is / en / dk

22. október 2015

Stjórnendur í grunnskólum á Akureyri hafa sent áskorun til bæjarráðs Akureyrarbæjar um að beita sér í samningaviðræðum Skólastjórafélags Íslands (SÍ) og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS). Áskorunin er svohljóðandi:

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir samningaviðræður SÍ og SNS vegna kjarasamninga skólastjórnenda en samningur þessara aðila rann út 31. maí 2015. Skólastjórar grunnskólanna á Akureyri eru afar ósáttir við stöðu samningamálanna enda hafa þau dregist mjög á langinn og síðustu misseri í raun verið í bið. Skólastjórnendur grunnskóla hafa verið langt fyrir neðan almenna stjórnendur í launum og starfsumhverfið hefur breyst verulega á síðasta áratug hvað varðar stjórnun, skipulag og faglega forystu. Ástæður þeirra breytinga eru m.a.:

 • breytt lagaumhverfi grunnskólans
 • innleiðing laga og reglugerða sem m.a. tengjast íslenskri málstefnu, jafnréttisstefnu og fleiri stefnumarkandi málefnum
 • áhrif stjórnsýslu- og upplýsingalaga, m.a. á mannaráðningar
 • ný Aðalnámskrá grunnskóla og innleiðing hennar
 • skóli án aðgreiningar
 • aukin samvinna við alla hagsmunaaðila sem koma að skólastarfinu
 • auknar kröfur sveitarfélaga varðandi stjórnun og rekstur skóla
 • samrekstur og sameiningar skóla
 • starfsmannahald og starfsþróun
 • kröfur um bætt skipulag vinnuumhverfis
 • meiri kröfur til sýnilegrar og sannanlegrar skilvirkni á öllum sviðum í kjölfar aukinna mælinga og mats á skólastarfi, t.d. í samræmdum prófum, PISA, í skólapúlsinum o.s.frv.
 • aukið samstarf við leik- og framhaldsskóla
 • fjölgun rannsókna háskólanema og fleiri aðila
 • ábyrgð á öllum rekstri skólans bæði faglegum og fjárhagslegum
 • kröfur frá foreldrum vegna félags- og tilfinningalegra vandamála nemenda sem hefur fjölgað og orðið flóknari
 • nýjar kröfur og margra vikna starf við vinnumat í nýjum kjarasamningi FG og SNS.

Þessar breytingar á starfsumhverfi og umsvifum starfsins hafa ekki verið virtar til launa. Margir kennarar eru komnir upp fyrir deildarstjóra og aðstoðarskólastjóra í launum og margir stjórnendur sjá það nú sem leið til bættra kjara að hætta í stjórnun og ráða sig í frekar til kennslu.

Við erum afar ósátt við þessa stöðu og skorum á bæjarráð Akureyrarbæjar að gefa skýr skilaboð til SNS um að beita sér fyrir því að stjórnendur fái að minnsta kosti sambærilega hækkun á launum og kennarar hafa fengið þannig að enginn stjórnandi verði með lægri laun en kennari.

Stjórnendur í grunnskólum Akureyrarbæjar
 

Tengt efni