is / en / dk

12. Nóvember 2014

Fjölmargir hafa síðustu daga lýst yfir stuðningi við baráttu félagsmanna FT sem nú eru að hefja sína þriðju viku í verkfalli. Meðal þeirra er Firðrika Benónýsdóttir, sem segir eftirfarandi í leiðara í Fréttablaðinu í dag:

„Allt okkar besta tónlistarfólk er sprengmenntað í tónlist, auðvitað. Það er nefnilega ekki hægt að byggja listsköpun á loftinu einu, hún krefst þekkingar, tækni og þrotlausrar ástundunar... Viljum við viðhalda hér gróskumiklu og fjölbreyttu tónlistarlífi og koma tónlistarmönnum á heimsmælikvarða á legg þarf að byrja á byrjuninni. Og sú byrjun liggur hjá tónlistarkennurum, ekki hótelrekendum.“
Hægt er að lesa leiðarann í heild hér:

Félag tónlistarskólakennara birti myndband í gær, sem vakið hefur mikla athygli. Þar lýsir fjöldi landsþekktra íslendinga stuðningi við kröfur félagsins í yfirstandandi kjarabaráttu. Meðal þeirra eru Ásgeir Grausti, tónlistarmaður, Brynhildur Guðjónsdóttir, leikkona, GuðrúnEva Mínervudóttir, rithöfundur og Jakbob Frímann Magnússon, tónlistarmaður. Myndbandið má sjá hér:

Egill Helgason, fjölmiðlamaður, segist í grein sem hann birti í gær farinn að óttast að verkfall tónlistarkennara standi fram að jólum. Hann veltir því einnig fyrir sér hvort borgarstjórinn í Reykjavík standi í veg fyrir samningum. 

Á Facebook hefur verið stofnuð síða til stuðnings tónlistarkennurum sem ber einfaldlega nafnið „Við styðjum tónlistarkennara“. Á sjötta þúsund manns hafa líkað við síðuna.

Fjölmargir hafa síðan sent stuðningsyfirlýsingar og lýst yfir áhyggjum af stöðu mála. Meðal þeirra eru: (ath. að listinn er ekki tæmandi)

Stjórn Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SMFSÍ) lýsir yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu tónlistarkennara.

Það mikla uppbyggingarstarf og gróska sem hefur átt sér stað í tónlistarlífinu hér á landi undanfarna áratugi, á rætur sínar að rekja til tónlistarkennara og tónlistarskóla landsins. Það mikilvæga starf sem þar fer fram virðist nú í hættu

SMFSÍ lýsir yfir þungum áhyggjum af verkfalli tónlistarkennara, sem staðið hefur yfir á þriðju viku og skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga að semja við tónlistarkennara nú þegar.

Stjórn samtaka tónlistarskólastjóra skorar á Samtök Íslenskra sveitarfélaga að semja við Félag tónlistarkennara hið fyrsta!

Stjórn STS telur óhæft að sveitarfélög á Íslandi geri lítið úr námi nemenda skólanna og faglegu starfi kennara þeirra með því að meta álag og mikilvægi starfs tónlistarkennara skör neðar en sambærileg störf grunn- og leikskólakennara. Slíkt er ekki í samræmi við stefnu mennta- og menningarmálaráðherra sem m.a. lét hafa eftir sér á málþingi um list- og verkgreinakennslu og sköpun í skólastarfi á Grand Hótel Reykjavík fyrr á þessu ári að hann legði að jöfnu þá þekkingu sem hann öðlaðist í tónlistarskólum og þá sem hann öðlaðist í grunn- og menntaskólum.

Stjórn STS hvertur samninganefnd sveitarfélaga ennfremur til að kynna sér mismunandi starfsaðstæður í tónlistarskólum og alment verklag í skólum á landinu áður en óraunhæfar hugmyndir um starfstíma og vinnutímaálag eru lagðar fram.

Stuðningsyfirlýsing

Kennarafélag Menntaskólans við Hamrahlíð sendir Félagi tónlistarskólakennara stuðnings- og baráttukveðjur í verkfalli. KFMH skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga að ganga að eðlilegum launakröfum tónlistarskólakennara og tryggja að þeir njóti sambærilegra kjara við aðrar kennarastéttir.

Fræðsluráðið lýsti fyrr í mánuðinum, í eftirfarandi bókun, áhyggjum af stöðu mála:
„Tekið er undir mikilvægi þess að tónlistarkennarar njóti kjara í samræmi við menntun þeirra og hliðstæðar starfsstéttir. Áhersla sé lögð á að í samningum um tónlistarkennara verði leitast við að mismunandi sérstaða, þarfir og kennsluhættir tónlistarnáms sveitarfélaganna fái notið sín. 

