is / en / dk

29. Mars 2017

Ársfundur Kennarasambands Íslands 2017 var settur á Grand Hótel Reykjavík í morgun. Yfirskrift fundarins er „fagleg forysta kennara og skólastjórnenda“ og eru ársfundarfulltrúar um eitt hundrað talsins. 

Þórður Árni Hjaltested, formaður KÍ, flutti ávarp við upphaf ársfundarins. Hann gerði batnandi efnahagsástand í þjóðfélaginu að umræðuefni og sagði mikilvægt að stjórnvöld nýttu það til að efla menntun í landinu. „Það þarf að setja aukna fjármuni í menntamál til að auka nýliðun í kennarastéttinni, bæta starfsaðstæður, kennaramenntun og starfsþróun stéttarinnar til að styðja við vandasöm störf hennar í skólum landsins í þágu menntunar og velferðar barna og ungmenna og skólaþróunar og til að endurnýja búnað sem víða er úr sér genginn eftir niðurskurð síðustu ára. Ef við ætlum okkur að vera í fremstu röð þá verðum við að gera þetta,“ sagði Þórður. 

Þórður fjallaði einnig um átök sem hluti aðildarfélaga KÍ þurfti að standa í við kjarasamningagerð á síðasta ári. Hann sagði með öllu óþolandi að kennarastéttin þurfi með reglulegu millibili að fara í hart til þess að sækja eðlilegar leiðréttingar á launum.

„Nú er staðan þannig að kennarar búa við aukið vinnuálag, svo mikið að ekki verður á það bætt. Komið er að hreinum og beinum launahækkunum með það að markmiði að kennarastarfið verði samkeppnishæft! Þetta tengist síðan lífeyrismálunum, nú verða stjórnvöld að standa við stóru orðin og hækka laun kennara í framhaldi af breytingum á lífeyrisréttindum, eða sagt með öðrum orðum, jafna laun milli almenna markaðarins og þess opinbera. Þar verður ekki bæði sleppt og haldið,“ sagði Þórður. 

Hann sagði einnig að það hefði takmarkaða þýðingu að hækka launin þegar ekki væri samstaða um að vernda kaupmáttinn. Þjóðarsátt þurfi um að hækka laun kennara og hvatti Þórður menntamálaráðherra til að beita sér fyrir henni. 

„Við eigum frábæra kennara, skólakerfið er gott. Íslenskt samfélag krefst þess að eiga gott skólakerfi. Til þess að það geti viðhaldist þá þarf að gera átak í því að efla kennaramenntun innan háskólanna og hvetja ungt fólk til dáða og að gera það eftirsóknarvert að verða kennarar. Það þarf að bæta starfsumhverfið, minnka álag og greiða samkeppnishæf laun. Það þarf að vera spennandi kostur að gera kennslu að ævistarfi.“

Þórður sagði KÍ ítrekað hafa bent á yfirstandandi og yfirvofandi kennaraskort. „Nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar hvetur yfirvöld til að bregðast við yfirvofandi kennaraskorti, marka sér stefnu í málinu og hefja aðgerðir til að sporna við þeirri alvarlegu þróun sem komin er af stað.“

Síðast en ekki síst fjallaði Þórður um stöðu menntunar án aðgreiningar og vitnaði til nýrrar úttektar þar sem bent er á hnökra við framkvæmd stefnunnar hér á landi. Þórður sagði mikilvægt að hamra járnið meðan það væri heitt og finna úrlausnir. Því bæri að fagna að menntamálaráðherra hefði stofnað til stýrihóps sem hefði það verkefni að móta aðgerðaáætlun. KÍ myndi taka þátt í þeirri vinnu af heilum hug. „Ég fullyrði að þetta er eitt það mikilvægasta og þarfasta verkefni sem við þurfum öll að vinna að á næstu misserum og mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðuneytið leiði þá vinnu. Með því að finna lausnir á þeim vanda sem skýrslan greinir frá þá erum við að minnka álag á kennara í starfi,“ sagði Þórður Árni Hjaltested, formaður KÍ, í ávarpi sínu.  

Ársfundurinn stendur til klukkan 16 í dag. Hægt er að kynna sér dagskrá og efni fundarins á vefsíðu KÍ. Myllumerki fundarins er #kennarasamband

 

 

 

 

 

 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42