is / en / dk

29. október 2015
„Þörfin fyrir að kenna fleiri tungumál hefur óneitanlega minnt á sig á síðustu misserum. Háskóli Íslands, hefur nýlega hafið kennslu m.a. í japönsku og pólsku auk þess sem þörfin fyrir kínversku og arabískukennslu verður áberandi," segir í kynningu STÍL.

STÍL, samtök tungumálakennara á Íslandi, fagna 30 ára afmæli um þessar mundir. Í tilefni tímamótanna verður haldin afmælishátíð í tengslum við ör-ráðstefnu næstkomandi laugardag, 31. október. Frumkvöðlanir flytja minningabrot og þá mun Helena von Schantz, formaður tungumálakennara í Svíþjóð, halda fyrirlestur undir yfirskriftinni Multilingualism – rewards and benefits beyond the export and tourism industries. Dagskránni verður tvinnað saman við tónlistaratriði sem ætlað er að minna á gildi tungumálakennslu á Íslandi í dag og alla daga. 

STÍL, samtök tungumálakennara á Íslandi, voru formlega stofnuð þann 17. október 1985. Að stofnuninni stóðu Félag dönskukennara, Félag enskukennara, Félag frönskukennara og Félag þýzkukennara. Í dag eru aðildarfélögin auk upptaldra félaga, Félag spænskukennara, Félag norsku- og sænskukennara, Félag kennara sem kenna íslensku sem annað mál og Félag ítölskukennara á Íslandi. Meðlimir í STÍL eru um 900 talsins.

Hlutverk samtakana er umfram allt samvinna um námskeið og ráðstefnur, m.a. í samvinnu við FIPLV (Alþjóða samtök tungumálakennara), Samtök tungumálakennara á Norðurlöndunum, Eystrasaltinu og UNESCO.

„Íslensk menning hefur frá örófi alda auðgast í samskiptum sínum við önnur tungumál og menningarheima og á tímum hnattvæðingar hefur það ekkert breyst. Þörfin fyrir að kenna fleiri tungumál hefur óneitanlega minnt á sig á síðustu misserum. Háskóli Íslands, hefur nýlega hafið kennslu m.a. í japönsku og pólsku auk þess sem þörfin fyrir kínversku og arabískukennslu verður áberandi. Hvarvetna í atvinnulífinu og í daglega lífinu, þurfum við á tungumálum að halda. Íslenska er lítið málsvæði og er tungumálanám því okkur lífsnauðsyn í alþjóðlegum samskiptum en einnig til þess að styrkja og styðja við móðurmál okkar," segir í kynningarbréfi frá STÍL. 

Dagskrá afmælishátíðarinnar

Hátíðarhöldin fara fram  í Litla sal á Háskólatorgi HÍ laugardaginn 31. október frá klukkan 14 til 17. 

 

Tengt efni