrirmunun að velja menn til þeirrar sýslu af handahófi og rétt til málamynda, rétt eftir því hver ódýrastur fæst, eins og alt annað skifti litlu.“

Þetta er enn verkefni okkar. Að koma almenningi í skilning um að það búi fleiri tækifæri í menntakerfinu okkar en blasa við. En til þess að skapa þau (því þau verða ekki nýtt öðruvísi) þarf samfélagið að stilla sig um skammsýni og kæruleysi.

Menntakerfið stendur frammi fyrir stórum áskorunum. Það er ekkert nýtt. Nýútskrifaði kennarinn sem sat hér fyrir meira en öld fékk í veganesti þá visku að meira skipti hver hann væri en hvað hann vissi. Hann myndi mæta erfiðleikum og ágjöf. Þess vegna þyrfti hann þolinmæði og trú. Þolinmæði til að bíða eftir ávöxtum erfiðis síns og trú á að fyrr eða seinna kæmi eitthvað gott úr því sem hlúð væri að af alúð. Skrefin á lífsleiðinni gætu vissulega verið misþung en bæði létt og þung spor gætu orðið gæfuspor.

Í Kennarahúsinu hefur allt það mikilvægasta um menntamál verið hugsað og sagt mörgum sinnum. Ég finn til auðmýktar við að sitja undir þessu þaki. Áskorun skólameistarans frá 1910 er ekki síður áskorun til okkar í dag. Og því flyt ég hana hér á fyrsta degi í nýju starfi.

Ég vil láta það vera mitt fyrsta verk sem formaður KÍ að færa Þórði Hjaltested kærar þakkir fyrir störf sín í þágu sambandsins.

 

Tengt efni