is / en / dk

05. október 2018

Í dag er Alþjóðadagur kennara. Ég óska okkur öllum til hamingju með hann. Kennarasamband Íslands þjófstartaði deginum með glæsilegu skólamálaþingi í gær. Þingið hnitaðist að þessu sinni um framtíð íslenskrar tungu. Í lok þess skrifuðu Kennarasambandið, forsætisráðuneytið, menntamálaráðuneytið, Háskóli Íslands, Samband sveitarfélaga og Heimili og skóli undir viljayfirlýsingu um að setja íslenskt mál í forgrunn í störfum sínum. Enda er ekki vanþörf á. Sterkar vísbendingar eru þegar komnar fram um að íslenskan eigi mjög undir högg að sækja, sérstaklega gagnvart ágengum áhrifum ensku.

Í snjallri ritgerð skrifaði Þorsteinn Gylfason heimspekiprófessor einu sinni um mikilvægi þess að hugsa á íslensku. Hann hafði þá tekið að sér að gefa út bókaflokk á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Þetta voru (og eru) allt grundvallarrit, hvert á sínu sviði. 

Þorsteinn lýsir því í ritgerðinni hve erfitt var að vinna útgáfunni brautargengi. Þegar hann nálgaðist sérfræðinga með ósk um að þeir þýddu þessa eða hina bókina þá var svar mjög margra það að þetta tiltekna rit væri einfaldlega ekki hægt að þýða á íslensku. Til þess væri það of tæknilegt og sérhæft og íslenskan of fátæk af orðum á viðkomandi sviði.

Þetta er gott að hafa hugfast nú þegar háskólastarf hér á landi fer í sífellt auknum mæli fram á ensku.

Þorsteinn hunsaði slíkar mótbárur og hafði það að venju að svara sérfræðingunum með tilvitnun í Einar Ben:

Þú last – þetta mál með unað og yl
yngdan af stofnunum hörðu.
Ég skildi, að orð er á Íslandi til
um allt, sem er hugsað á jörðu.

Flest brugðist við með því að brosa og fara að tala um eitthvað annað.

Þau sárafáu sem nenntu að ræða þetta áfram við hann brugðust við með því að nefna fræðileg hugtök á stangli sem ættu sér enga íslenska hliðstæðu.

Því svaraða Þorsteinn með þeim orðum að Einar Ben hafi ekki sagt að til væri orð á Íslandi um allt sem talað væri á jörðu, heldur hugsað. Og þar lægi mikilvægur grundvallarmunur.

Að nota tungumál í breytilegum heimi byggir m.a. á þeirri forsendu að stöðugt þarf að finna ný orð. Þorsteinn var einlæglega þeirrar skoðunar að þau sem byggju að góðum grunni orðaforða og hugsunar gætu, væri það metnaður þeirra, fundið þau orð sem vantaði. Tungumálið byggi enda yfir miklu meira en nægum efniviði til að smíða þau hugtök sem upp á vantar. 

Af þessu flaut að það var skoðun Þorsteins að fræðileg íslenska ætti um leið að vera alþýðumál: Oftast væri hægt að smíða hinn fræðilega orðaforða með því að nota einfalda og alþýðlega orðstofna. Stéttarskiptingu í krafti málfars skyldi forðast í lengstu lög. Þeir fræðimenn sem telja íslenskuna of litla fyrir fræðasvið sitt gera sér ekki grein fyrir stærð hennar. Hún er stórmál.

Sjálfur lifði Þorsteinn eftir þessari reglu sinni. Þegar hann kenndi heimspeki datt honum ekki í hug að vísa til hins katagóríska imperatífs eða maximin-reglunnar; hann talaði um hið skilyrðislausa skylduboð og fjalldalaregluna.
Hann taldi enda ljóst að besta leiðin til að fást við flóknar og nýjar hugmyndir væri að brjóta þær niður í þau hugsanir sem maður hefði þegar á valdi sínu.

Í gær leiddi Kennarasambandið saman stóran hóp fólks sem á það sameiginlegt að þykja vænt um íslenskuna og að vilja styrkja stöðu hennar. Það er okkur mikilvægt að hér á landi sé áfram hugsað á íslensku. Auk þess stöndum við nú frammi fyrir þeim vanda að brestir eru að myndast í grundvallarforsendu rökfærslu Þorsteins.

Þú last – þetta mál með unað og yl
yngdan af stofnunum hörðu.

Það er ekkert sjálfgefið að íslensk börn alist upp við ríkulegan forða íslenskra orða og hugsana. Þvert á móti sjáum við þess skýr merki að það þarf að tala meira við börn, syngja fyrir börn, hlusta meira á börn, lesa meira fyrir börn og skrifa meira fyrir börn. Of mörg börn telja íslenskuna of litla til að fanga þann heim sem þau vilja tilheyra.

Börn eiga ekki bara að vaxa inn í tungumál. Tungumál eiga að vaxa með þeim. Sá vöxtur er ekki einfaldur og ekki sjálfsagður. Fyrir honum þarf að hafa. Að honum þarf að hlúa.

Við þurfum að sýna í orðum og verki að enn eru orð til á íslensku um allt sem hugsað er á jörðu.

 

 

 

 

 

 


 

Tengt efni