is / en / dk

04. Nóvember 2015

Það berast hlátrasköll í bland við vélarnið frá gömlu hjáleigunni svokölluðu, vestan megin við Tækniskólann í Hafnarfirði, þegar blaðamann ber að garði einn fimmtudagsmorguninn. Þar inni eru að störfum glaðbeittir nemendur í áfanga sem heitir því skemmtilega nafni „Hlúð að gömlu,“ undir handleiðslu Sigríðar Júlíu Bjarnadóttur.

Áfanginn, sem hefur staðið nemendum á starfsbraut Tækniskólans til boða undanfarna þrjá vetur, er hugarfóstur Sigríðar Júlíu sem hefur verið myndmenntakennari við listnámsdeild skólans undanfarin ár.

„Ég er búin að kenna starfsbrautina í mörg ár og var orðin þreytt á að svara endurteknum spurningum nemenda minna um til hvers þau væru að gera hitt og þetta, eins og til dæmis að teikna fjarvídd eða einhverjar uppstillingar,“ segir Sigríður og hlær. „Þá fór ég að velta fyrir mér hvað ég gæti látið þau gera sem þau sæju tilgang í.“

Hugmynd sem kviknaði í sumarfríinu
Sigríður fékk þá hugmynd eitt sumarið að hafa samband við Góða hirðinn, nytjamarkað Sorpu, og falast þar eftir gömlum og löskuðum húsgögnum sem ekki höfðu selst, sem hún gæti svo látið nemendur sína gera upp, fegra eða breyta til að beisla sköpunargáfu og ímyndunarafl þeirra.

Til að gera langa sögu stutta gekk hugmynd Sigríðar eftir, og undanfarna þrjá vetur hefur verið blásið til húsgagnamarkaðar í lok hverrar annar í anddyri Tækniskólans þar sem verk nemendanna í áfanganum hafa verið boðin upp. „Gulrótin er náttúrulega að þau fá að lokum pening fyrir það sem þau eru að gera,“ segir Sigríður og brosir. „Þannig verður til metnaður hjá þeim að vanda til verka svo að húsgögnin seljist.“ Þau húsgögn sem ekki seljast eru send aftur til Góða hirðisins.

Gaman að sjá glaðari nemendur
Sigríður segir áfangann hafa gefið góða raun. „Það sem mér finnst skemmtilegast við þetta er hvað þeim finnst gaman. Þetta er eini tíminn þar sem þau beinlínis sækja mig ef ég er ekki mætt á mínútunni og spyrja hvort ég sé ekki að koma,“ segir Sigríður og hlær. Í dag sækjast allir tuttugu nemendurnir á starfsbraut Tækniskólans eftir því að sitja áfangann hjá Sigríði, og nokkrir þeirra hafa verið með frá upphafi. Um er að ræða þrjá hópa sem mæta einu sinni í viku, fjórar kennslustundir í senn.

„Það er mjög gaman að sjá hvað nemendur sem hafa verið hjá mér í nokkrar annir hafa öðlast mikla færni. Fyrst voru þeir margir hverjir miklir klaufar og þurftu mikla leiðsögn, en nú mæta þeir bara og hefjast handa og vinna vel. Þetta er ég að sjá fyrst núna því ég sá þetta ekki í upphafi, en það hefur auðvitað gengið á ýmsu,“ segir Sigríður og brosir. „Mér finnst þeim bara líða miklu betur, og það er mjög ánægjulegt.“

Iðnnám ekki nógu „smart“
Sigríði finnst iðnnámi ekki vera gert nægilega hátt undir höfði, og of mikil áhersla sé lögð á að nemendur fari í almennt bóknám. „Ég á sjálf dætur sem hafa farið í gegnum grunnskóla og ég varð alltaf voða sár yfir því, af því að ég var að kenna hérna í Iðnskólanum í Hafnarfirði, að það var einhvern veginn alltaf áherslan á það að fara í menntaskóla en ekki iðnskóla. Það var alveg ótrúlegt og þessu þarf bara að breyta. Það er alveg jafn merkilegt að verða rafvirki og lögfræðingur,“ segir Sigríður. „Það eru svo margir sem hafa bara aðra greind og það er alveg jafn góð og mikil greind finnst mér, þessi verklega eins og sú bóklega. Það er ekkert öllum gefið að hafa verklag, en því miður hefur það verið þannig mjög lengi að iðnnámið hefur ekki þótt eins smart. Þetta er svo vitlaust því okkur vantar alla flóruna.“

„Hlúð að gömlu“ áfanginn hefur reynst vel og vonar Sigríður að hann sé kominn til að vera, en óvíst er þó með framtíð hans í ljósi sameiningar Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans. Hún er að minnsta kosti sannfærð um ágæti hans, og langar ekki til að gera neitt annað. „Ég var ráðin á listnámsdeildina, en þessir hópar á starfsbrautinni eru mun meira krefjandi, það verður bara að segjast alveg eins og er. Hins vegar þá hafði ég svo gaman af þessu að ég valdi mér það að kenna þeim, og núna kenni ég þeim eingöngu.“

Ekki leiðinlegt að fá borgað fyrir að vera í skóla
„Ég er að læra smíði þannig að þetta hefur reynst mér mjög vel,“ segir Jóhannes Georg Birkisson, sextán ára nemandi á starfsbraut Tækniskólans. Jóhannes Georg stefnir reyndar á að verða bifvélavirki, en bílar og mótorhjól eiga hug hans allan. „Ég hef elskað allt í kringum bíla og mótorhjól frá því að ég var lítill, lyktina, lætin og að keyra, og svo er gaman að gera við.“

Jóhannes Georg er hæstánægður með húsgagnaáfangann á starfsbrautinni og segir verknám vera gulls ígildi. „Það er tilvalið fyrir fólk eins og mig sem finnst leiðinlegt í bóknámi. Mér fannst það bara alls ekki skemmtilegt, þannig að ég fór beint í verknám og það er mjög gaman að gera upp þessi gömlu húsgögn. Svo er ekki leiðinlegt að fá borgað fyrir að vera í skóla,“ segir Jóhannes og hlær, en hann rennir greinilega hýru auga til húsgagnauppboðsins í lok annarinnar.

Greinin birtist í 6. tbl Skólavörðunnar sem kom út 3. nóvember. Hægt er að nálgast Skólavörðuna hér. 

Tengt efni