is / en / dk

21. Nóvember 2014

Á fjórða tug tónlistarkennara komu saman við aðalstöðvar Sambands íslenskra sveitarfélaga í Borgartúni um hádegisbil til þess að mótmæla því að ekki hafa tekist samningar við sambandið. Fundarmenn hófu upp raust sína fyrir utan húsið og sungu þrettán erindi sálmsins „Allt eins og blómstrið eina“ á meðan stjórnarmenn komu í hús. 

Að loknum söng fóru tónlistarkennarar upp á fimmtu hæð og hittu þar fyrir formann Sambandsins, Halldór Halldórsson.

Halldóra Aradóttir flutti stutt ávarp og hvatti formanninn til að gera sitt svo liðka mætti fyrir samningsgerðinni. Síðan var lesin upp ályktun þar sem þess var krafist að samninganefnd Sambandsins gengi þegar í stað til samningagerðar. 

Verkfall tónlistarkennara hefur nú staðið í rúmar fjórar vikur. Samningafundi lauk í Karphúsinu um hádegið og er boðað til næsta fundar á mánudag. Því er ljóst að verkfallið dregst enn á langinn. 

Ályktun mótmælastöðunnar hljóðar svo: 

Mótmælafundur tónlistarskólakennara í Borgartúni skorar á stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að beita sér nú þegar í kjaradeilu sveitarfélaga og FT.

Mótmælafundurinn krefst þess að kjör tónlistarkennara verði leiðrétt og þau færð til samræmis við kjör annarra kennarahópa innan Kennarasambands Íslands. Við það verður ekki unað að störf tónlistarkennara séu ekki metin til jafns við störf kennara á öðrum skólastigum.

Mótmælafundurinn krefst þess að sveitarfélögin í landinu standi við markmið sín um jafnrétti í launasetningu og gangi þegar til samninga við Félag tónlistarskólakennara.

Nú er nóg komið! Samninga strax!

 

 

 

 

Tengt efni