is / en / dk

03. Nóvember 2015

Kennarafélag Menntaskólans á Egilsstöðum skorar á ráðuneyti menntamála að hverfa tafarlaust frá stefnu sinni varðandi fjöldatakmarkanir nemenda við skólann. Þetta kemur fram í ályktun félagsins sem samþykkt var á dögunum. Ályktunin er eftirfarandi:

"Kennarafélag Menntaskólans á Egilsstöðum fordæmir takmarkanir á nemendafjölda við skólann. Þessar takmarkanir gera ekki ráð fyrir fjarnemum sem hefur fjölgað ár frá ári og eflt skólastarfið til muna. Í haust voru fjarnemar skráðir í um 550 áfanga við skólann sem jafngildir 46 ársnemendum. Umsóknir bárust um fjarnám í um 640 áföngum frá 350 einstaklingum og var ekki hægt að verða við öllum umsóknum þar sem skólanum ber að halda sig innan heimilda fjárlaga.

Fjöldi fjarnema hefur gert skólanum kleift að bjóða upp á fjölbreyttara nám þar sem fjarnemar bætast í áfanga sem væru annars ekki kenndir vegna fámennis. Fækkun áfanga leiðir til minna námsframboðs og uppsagna kennara. Það þýðir að háskólamenntuðu fólki fækkar á svæðinu og að sífellt færri nemendur fá nám við sitt hæfi í heimabyggð. Þessir nemendur verða þá að leita annað eða hætta námi.

Lengi hefur verið boðið upp á fjarnám við Menntaskólann á Egilsstöðum og hefur það verið í sífelldri þróun. Skipulagsbreytingar voru gerðar fyrir nokkru þar sem hverri önn var skipt í tvær spannir. Nýja skipulagið hefur spurst út og mælst mjög vel fyrir hjá þeim sem stunda fjarnám.

Þær takmarkanir á nemendafjölda ME sem fram koma í fjárlögum eru því illa ígrundaðar og munu koma harkalega niður á þjónustu í Menntaskólanum á Egilsstöðum og stuðla að frekara brottfalli. Kennarafélag Menntaskólans á Egilsstöðum skorar því á ráðuneyti menntamála að hverfa tafarlaust frá stefnu sinni varðandi fjöldatakmarkanir nemenda við skólann".

 

Tengt efni