is / en / dk

13. Nóvember 2014

Kennarasamband Íslands efnir til samstöðufundar til stuðnings tónlistarkennurum í verkfalli á þriðjudag í næstu viku. Fundurinn verður haldinn í Silfurbergi í Hörpu og hefst klukkan 17. Flutt verða ávörp og tónlistaratriði en dagskráin verður auglýst innan skamms. 

Fullur stuðningur er innan Kennarasambandsins við baráttu tónlistarkennara fyrir leiðréttingu á sínum kjörum. Tónlistarskólakennarar í FT hafa nú verið í verkfalli í rúmar þrjár vikur og sátt er því miður ekki í sjónmáli.

„Kennarasambandið stendur fast að baki tónlistarkennurum í kjarabaráttunni sem þeir heyja nú. Við viljum sýna stuðning okkar í verki með því að efna til samstöðufundar allra félagsmanna KÍ. Ég hvet félagsmenn til að mæta til fundarins,“ segir Þórður Hjaltested, formaður Kennarasambands Íslands. 

Félag tónlistarskólakennara er eitt sjö aðildarfélaga KÍ og segir Þórður það ofureðlilegt að tónlistarkennarar miði kjör sín við aðra kennara sambandsins í sinni kjarabaráttu. „Við skorum á samninganefnd sveitarfélaganna að ganga til samninga við tónlistarkennara og leiðrétta sanngjarnar kröfur þeirra um bætt kjör," segir Þórður.  

Áfram FT

„Tónlistarlíf þjóðarinnar er til marks um menningu okkar og menntun og við stærum okkur af því að það sé fjölbreytt og ríkulegt. Því er það undrunarefni að ekki sé skilningur fyrir framlagi þeirra sem skapa þessi verðmæti með tónlistarskólakennslu,“ segir Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla. Hún segir engin haldbær rök fyrir því að tónlistarkennarar eigi að hafa verri kjör en aðrir kennarar sem ekki séu ofaldir af launum sínum. „Sem neytandi og njótandi afraksturs félaga okkar í tónlistarskólum landsins og sem samherji þeirra innan Kennarasambands Íslands skora ég á alla aðila í kjaradeilunni að leysa strax úr þeim hnútum sem standa í vegi fyrir lausn hennar. Áfram FT,“ segir Ingibjörg.

Kennarasamband Íslands hvetur alla félagsmenn sína til að sýna tónlistarkennurum stuðning og mæta til samstöðufundarinarins í Silfurbergi á þriðjudag. Stofnaður hefur verið „viðburður“ á Facebook þar sem hægt er að kynna sér dagskrá og málefni fundarins.

Tengt efni