Ályktun í tengslum við kjarabaráttu tónlistarkennara:

Á starfsmannafundi Öxarfjarðarskóla þann 3. nóvember 2014 var eftirfarandi ályktun bókuð:

Starfsmenn Öxarfjarðarskóla lýsa yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu Félags tónlistarkennara FT og skora á stjórnvöld að ganga þegar í stað til samninga við tónlistarkennara. Það er ólíðandi að þeir sitji ekki við sama borð og aðrir félagsmenn innan KÍ sem hafa nú þegar fengið launaleiðréttingu.

Við undirrituð kennarar við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar viljum koma eftirfarandi upp-lýsingum og áskorun á framfæri.

  • Miðvikudaginn 12. nóvember mun verkfall kennarar í Félagi tónlistarkennara hafa staðið í þrjár vikur.
  • Nú þegar þetta bréf er skrifað hafa samningafundir verið árangurslausir.

Hvað veldur?

Hvers vegna er ekki hægt að semja við okkur?

Erum við svona óbilgjörn?

Tónlistarskólar starfa á mismunandi grundvelli þ.e. einkaskólar, sjálfseignarstofnanir og skólar í eigu sveitarfélaganna. Reykjavíkurborg á aðeins einn lítinn skóla sem taka þurfti í fóstur þegar Kjalarnes sameinaðist Reykjavík. Aðrir skóla þar eru einkaskólar eða sjálfseignarstofnanir sem Reykjavíkurborg gerir þjónustusamninga við. Af því leiðir að höfuðborgin getur ekki státað af tónlistarskólunum sínum líkt og aðrir.

Samninganefnd sveitarfélaganna vill að skólaár tónlistarskólanna verði stytt og vikuleg kennsluskylda aukin þannig að vinnustundir tónlistarkennarans fari jafnvel í 55 klukkustundir á viku! Einnig viðurkennir hún ekki að vinna kennara sé meiri eftir því sem nemendum fjölgar. Við, kennarar í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar höfum alltaf litið á okkur sem hluta af skóla-samfélagi bæjarins. Það er því með ólíkindum að stefna Reykjavíkurborgar varðandi tónlistarfræðslu muni hugsanlega ráða því hvernig bærinn okkar skuli haga sinni skólastefnu. Reykjavíkurborg heldur samningnum í gíslingu!

Í starfsmanna– og jafnréttisstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 24. mars 2002 segir í 31. grein:

Launakjör skulu vera með þeim hætti að þau laði að hæft starfsfólk og haldi því í starfi. Starfsmenn skulu njóta svipaðra kjara og bjóðast í sambærilegum störfum annars staðar að teknu tilliti til kjara sem tíðkast fyrir sambærileg störf hjá sveitarfélögum og stofnunum sem reka ámóta starfsemi.

Áskorun:

Við viljum skora á Bæjarstjórn Hafnarfjarðar að huga að starfsaðferðum Samninganefndar sveitarfélaganna sem greinilega er eingöngu með bakland í Reykjavík og fer gegn Starfsmanna- og jafnréttisstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Eftirfarandi frétt var birt á vef Bæjarins besta fyrr í vikunni.

Kennarar við Menntaskólann á Ísafirði lýsa yfir eindregnum stuðningi við kjarabaráttu Félags tónlistarskólakennara og skora á sveitarfélögin að semja strax við þá um launakjör til jafns við aðra kennara. „Í aðalnámskrá frá árinu 2011 er lögð áhersla á sköpun sem einn af grunnþáttum menntunar. Þar gegnir tónlist og tónlistarnám lykilhlutverki, auk þess sem tónlistarnám styður á margvíslegan hátt við annað nám og skólastarf. Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem að skara fram úr í tónlistarnámi eru einnig í fremstu röð í almennu námi.

Á meðan að kjör tónlistarkennara eru ekki sambærileg við kjör annarra kennara, er hætt við því að margir hæfir einstaklingar, hverfi til annarra starfa. Það bitnar á nemendum í skólunum; menntun íslenskra barna mun verða einhæfari og sköpun í skólastarfi bíður hnekki.

Með því að draga á langinn samninga við þennan hóp, sýna viðsemjendur tónlistarnámi, sem og öllu öðru námi, lítilsvirðingu,“ segir í ályktun frá stjórn kennarafélags MÍ.

Starfsfólk við Grunnskólann á Ísafirði skorar einnig á sveitarstjórnir landsins að ganga strax til samninga við tónlistarkennara og að laun þeirra verði sambærileg launum annarra kennara í Kennarasambandi Íslands. „Tónlist er mikilvægur þáttur í menntun barna og rannsóknir sýna það að tónlistarnám hefur jákvæð áhrif á námsárangur,“ segir í ályktun frá starfsfólki GÍ.

