is / en / dk

07. Júní 2019

Fyrir fimm árum birtist frétt í íslenskum vefmiðli um að sífellt fleiri kennarar yrðu fyrir ofbeldi í störfum sínum. Þar var meðal annars vísað í sænska könnun sem benti til þess að hér um bil tíundi hver kennari yrði fyrir ofbeldi í starfi á hverju ári. Um þetta leyti var töluverð umfjöllun um þessi mál í löndunum í kringum okkur. Sú umfjöllun hefur á síðustu árum dýpkað töluvert enda benda ítrekaðar kannanir erlendis til þess að ofbeldið hafi færst í aukana.

Umræða um þessi mál er flókin og mikilvægt er að hún einkennist af fagmennsku, heiðarleika og sanngirni. Við þurfum að forðast alhæfingar og óábyrgar ályktanir. Það kann að vera afar freistandi að nota umræðu sem þessa í því skyni að undirbyggja tilfallandi sjónarmið. Þá er ýmislegt sem bendir til þess að hér á landi eigi enn eftir að búa til nægilega öflugan umræðuvettvang svo hægt sé að ræða mál sem þessi af því viti sem þau verðskulda.

Nokkrar athugasemdir voru gerðar við íslensku fréttina á sínum tíma. Þær voru, frómt frá sagt, ömurlegar. Þær afhjúpuðu það versta í íslenskri umræðumenningu. Fréttin varð nokkrum átylla til að fella sleggjudóma um versnandi uppeldi og yfirgang ungmenna sem réttast væri að uppræta með eftirlitsmyndavélum og líkamlegu ofbeldi gegn börnum. 

Í öllum krefjandi störfum með fólki er ofbeldi raunverulegt vandamál. Þetta á við um kennslu, hjúkrun og fjölda annarra starfa. Allir þátttakendur þess lærdómssamfélags sem tilheyrir skólum geta orðið fyrir ofbeldi. Allir þátttakendur þess geta beitt ofbeldi. Allir þátttakendur þess bera ábyrgð á að uppræta ofbeldið og fyrirbyggja það. Þar bera þeir sérstaklega ríkar skyldur sem stöðu sinnar vegna eiga að gæta þeirra sem ekki geta varið sig sjálfir.

Samkvæmt nýjum tölum UNICEF er um fimmtungur barna á Íslandi beittur ofbeldi. Í einhverjum tilfellum á það ofbeldi sér stað innan skólanna en það getur líka átt sér stað utan þeirra. Hvar sem ofbeldið á sér stað skiptir staða skólanna og starfsfólks þeirra hér sérstöku máli. Grunnskólinn er eina skylduskólastigið á Íslandi og þar með eini vettvangurinn sem tryggir snertipunkt við öll börn. Barn sem beitt er ofbeldi, eða býr við óviðunandi aðstæður, á að geta treyst því að skólinn veiti skjól.

Lögin eru skýr að þessu leyti. Það hvílir engin rannsóknarskylda á starfsfólki skóla. Við vitum að mörg hundruð börn úr hverjum árgangi verða fyrir ofbeldi. Þess vegna ber að tilkynna allan grun um að barn búi við ofbeldi eða óheilnæmar aðstæður. Það er hluti hinnar samfélagslegu samábyrgðar. Þess vegna skiptir öllu máli að menntun og starfsþróun kennara sé með þeim hætti að þeir þekki og skilji einkenni ofbeldis og haldi börnunum ævinlega í fókus. Til marks um það hve þessi mál eru flókin kann það ofbeldi sem kennari verður fyrir einmitt að vera vísbending um harðræði sem barnið sjálft er beitt. Við slíkar aðstæður getur hvorki kennari né skólasamfélagið leyft sér að einbeita sér að þjáningum kennarans eingöngu.

Að því sögðu getur það aldrei orðið starfsskylda fólks að þola ofbeldi. Allt ofbeldi þarf að taka alvarlega. Það þarf líka að vinna faglega og kerfisbundið að því að uppræta það. Í nýlegri rannsókn á vegum landlæknisembættisins kemur í ljós að geðrækt og markviss kennsla í samskiptum er nær eingöngu bundin við leikskólastigið hér á landi. Til samanburðar má nefna að víða um heim, t.d. í sumum fylkjum Kanada, hefur náðst ótrúlegur árangur þar sem geðræktarkennsla er tekin mun fastari tökum en hefð er fyrir. Þroska barna fylgja miklar áskoranir og áskoranir í samskiptum og sjálfsstjórn eru síst minni eftir því sem börnin eldast.

Ofbeldi í lærdómssamfélaginu er ekki aðeins siðferðilegt viðfangsefni heldur einnig faglegt. Ég veit að Vinnuumhverfisnefnd KÍ hefur hug á því að reyna að efla þá umræðu og gefa henni þá dýpt sem nauðsynleg er. Þar er enn mjög langt í land. Ég vona líka að fjölmiðlar verði áhugasamir um að halda á lofti vandaðri umfjöllun og spyrji gagnrýninna spurninga. 

Það þarf ekki að koma á óvart að samfélag sem bregst við fréttum af ofbeldi með uppástungum um frekara ofbeldi – sé í vanda með ofbeldi. Slíkt samfélag þarf að taka sig taki.
 

Ragnar Þór Pétursson, formaður KÍ.


 

Tengt efni