is / en / dk

06. Desember 2018

Það er ótrúlegt til þess að hugsa en hinn stafræni veruleiki íslensks samfélags er aðeins örfárra áratuga gamall. Með gríðarlegum vexti sínum hefur hann smeygt sér inn á flest, ef ekki öll, svið mannlífsins. Ég held það megi segja, ýkjulaust, að hinn stafræni heimur sé fyrirferðarmikill hluti veruleika nær allra Íslendinga.

Það er freistandi að álita hinn stafræna heim á einhvern hátt óraunverulegan. Það er hins vegar rangt. Heimur fólks samanstendur af svo miklu meira en hlutum. Hinn stafræni heimur er undirorpinn sömu lögmálum og aðrir hlutar heimsins. Þar hafa orð og gjörðir vigt. Þar verður til orðspor. Þar verða til eignir. Hluti hæfileika okkar og sjálfsmyndar getur hæglega verið bundinn við hinn stafræna veruleika.

Hin stafræna þróun er grundvallaratriði í byggðaþróun (og þar með byggðaröskun) í íslensku samfélagi. Fyrir tveimur áratugum var varla til það þorp á íslandi sem ekki hafði pósthús, bankaútibú, sjoppu, vídeóleigu og sólbaðsstofu. Í dag eru pósthúsin, bankarnir og vídeóleigurnar horfnar (og með þeim fjöldi starfa). Sjoppurnar eru víða enn til því þær ná til líkamlegra þarfa. Sólvaðsstofurnar eru víðast hvar horfnar (því líkamlegar þarfir breytast líka).

Það er alvörumál fyrir íslenskt samfélag að bregðast við og aðlagast hinum stafræna veruleika. Það er auðvelt að fljóta sofandi að feigðarósi. Í þessu samhengi er sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af hinum dreifðu byggðum. Það er dálítið uggvænlegt að þær tegundir starfa sem spáð er að næst verði stafrænunni að bráð (t.d. störf við símsvörun og afgreiðslu) eru nákvæmlega þær tegundir sem stjórnvöld fluttu í verulegum mæli út á land til að bæta fyrir missi þeirra starfa sem horfið höfðu. 

Því má spyrja sig: Er það tímaskekkja að banna snjallsíma í skólum?

Ég held að svo þurfi ekki að vera. 

Fern rök gegn símabanni
Í fljótu bragði kem ég auga á fern rök gegn símabanni í skólum. 

Í fyrsta lagi má líta á slíkt bann sem ákveðið virðingarleysi við reynsluheim ungs fólks. Það er gott og vel að vilja auka samskipti ungmenna með símabindindi en það er ekki hægt að horfa fram hjá því að stór hluti notkunar síma hjá ungu fólki eru samskipti, bæði gegnum leiki og samskiptaforrit. Þá á persónuleiki ungs fólks sér stafrænar hliðar – og þær hliðar er engin sérstök ástæða til að afskrifa eða telja minna virði en aðrar.

Í öðru lagi hlýtur að koma til álita að börn og ungmenni vinna langan vinnudag og sú krafa hljómar skynsamlega að þau eigi rétt á einkalífi innan hans í samræmi við aldur og þroska. Það er ekkert óeðlilegt við þá hugmynd að ábyrgð á frímínútum eða námshléum sé að minnsta kosti á samábyrgð nemanda, foreldra og skóla. Ef við breytum dæminu svolítið og segðum að skóli tæki upp hugleiðslu eða jóga sem nemendur væru skyldaðir til að sinna í hádegishléum þá má alveg reikna með því að það þætti býsna djarft gagnvart sjálfsákvörðunarrétti nemenda. Hér skiptir líka máli að í mörgum skólum geta unglingar farið heim til sín í hádeginu eða lengri frímínútum. Sé það áfram frjálst má gera ráð fyrir því að margir nemendur nýti slík hlé til þess að nota síma sem bæði getur leitt til þess að þeir sleppi því að borða eða mæti seint í tíma.