Fréttina má sjá hér: 

Kennarar Tónlistarskóla Árnesinga lýsa yfir eindregnum stuðningi við samninganefnd Félags tónlistarskólakennara í þeim erfiðu kjaraviðræðum sem standa yfir.
Mikilvægi þess að standa vörð um starfsumhverfi tónlistarskólanna, launakjör tónlistarkennaranna og möguleika nemenda til tónlistarnáms, hefur aldri verið brýnna.
Stöndum sterk saman.
Áfram FT!

 

Við starfsfólk Grunnskóla Reyðarfjarðar lýsum yfir stuðningi við kjarabaráttu tónlistar-skólakennara og þær aðgerðir sem þeir standa í til að fá leiðréttingu á kjörum sínum.

Gróskumikið starf hefur verið unnið í tónlistarskólum landsins og má ekki setja það góða starf í uppnám. Verði kjör tónlistarskólakennara ekki leiðrétt er hætt við að við missum frábæra kennara í önnur störf og sá árangur sem náðst hefur í tónlistarskólum undafarin ár skili ekki sama auði út í samfélagið og verið hefur.

Við starfsfólk Grunnskóla Reyðarfjarðar lýsum yfir stuðningi við réttmæta baráttu Félags tónlistarskólakennara þar sem engin rök eru fyrir því að kjör þeirra séu með öðrum hætti en annarra kennarastétta. Við hörmum þá stöðu sem komin er upp í samningaviðræðum og hvetjum Samband íslenskra sveitarfélaga til að bregðast strax við og ganga til samninga við tónlistarskólakennara.

Fyrir hönd starfsfólks Grunnskóla Reyðarfjarðar

Ásta Ásgeirsdóttir
Skólastjóri

Eftirfarandi ályktun var samþykkt einróma á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 6. nóv. síðastliðinn.

„Hvatning bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar til samningsaðila vegna verkfalls Félags tónlistarkennara (FT). Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir yfir áhyggjum af stöðu kjarasamningsviðræðna við tón-listarkennara og áhrifum þess á tónlistarnám í bæjarfélaginu. Bæjarstjórn hefur miklar áhyggjur af, að brottfall verði úr nemendahópum ef þeir fara á mis við það stöðuga að-hald og leiðsögn sem sérfræðingur í listkennslu getur veitt. Einnig er ófyrirséð hver áhrif langvarandi verkfalls verða, t.d. m.t.t. hugsanlegs brottfalls nemenda.

Bæjarstjórn hvetur samningsaðila til að ræða saman og leita leiða til að ná samningum svo núverandi verkfall valdi sem minnstum skaða fyrir nemendur og hið góða starf sem unnið er í tónlistarskólum í Ísafjarðarbæ".

Kennarafélag Verkmenntaskóla Austurlands lýsir yfir stuðningi við málstað tónlistarkennara. Tónlist er mikilvægur þáttur í þroskaferli barna og á síðari árum hefur gildi hennar fyrir efnahag þjóðarinnar vaxið. Framlag tónlistarinnar til landsframleiðslunnar er það sama og framlag landbúnaðarins. Þarna gegna tónlistarskólar lykilhlutverki.

Tónlistarkennarar hafa smám saman verið að dragast aftur úr í launum miðað við stéttir með sambærilega menntun. Verði kjör þeirra ekki leiðrétt er hætt við að frábært hæfileikafólk flýi stéttina og tónlistarlífið verði smám saman dauflegra.

Við skorum á sveitarfélögin að ganga til samninga við tónlistarkennara um sömu laun og aðrir leik- og grunnskólakennarar hafa.

Stjórn Heiltóns- hollvinasamtaka Tónlistarskóla Húsavíkur hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Heiltónn styður heilshugar kjarabaráttur tónlistarkennara. Allir kennarar hafa miklu ábyrgðarhlutverki að gegna. Tónlistarkennsla er kennsla í listgrein sem elur af sér menntaða þjóð í tónlist. Samfélag okkar væri lítils virðir án lista, þar með talið tónlistar. Við skorum á sveitarfélögin að ganga til samninga við tónlistarkennara um sömu laun og aðrir leik- og grunnskólakennarar.

„Verkfall er neyðarúrræði í kjarabaráttu sem bitnar hvað verst á þeim sem síst skyldi, í þessu tilfelli ungum tónlistarnemendum. Tónlistarskólakerfi Íslendinga hefur vakið athygli og aðdáun um allan heim hvort sem um er að ræða vegna gæða, útbreiðslu þess eða víðæks hlutverks á sviði lista, mennta-, menningar- og samfélagsmála. Það tekur aðeins örskamma stund að brjóta niður margra áratuga uppbyggingarstarf, stöndum vörð um menningu á Íslandi. SÍM skorar á viðsemjendur tónlistarkennara að leggja allt kapp á að samningar takist sem allra fyrst".

Tengt efni