is / en / dk

25. Júní 2018

Íslendingar hafa löngum verið áhugasamir um skoðanir þeirra sem koma til Íslands utan úr heimi og frasinn: „How do you like Iceland?“ hefur verið notaður til að lýsa þorsta landans fyrir viðurkenningu heimsins. Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég las grein í nýjasta tímariti Uppeldis og menntunar eftir Helgu Guðmundsdóttur, Geir Gunnlaugsson og Jónínu Einarsdóttur sem bar heitið: „Allt sem ég þrái“: menntun og skólaganga barna sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi. Greinin fjallar um rannsókn sem lýsir og greinir upplifun og reynslu barna og foreldra sem leita alþjóðlegar verndar á Íslandi af menntun og skólagöngu hérlendis. Og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Greinin er ákaflega áhugaverð og dregur vel fram styrkleika íslenska skólakerfisins. 

Rannsakendur tóku haustið 2015 hálfstöðluð viðtöl við 12 börn og foreldra þeirra sem leitað hafa alþjóðlegrar verndar á Íslandi, um upplifun af íslenska skólakerfinu, félagslegum samskiptum og menntun barnanna. En í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er skýrt kveðið um þau réttindi barna að hljóta grunnmenntun þeim að kostnaðarlausu. Langflest barnanna voru á grunnskólaaldri, tvö á framhaldsskólaaldri og þrjú þeirra höfðu ekki hafið skólagöngu. 

Niðurstöður þessarar rannsóknar eru mjög jákvæðar fyrir íslenska kennara og draga fram mikilvægi starfa þeirra. Kennurum er lýst sem algerum lykilpersónum í lífi barnanna og þakklæti foreldra í garð kennaranna var ítrekað. Þeir eru sagðir umburðarlyndir, þolinmóðir og hjálpsamir. Þeir eru einnig úrræðagóðir við að skilja börnin þrátt fyrir mikla tungumálaörðugleika og sýna velvild og hjálpsemi við úrlausn mála sem tengdust skólahaldinu ekki beint, eins og t.d. fatasöfnun fyrir börnin. Hvað skólastarfið sjálft varðar fékk það líka góða umsögn. Börnin fundu ekki fyrir fordómum. Aðbúnaður var góður í skólunum og námsgreinar fjölbreyttar. Foreldrarnir lögðu mikla áherslu á gildi menntunar fyrir framtíð barna sinna og töldu sig fá stuðning í skólunum til að fylgjast með.

Í mars árið 2017 hélt Kennarasamband Íslands málþing um börn sem leita alþjóðlegrar verndar. Þar komu fram miklar áhyggjur af skorti á stuðningi við kennara sem sinna þessum málaflokki. Kennarar töldu stuðning og fræðslu ábótavant, höfðu áhyggjur á almennum fjárskorti og stefnuleysi stjórnvalda. Þeir sögðu ósamræmi í verklagi milli skóla og annarra stofnana sem sinna börnunum og nauðsynlegt væri að bæta þekkingu íslenskra kennara á aðstæðum íslenskra barna sem leita alþjóðlegrar verndar og eins þurfa börnin stundum að bíða of lengi eftir að hefja skólagöngu. Í niðurstöðum umræddrar rannsóknar kemur einmitt fram að skólinn er lykilatriði í lífi þessara barna og svo miklu meira en einungis lærdómsstaður. Í skólanum er lífið, þar kynnast þau jafnöldrum og menningu, læra íslensku og hafa eitthvað uppbyggilegt fyrir stafni, eða eins og eitt barnið komst að orði þegar það var spurt hvaða þýðingu skólagangan hefði: „Allt sem ég þrái“.

Þessi rannsókn er því góð og holl lesning fyrir kennara og undirstrikar í hvílíku lykilhlutverki þeir eru í lífi barna og unglinga. En á meðan þeir vinna störf sín af mikilli fagmennsku og metnaði vantar að bæta opinbera stefnumótun og stuðning við störf þeirra. Mikilvægt er að standa við þá samninga sem þjóðin hefur undirgengist um réttindi barna og koma á samræmdri og skýrri stefnu um hvernig menntun barna í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi skuli háttað. Menntun er jú mannréttindi.


 

 

 

Tengt efni