Í þriðja lagi má velta því fyrir sér hversu raunhæft símabann er. Það eru ekki mörg ár síðan skólar reyndu að halda stafrænni tækni í skefjum með því að skerða aðgengi að þráðlausu neti í skólum. Á þeim tímapunkti var alls ekki öllum ljóst að sá tími rynni hratt upp að nemendur væru nægilega sítengdir til að geta á skilvirkan og ódýran hátt notað netið án tengingar við þráðlaust net. Næstum allir skólar sem banna síma hafa um leið innleitt spjaldtölvur. Þar sem sími er bannaður en spjaldtölva leyfð myndast verulegar áskoranir um notkun og stýringu tækjanna. Það er mjög líklegt að verulegir slagir séu framundan í slíkum skólum. Að gefinni reynslu á ég erfitt með að ímynda mér slíkt skólastarf án þess að það auki mjög álag á starfsfólk og takmarki eða hindri jafnvel að tæknin sé nýtt með nægilega markvissum hætti. Þá höfum við enn ekki nefnt þá staðreynd að snjalltækni er ekki lengur bundin við síma og er nú þegar komin í armbandsúr og mun dreifa meira úr sér á næstu misserum.

Fjórða röksemdin snýst um að kannski séu aðrar leiðir vænlegri. Það er margt sem réttlætir símabindindi eða -hófsemd. Það er líka margt sem mælir með því að við sinnum markvisst ýmsum þáttum sem hingað til hafa talist sjálfsagðir. Barn sem hefur aðgang að spjaldtölvu frá frumbernsku er ekki endilega líklegt til að velja sér leir eða kubba. Við höfum dæmi um sæmilega stálpuð börn sem varla kunna að halda á skærum eða blýanti. Útivera og hreyfing er alls ekki sjálfsögð í lífi allra. Máltökunni stafar hætta af skjáblæti foreldra og barna. Þetta eru enda sterkustu rökin fyrir símabanni. Það er, að hjálpa þurfi börnum að sjá heiminn fyrir skjáunum. Það er þó mikilvægt að skilja að bann er ekki endilega besta leiðin að því því marki og það getur aldrei orðið nóg. Auk banns þyrfti alltaf að koma til eitthvað meira. Einhver stuðningur við það sem efla á. Án slíks stuðnings gerir bannið ógagn. Með slíkum stuðningi (ef hann er markviss og góður) kann bannið að vera fullkomlega óþarft eða ekki neikvæðu aukaverkananna virði.

Rökvillan um að tækni bæti skólastarf
Að öllu þessu sögðu er þó mikilvægt að taka til skoðunar eina röksemd gegn símabanni sem líklega heldur engu vatni. Í upphafi þessa pistils tala ég um það hvernig veruleiki okkar sé í auknum máli að verða stafrænn. Störfum utan hins stafræna heims fækkar og eftir fáa áratugi verða líklega nánast engin störf til sem ekki eru að einhverju leyti nátengd tölvum og tækni. Í þessu samhengi hafa ýmsir bent á það að veruleikinn í skólastofunni þurfi að endurspegla veruleika venjulegs fólks. Símar séu eðlilegur hluti skólastarfs svo lengi sem þeir séu eðlilegur hluti hins víðara samfélags. 

Þetta er freistandi röksemdafærsla og upp að einhverju marki er þetta rétt. Þarna blundar þó ansi víðtæk og lúmsk ranghugmynd um eðli skólastarfs. Í fjölmörgum löndum hefur verið lögð áhersla á innleiðingu tækni í skólastarfi. Miklu hefur verið kostað til. Árangurinn hefur alls ekki alltaf verið í samræmi við það. Nýlega birti OECD skýrslu um þessi mál. Mig langar að vitna í inngang hennar þar sem rætt er um lítinn árangur sem virðist víða fylgja innleiðingu stafrænnar tækni í skólastarf: 

„Ein túlkun þessa gæti verið sú að það að byggja upp djúpan hugtakaskilning og gagnrýna hugsun krefjist mikilla samskipta milli kennara og nemenda. Önnur túlkun er sú að við séum enn ekki orðin nógu góð í þeirri kennslufræði sem hámarkar gagnsemi tækninnar; að það að bæta 21. aldar tækni við 20. aldar kennsluaðferðir þynni út áhrif kennslunnar. Ef nemendur nota snjallsíma til að klippa og líma fyrirframgefin svör við spurningum, er ólíklegt að það geri þá nokkuð snjallari. Ef nemendur eiga að verða snjallari en snjallsímar verðum við að ígrunda vel þá kennslufræði sem liggur til grundvallar kennslunni. Tæknin getur magnað upp frábæra kennslu en frábær tækni kemur ekki í stað slakrar kennslu.“

