is / en / dk

16. Nóvember 2015

Degi íslenskrar tungu er fagnað í dag, 16. nóvember. Fjölmargir viðburðir eru í tilefni dagsins og í flestum skólum er haldið upp á daginn með einhverjum hætti. Stóra upplestrarkeppnin hefst á þessum degi en keppnin fagnar 20 ára afmæli í vetur. Þá efnir Menntamálastofnun til vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2015, í fimmta sinn. Nemendur spreyta sig á að botna fyrripart sem að þessu sinni eru eftir Helgu Zimsen. 

Hátíðarstemning ríkir í leikskólum um land allt og má nefna að leikskólinn Sólvellir á Seyðisfirði býður foreldrum og velunnurum í kaffiboð þar sem börnin syngja og sýna frumsamið skuggaleikhús. Hefð er fyrir því að farið sé með þulur eftir Jónas Hallgrímsson í leikskólanum Brákarborg og þá verður amma leikskólabarns fengin til að koma og lesa fyrir börnin. Nemendur á leikskólanum Heiðarborg fá góða gesti í heimsókn í dag en nemendur í Selásskóla ætla að koma og lesa fyrir börnin. Á Barnaheimilinu Ósi verður deginum fagnað með „Litlu lestrarhátíðinni“ og munu rithöfundar koma og lesa úr nýlegum barnabókum. Þá koma nemendur og kennarar í Heilsuleikskólanum Urðarhóli saman í hádeginu til þess að syngja, leika og fara með kvæði. 

Ýmsir skemmtilegir viðburðir verða í grunnskólum landsins; til dæmis hafa nemendur í Landakotsskóla skreytt skólann sinn með 200 veðurorðum, í bókasafninu á Húsavík veðrur opnuð sýning á ljóðum og listaverkum 4. og 5. bekkinga í Borgarhólsskóla og Langholtsskóli fær til sín leikskólahópa og þar munu áhorfendur fá að fræðast um ævi Jónasar Hallgrímssonar. 

Hér hefur verið stiklað á stóru í viðburðum dagisins en hægt er að kynna sér þá betur á vefsvæði menntamálaráðuneytisins og á Degi íslenskrar tungu á Facebook. Svo er vert að benda á hugmyndabanka fyrir kennara í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum sem nýta má á degi íslenkrar tungu. 

 

Félag leikskólakennara heiðrað á degi íslenskrar tungu árið 1998
Félag leikskólakennara hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir „ómetanlegt framlag til viðgangs íslenskrar tungu“ á degi íslenskrar tungu árið 1998. í umsögn vegna viðurkenningarinnar kom fram að grunnurinn að móðurmáli barna sé lagður á fyrstu árum þeirra og á grunnur sé ekki einungis lagður á heimilunum heldur einnig á leikskólunum. „Þangað fara börn í mörgum tilvikum ársgömul og eru fram til þess að skólaganga hefst í grunnskóla. Foreldrar leggja því mikla ábyrgð á herðar starfsfólks leikskólanna og það er samdóma álit okkar að þar sé unnið markvisst og skipulega að því að kenna börnunum gott mál og örva málþroska þeirra. Leikskólakennarar leggja í starfi sínu mikla rækt við móðurmálið og þeim er ljós ábyrgð sín við að koma því áfram til komandi kynslóða. Það er ekki síst núna á tímum tölvuleikja og fjölmiðlaefnis á erlendum tungumálum að þörf er á að hvetja alla uppalendur til að standa vörð um móðurmálið,“ segir í umsögninni. 

Björg Bjarnadóttir gegndi formennsku í Félagi leikskólakennara árið 1998 og veitti viðurkenningunni viðtöku. Hún sagði viðurkenninguna mikinn heiður og að með henni væri leikskólakennurum sýnd virðing. „Það er mikilvægt að vandað sé til móðurmálskennslu barna, allt frá upphafi. Þar gegna leikskólarnir miklu hlutverki, sem þeir verða að sinna af þekkingu og alúð í samvinnu við foreldra barnanna. Málörvun er veigamikill hluti af uppeldi og menntun barna í leikskólum," sagði Björg í viðtali við Morgunblaðið 17. nóvember 1998. Hún sagði jafnframt að málörvun fléttaðist inn í allt starf leikskólans og í lögð væri rækt við að kenna börnunum þulur, rímur og kvæði og að lesa gömul ævintýri og sögur. „Með þessum hætti gefst tækifæri til að viðhalda menningararfinum. Einhverjum kann að þykja það gamaldags og óþarfi, auk þess sem börn eigi erfitt með að læra að skilja gamlar þulur og vísur, en það er ekki rétt, því yfirleitt vanmetum við getu og hæfileika barna frekar en hitt og þau koma manni stöðugt á óvart," sagði Björg Bjarnadóttir. 

 

 

Tengt efni