is / en / dk

16. Desember 2014

Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskólakennara fagna því að Samband íslenskra sveitarfélaga skuli hvetja sveitarfélög til að leita leiða svo fjölga megi leikskólakennurum í leikskólum landsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem var samþykkt á sameiginlegum fundi Skólamálanefndar og Vísindasjóðs FL og FSL þann 11. desember síðastliðinn.

Ályktun fundarins hljóðar svo: „Sameiginlegur fundur stjórna, skólamálanefndar og vísindasjóðs Félags leikskólakennara og Félags stjórnenda leikskóla haldinn þann 11. desember 2014 fagnar því að Samband íslenskra sveitarfélaga veki athygli á því að fjölga þurfi leikskólakennurum og hvetji sveitarfélög til að leita leiða til þess. Félögin taka undir hvatningabréfið og vona að sveitarfélög landsins fari í markvissar aðgerðir sem leiða til fjölgunar leikskólakennara.“

Skilar sér í auknum gæðum
Tilefni ályktunarinnar er hvatningarbréf sem Samband íslenskra sveitarfélaga sendi framkvæmdastjórum sveitarfélaganna í byrjun mánaðarins. „Það er staðreynd að einungis þriðjungur starfsfólks á leikskólum hefur leikskólakennaramenntun og miðað við aðsókn í leikskólakennaranám undanfarin ár mun ekki takast að uppfylla lagaskyldur stjórnvalda, um að 2/3 hluti starfsmanna leikskóla séu með leikskólakennaramenntun, á þessari öld,“ segir í upphafsorðum bréfsins.

Í bréfinu er jafnframt farið yfir störf aðgerðahóps sem var skipaður á vegum menntamálaráðherra árið 2012 í þeim tilgangi að fjölga þeim sem sækja um leikskólakennaranám. Þá er fjallað um nýtt diplómanám í leikskólafræðum sem er í boði hjá HA og HÍ.

Samband íslenskra sveitarfélaga lítur svo að mikilvægt sé að efla leikskólastigið og það sé hagsmunamál fyrir sveitarfélög að hafa vel menntaða starfsmenn í leikskólum. „Leikskólastigið er eina skólastigið á Íslandi sem líður fyrir skort á kennurum en úr því má bæta meðal annars með því að nýta fjölbreyttan bakgrunn leiðbeinenda og skapa þeim aukna möguleika til að mennta sig til starfa á leikskólum,“ segir í bréfi Sambandsins.

Sveitarfélög eru hvött til að gera sérstakt átak í að hvetja starfsfólk í leikskólum til að afla sér viðbótarmenntunar og auka svigrúm leikskólastjóra til hvatningar og stuðnings við að starfsfólki afli sér menntunar. „Það mun án efa skila sér í auknum gæðum í skólastarfinu og fagmennsku og um leið styrkja leikskóla sem áhugaverða vinnustaði sem ætti að vera kappsmál sveitarfélaga.“

Dagur leikskólans
Orðsporið, viðurkenning sem veitt er á Degi leikskólans 6. febrúar ár hvert, verður að þessu sinni veitt sveitarfélagi eða rekstraraðila sem þykir skara fram úr við að hækka menntunarstig starfsmanna leikskóla og eða fjölga leikskólakennurum í sínum leikskóla/leikskólum. Samstarfshóp um Dag leikskólans skipa fulltrúar Félag stjórnenda leikskóla, Félag leikskólakennara, Samband íslenskra sveitarfélaga, menntamálaráðuneytið og Heimili og skóli – landssamtök foreldra.

Tengt efni