is / en / dk

01. Júní 2018

Katarzyna Wozniewska er einn þeirra nemenda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem kynnti meistaraverkefni sitt á dögunum. Hún ákvað að rannsaka nokkuð sem í raun er orðið að grundvallarspurningu í íslensku samfélagi. Sjálf átti hún von á barni með íslenskum manni og þar sem hún er pólsk að uppruna skipti það hana töluverðu máli að ígrunda það málumhverfi sem barnið skyldi alast upp í. Hún vill að barnið verði tvítyngt og tali bæði íslensku og pólsku.

Í rannsókn hennar kom í ljós að viðhorf til tungumáls skiptir gríðarlega miklu máli við máltöku. Þess eru dæmi að foreldrar af erlendum uppruna ákveði hreinlega að kenna börnum sínum ekki hið erlenda mál af félagslegum ástæðum. Katarzyna benti á merkilega staðreynd í þessu samhengi. Íslensk börn sem eiga móður af erlendum uppruna en íslenskan föður eru líklegri til að tala íslensku við systkini sín en börn í fjölskyldum þar sem hlutverkin eru önnur. Það er mjög umhugsunarvert.

Til að börn tileinki sér mál þarf tvennt að koma til: Þörf og ílag. Börn nota tungumálið sem verkfæri. Það veitir þeim áhrifamátt í heiminum. Hafi barnið ekki þörf fyrir tungumál verður máltakan mjög örðug. Ílag er sú málörvun sem á sér stað. Málið sem þú heyrir, sérð og lest. Þar munar langmest um gagnvirk samskipti. Máltakan er miklu öflugri ef talað er við börn en ef börn læra mál af skjá eða bók.

Samkvæmt stórri rannsókn um stafrænt málsambýli íslensku og ensku hér á landi virðast allar kynslóðir Íslendinga nokkuð sammála um mikilvægi íslenskunnar. Það eru líka allir sammála um að enska sé mikilvæg. Greinilegur kynslóðarmunur kemur þó fram þegar hugmyndir fólks um notkun þessara tungumála eru skoðaðar. Yngra fólk er miklu líklegra til að hugsa og tala ensku í aðstæðum þar sem hægt væri að nota íslensku. Það er líka margfalt jákvæðara í garð þess að nota ensku sem samskiptamál við raddstýrða tækni.

Það er ýmislegt sem bendir til þess að snjalltæknin muni á næstu árum þróast frá sjónrænu viðmóti til raddstýringar. Gervigreind og máltækni mun gera fólki kleift að eiga samskipti við tæknina. Það er ekki ólíklegt að stafrænir aðstoðarmenn verði brátt mjög fullkomnir og vakti bæði heilsufar og líðan. Nú er í þróun slík tækni sem bindast á persónulegum vináttuböndum við notandann og hressa hann við þegar hann er niðurdreginn.

Hver sem þróunin verður og hversu hratt sem hún mun eiga sér stað þá er kominn tími til að íslenskir foreldrar og kennarar geri sér grein fyrir því að við erum öll að ala upp tvítyngd börn. Meira og minna allir Íslendingar undir þrítugu tilheyra a.m.k. tveim málsamfélögum. Þess vegna skiptir okkur nú meginmáli að ákveða hvort, og þá með hvaða hætti, við ætlum að styðja við móðurmálið. Við erum öll í sporum Katarzynu.

Ísland verður að taka forystu í þróun máltækni í litlu málsamfélagi. Tæknistig þjóðarinnar og jákvætt viðhorf til íslenskunnar krefst þess. Það er fyrst og fremst á ábyrgð atvinnulífs, stjórnvalda, háskóla- og tæknisamfélagsins.

Önnur verkefni snerta okkur öll. Við verðum að ígrunda vel málumhverfi barna. Hér á landi ætti kerfisbundið að auka virðingu fyrir móðurmáli og menningu fólks, hver sem uppruninn er. Við þurfum að vinna gegn þröngsýni og fordómum í garð ýmissa menningarhópa. Það þarf líka að vinna gegn fordómum í garð íslenskunnar á mörgum notkunarsviðum. Vægi íslensku minnkar ekki við það að pólska og pólsk menning verði meira metin í íslensku samfélagi; vægi ensku minnkar ekki við það að talað sé á íslensku um tölvuleiki og nýjustu tækni.

Það þarf að stuðla að því að börn eigi samskipti á móðurmáli sínu og tjái sig um áhugamál sín og alla skapaða hluti. Það þarf að auka lestur og lestraráhuga og stórefla framboð á lesefni og annarri afþreyingu fyrir börn á íslensku og öðrum málum sem notuð eru hér á landi. Við þurfum þó alltaf að muna það að lestur er ekki endilega öflug leið til máltöku (þótt lestur geti stóreflt orðaforða þegar líður á). Það er gagnvirknin sem allt snýst um.

Hugtakið sjálft, móðurmál, vísar til samskipta. Þetta megum við hafa hugfast á dögum efnahagsuppsveiflu. Það virðist nefnilega inngróið í íslenskt vinnusiðferði að á bjargræðistímum eigi lífið að snúast um að bjarga verðmætum úr sjó, af fjalli eða túni. Við höfum kannski ekki fyllilega áttað okkur á því að mestu verðmætin þarf ekki að elta – heldur aðeins gefa þeim athygli og tíma.

 


 

Tengt efni