Þetta er kjarni málsins. Tæknin hefur vissulega breytt samfélaginu okkar en í flestum tilfellum hefur þeim breytingum verið stýrt af fyrirtækjunum sem framleiða tæki og forrit. Við erum flest vön að vera neytendur tækninnar. Sem slíkir erum við furðu áhrifalaus á það hvert tæknin ber okkur. Það að banna síma vegna þess að börn eigi í óheilbrigðu sambandi við tæknina er skrítinn undanfari þess að afhenda þeim spjaldtölvur. Það þarf að minnsta kosti að fara mjög varlega í sakirnar. Ef Ísland er dæmigert fyrir lönd í okkar heimshluta (sem það er) mun megnið af hinni stafrænu byltingu í skólakerfinu skila litlum eða engum árangri. 

Þess vegna er nánast öruggt að nærvera síma í skólum sé vita gagnslaus og jafnvel skaðleg ef fleira fylgir ekki með. Það að skólinn endurspegli á einhvern hátt samfélagið með snjallsímum í hverri lúku eru léleg rök.

Það er ekki hægt að bakka
Það er nefnilega hvorki nóg að fjarlægja snjalltæki né afhenda þau til að ná árangri. OECD bendir á að engin ástæða sé til að örvænta. Það sé ekki í boði að snúa til baka. Það kann að vera skilvirkara að kenna nemendum að sækja upplýsingar í kennslubækur en á netinu, á sama hátt og það er einfaldara að veiða fisk upp úr búri en hafinu. Fyrr eða seinna verður þó að gera nemendur sjálfbjarga og sjálfstæða í upplýsingaleit. Það er einfaldlega nauðsyn upplýstum borgurum að kunna að finna upplýsingar, meta gildi þeirra og áreiðanleika og miðla þeim áfram. 

Heilu lýðræðisríkin eru farin að nötra vegna þess hve frétt- og upplýsingalæsi er takmarkað. Tækni er eina hliðið að þeirri gríðarstóru upplýsingaveröld sem við búum nú í. 

Þá fylgja tækninni fjölmörg tækifæri til eflingar menntunar og sumt hefur gengið afar vel. Tækni má nota í samskiptum og samvinnu, við skapandi vinnu og rannsóknir. Með hjálp hennar má brjóta niður ótal múra og stíga ný skref í menntamálum.

En til að leysa möguleikana úr læðingi þarf, að mati yfirmanns menntamála hjá OECD, að koma fram með sannfærandi áætlanir um það hvernig styrkja eigi kennara til að gera þær breytingar á kennsluháttum sem nauðsynlegar eru. Það mun ekki gerast af sjálfu sér. Allar breytingar skapa óvissu. Hið einkennandi viðbragð skólasamfélagsins við óvissu er að reyna að framlengja óbreytt ástand. 

Er heimur barna að stækka eða minnka, eða bæði?
Það er í gegnum kennarana sem breytingar sem þessar eru líklegar til árangurs. Þegar barn lærir að hjóla er það yfirleitt vegna þess að það foreldri eða systkini hefur staðið við bakið á því og leitt það áfram. Þegar barnið hefur lært að hjóla má líta hina nýju hæfni a.m.k. tvennum augum: Í fyrsta lagi má segja að barnið hafi nú öðlast færi sem, hafi það aðgang að tækninni sem þarf, setji það í töluverða hættu og beri það um langveg frá foreldrinu sem afhenti því tæknina og hæfnina. Hins vegar má segja að barnið hafi nú öðlast hæfni sem vissulega geti aukið sjálfstæði þess og sé ekki alveg hættulaus en stækki um leið mjög heim þessa barns og auki möguleika þess á að njóta hans eitt og sér, með fjölskyldu sinni eða öðrum.

Hinn stafræni veruleiki er raunveruleiki. Staða okkar og hlutverk í veruleikanum er breytingum háð. Það er auðvelt að fá á tilfinninguna að innreið hins stafræna veruleika sé á kostnað annars veruleika, sem sumir telja raunverulegri eða æskilegri. Það er hinsvegar býsna villandi. Hinn stafræni heimur styrkir fólk í að njóta þeirra hluta sem heimurinn í heild hefur upp á að bjóða. 

