is / en / dk

27. Maí 2018

Kæra sveitarstjórnarmanneskja!

Mig langar að byrja á að óska þér til hamingju með kjörið og þakka þér fyrir að bjóða þig fram. Það er ekki sjálfgefið að fólk gefi kost á sér til ábyrgðarstarfa og þau verkefni sem þú hefur tekið að þér eru bæði stór og mikilvæg. Megi þér farnast sem best í starfi.

Þú stendur frammi fyrir stórum áskorunum. Húsnæðismál, atvinnumál, skipulagsmál og umhverfismál eru nokkur þeirra mikilvægu verkefna sem brýnt er að sinnt verði af miklum krafti næstu árin. Mig langar samt að tala aðeins við þig um menntamál.

Alla þessa öld hafa sveitarfélögin borið ábyrgð á stórum hluta menntakerfisins hér á landi. Þann tíma hefur margt breyst til batnaðar. Annað hefur gengið verr. Nú, þegar þú tekur þér sæti í stjórn sveitarfélagsins þíns, er uppi býsna flókin staða sem mikilvægt er að spilað sé vel úr.

Við þurfum að styðja við móðurmál
Heimurinn er að breytast. Í gegnum stafræna tækni hafa opnast ótal gluggar að veruleikanum sem áður voru lokaðir. Auk þess er nýr veruleiki orðinn til. Aldrei hefur verið auðveldara að ferðast um heiminn – og aldrei hafa jafn margir sótt okkur heim. Jafn þversagnarkennt og það kann að hljóma þá eiga tungumál heimsins undir högg að sækja. Á sama tíma og forrit eiga sífellt auðveldara með að snara orðum og orðasamböndum á milli ólíkra mála dregst saman aðsókn á málabrautir og í tungumálanám og vísbendingar eru um að okkur sé ekki að takast að skila móðurmálum okkar nægilega vel til komandi kynslóða. Vissulega hefur enskukunnátta þjóðanna eflst. Sem og tæknilæsi. Það er bara ekki nóg. Við þurfum að slá vörð um móðurmálin okkar, hvort sem það er talmál, ritmál eða táknmál; íslenska, pólska eða franska. Á sterkum grunni móðurmáls þarf síðan að byggja upp öfluga málkunnáttu í öðrum málum.

Menntun er ekki (bara) þjónusta
Menntun varðar leið manneskju inn í samfélög. Það getur ráðist að verulegu leyti af menntuninni hver áhrifamáttur einstaklings verður í umhverfi sínu. Það er flókið að mennta fólk og það er ekki minna mál að mennta minna fólk en stærra. Menntastofnanir eru ekki geymslur. Þær hafa hlutverk og allt þeirra starf á að miða að því hlutverki. Á Íslandi er vinnuvikan of löng og samvistir barna og foreldrar of litlar. Flestir foreldrar eyða allt of löngum tíma í vinnunni og yngstu börnin eyða of löngum tíma í skólunum. Það getur verið mjög freistandi að líta á menntun sem þjónustu. Ég bið þig að gæta þín á slíkum viðhorfum. Skólar eiga að snúast um menntunarstig en ekki þjónustustig. Menntakerfið okkar glímir við bráðan skort á ýmsum sviðum, sérstaklega er lýtur að mannauði. Það er áskorun að forgangsraða í slíku kerfi.

Hvers vegna báðu sveitarfélögin um skólana?
Vald þitt, sem kjörins fulltrúa, yfir skólakerfinu byggir á þeirri pólitísku afstöðu að þú og aðrir kjörnir fulltrúar ættuð frekar að hafa þetta vald en ríkið. Þetta bið ég þig að hafa hugfast. Það kann að vera að pólitísk áhugamál þín séu önnur en menntamál. Kannski eiga skipulagsmál hug þinn allan. Kannski eru það atvinnumál. Það breytir því ekki að þú berð nú ábyrgð á menntamálum líka. Það krefur þig bæði um afstöðu og aðgerðir. Þú verður að setja þig inn í menntamálin. Það getur verið freistandi að vísa þessum málum til miðlægs samráðs sveitarfélaga. Það er hinsvegar í ósamræmi við upphaflegan tilgang flutnings skólanna til sveitarfélaga. Skólarnir hefðu alveg getað verið áfram hjá ríkinu ef sveitarstjórnarfólk hefði ekki ætlað sér að bera á þeim ábyrgð.

Og loks kjaramál
Það er ekki hægt að enda svona bréf án þess að ræða kjaramálin aðeins. Þau verða áskorun. Fyrir nokkrum vikum heyrði ég í framboði sem í gær hlaut góða kosningu. Í því samtali var mér sagt að frambjóðendum hefði verið tjáð að launahækkanir til kennara væru ekkert sérstakt forgangsmál, og að kennarar væru sammála því! Þeir væru sáttir við þá stefnu að aðbúnaður í skólunum væri meginmálið. Ef þú hefur heyrt eitthvað svipað bið ég þig að hunsa það. Þetta er rangt. Það hreinlega verður að bæta launakjör kennara og stjórnenda. Það er vissulega ekki það eina sem þarf að gera en hjá því verður ekki komist. Það verður að tryggja skólakerfinu þann mannauð sem þarf til að reka hér menntakerfi af þeirri tegund sem kveðið er á um í lögum. Það verður að brjóta niður kerfisbundið ranglæti sem ásamt öðru stuðlar að skertum kjörum kennara. Hér þarf líka að skapa vinnufrið fyrir skólana. Ekkert af þessu gerist án launahækkana. Það verður að skapa þjóðarsátt um bætt kjör kennara. Ef það verður ekki gert mun atgervisflótti halda áfram, faglegt starf mun líða fyrir það og átök aukast. Þú þarft að taka afstöðu til slíkrar sáttar.

Gangi þér vel!
Ég vil að lokum óska þér góðs gengis í störfum þínum næstu fjögur árin. Þú hefur tekið að þér stórt verkefni sem mikilvægt er að takist vel. Á herðum þínum hvílir mikil ábyrgð. Kannski óar þér við verkefninu. Skólafólk þekkir þá tilfinningu. Hver einasti nemandi er áskorun. Hver einasta skólaganga þarf að heppnast vel. Til þess að svo geti orðið þurfum við að hjálpast að. Skólakerfið þarf þína hjálp – og það býður þér sína. Farðu í heimsókn í skólana. Talaðu við fólkið á gólfinu. Ræddu við nemendur og foreldra. Kynntu þér málin og leitaðu liðsinnis okkar sem störfum í þessum geira. Hjálpumst að. Vonandi stendur skólakerfið okkar enn betur eftir fjögur ár en nú. Það er hinsvegar ekki sjálfgefið.

Ég bið þig að hafa það í huga strax á fyrsta degi starfs þíns – og á hverjum degi eftir það.

Kær kveðja,

Ragnar Þór Pétursson,
formaður Kennarasambands Íslands


 

Tengt efni