is / en / dk

03. Nóvember 2015

Mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Skólameistarafélag Íslands og Heimili og skóli lýsa yfir sameiginlegum vilja til að standa að úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Viljayfirlýsing þessa efnis var undirrituð í Safnahúsinu við Hverfisgötu um hádegisbil í dag.

Áður höfðu Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Cor J.W. Meijer, framkvæmdastjóri Evrópumiðstöðvar, og Per Ch. Gunnvall, stjórnarformaður Evrópumiðstöðvar, skrifað undir verksamning um að Evrópumiðstöð um nám án aðgreiningar og sérþarfir (European Agency for Special Needs and Inclusive Education) annist framkvæmd úttektarinnar.

Markmið úttektarinnar er að styðja við ákvarðanatöku á innleiðingu og framkvæmd stefnunnar um menntun án aðgreiningar með sannreyndri þekkingu og stuðla jafnframt að víðtæku sjálfsmati innan menntakerfisins auk þess að styðja við langtímaþróun menntastefnu á Íslandi. Áhersla verður lögð á að kanna hversu árangursrík innleiðing á menntastefnu um skóla án aðgreiningar hefur verið í skólakerfinu á Íslandi, meðal annars í samanburði við önnur lönd.

Úttektin nær til leik-, grunn- og framhaldsskólastigs. Rýnt verður einnig í fjármögnun vegna skóla án aðgreiningar á vegum ríkis og sveitarfélaga. Úttekin nær til allra hagsmunaaðila skólasamfélagsins, þ.e. til nemenda og fjölskyldna þeirra, starfsfólks skóla, skólaþjónustu og stoðþjónustu hvers konar, rekstraraðila skóla, samtaka kennara, kennaramenntunarstofnana og ráðuneyta. Ráðgert er að úttekin fari fram frá nóvember 2015 til ársloka 2016.

Um útfærslu samstarfs um úttektina og eftirfylgni hennar, svo sem um faglegt og fjárhagslegt framlag aðila, fer samkvæmt nánara samkomulagi aðila,“ segir jafnframt í viljayfirlýsingunni.

Varaformaður KÍ, Aðalheiður Steingrímsdóttir, undirritaði viljayfirlýsinguna fyrir hönd KÍ.

Viljayfirlýsingin

Verkefnislýsing Evrópumiðstöðvarinnar

Nánari upplýsingar

Á myndinni eru Per CH. Gunnvall, stjórnarformaður Evrópumiðstöðvari, Cor J.W. Meijer, framkvæmastjóri Evrópumiðstöðvar, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Eygló Harðardóttir velferðarráðherra, Anna Margrét Sigurðardóttir, formaður Heimilis og skóla, Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður KÍ, og Baldur Gíslason, frá Skólameistarafélagi Íslands. 


 

Tengt efni