Það er býsna skammsýnt að dæma sín eigin börn með hliðsjón af þeirri barnsveröld sem maður sjálfur upplifði. Reglulega birtast í íslenskum fjöl- og samfélagsmiðlum pistlar og greinar um það að börn séu löt því þau gangi ekki nærri því jafn mikið og foreldrarnir gerðu sem börn. Slíka pistla hefði verið hægt að skrifa í a.m.k. hundrað ár. Fyrir um áratug birtist í Bretlandi frétt um fjóra ættliði sömu fjölskyldunnar sem búið hafði á svipuðum slóðum í heila öld. Langafinn, George, mátti átta ára gamall ganga einn að veiðivatni í sex mílna fjarlægð. Afinn, Jack, sem var þrjátíu árum yngri mátti á sama aldri þvælast einn að skógi sem var í mílu fjarlægð. Dóttir Jacks mátti átta ára gömul fara að sundlauginni sem var um hálfa mílu að heiman og sonur hennar, sem nú var orðinn átta ára, mátti bara leika sér í götunni heima (um þrjú hundruð metra). 

Breska fréttin fjallaði um það að börn hefðu misst réttinn til að vafra. Þetta er áhugavert í ljósi þess að þetta er ákveðinn mælikvarði á hraða samfélagsbreytinga. Sem um leið sýnir okkur hve hraði samfélagsbreytinga hefur aukist ofsalega á allra síðustu árum. Samkvæmt útbreiddri sögu tók það símatæknina 75 ár að ná til fimmtíu milljóna notenda. Útvarpið náði sömu útbreiðslu á 38 árum og sjónvarpið 13. Það tók Internetið fjögur ár að ná slíkri útbreiðslu og Facebook aðeins helming þess tíma. Instagram þurfi 19 mánuði og Youtube 10. Þegar tölvuleikurinn Angry Birds kom út þurfti hann 35 daga til að ná til fimmtíu milljóna og Pokemon Go þurfti 19 daga. Öll met voru síðan slegin þegar 37 ára gömul kona í Texas tók myndband af sjálfri sér í hláturskasti með Chewbacca-grímu úr leikfangabúð. Myndbandið tók innan við sólarhring að ná til 50 milljón áhorfenda, gríman seldist upp í kjölfarið og konan varð heimsfræg!

Veruleikinn er að breytast ... hratt
Af þessu öllu er ljóst að veruleikinn er að breytast – og með síauknum hraða. Þeim breytingum fylgir óvissa og eðlilegt viðbragð við óvissu er tregða. 

Annað er hins vegar ekki í boði en að mæta þeirri áskorun sem hinn nýi veruleiki hefur reynst okkur, hvort sem um er að ræða í daglegu lífi, atvinnu eða námi.

Þau ykkar sem nota Twitter skulu endilega slá þar upp myllumerkinu #menntaspjall eða #12dagatwittter. Kennarar af öllum skólastigum og alls staðar af á landinu deila nú frásögnum af velheppnaðri nýtingu tækni í skólastarfi, segja frá fyrirmyndum og innblæstri og benda á öflugt skólastarf hér á landi og erlendis. Sif Sindradóttir sem er ungur umsjónarkennari í Háaleitisskóla kom verkefninu af stað eftir að hafa séð erlenda fyrirmynd.

Svo við snúum aftur til upphafsins. Símabann í skólum er að mörgu leyti eðlilegt viðbragð við örum breytingum á veruleika okkar. Það getur verið vandmeðfarið og skapað ný vandamál. Til að það heppnist vel er mikilvægt að fylgja því eftir með uppbyggilegum hætti. Sem er raunar nákvæmlega hið sama og gildir um innleiðingu tækni í skólastarf. Mikið af innleiðingunni skilar litlum eða engum árangri. Lausnin á því er að efla kennarann í starfi. Innleiðing tækni á þá fyrst möguleika á að efla skólastarf þegar nægilega góð tæki með vel hönnuðum forritum lenda í höndum frábærra kennara sem njóta nægs stuðnings frá umhverfi sínu, yfirboðurum og kollegum.

Einir og sér bjarga símar engu. Eitt og sér bætir bann ekki neitt.

 

 

 

 

Tengt efni