is / en / dk

28. Apríl 2017

Framhaldsskólakennara harma þá gerræðislegu aðgerð Alþingis að samþykkja breytingar á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna þvert gegn fyrri yfirlýsingum um samstarf og sátt í málinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samþykkt var á fulltrúafundi Félags framhaldsskólakennara sem haldinn var í gær. Fundurinn ályktaði einnig um ríkisfjármálaáætlun og mótmælti þar þeirri niðurstöðu í ríkisfjármálaáætlun að skerða framlög til framhaldsskólanna um tæpar 690 milljónir króna á mesta hagvaxtartíma í sögu lýðveldisins.

Ályktanir fundarins í heild sinni:

Ályktun um ríkisfjármálaáætlun
Félag framhaldsskólakennara gerir alvarlegar athugasemdir við þingsályktun um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022 sem nú er til umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis. Þar eru framlög til framhaldsskólanna skert um tæpar 690 milljónir á föstu verðlagi. Þessi niðurskurður er á mesta hagvaxtartíma í sögu lýðveldisins.

Hér er verið að brjóta öll fyrirheit um að mögulegur fjárhagslegur ávinningur af styttingu námstíma til stúdentsprófs verði nýttur til þess að styrkja innra starf framhaldsskólanna.

Langvarandi niðurskurður í rekstri framhaldsskólanna hefur sett mark sitt á starfsemi þeirra. Slíkt hefur bitnað á gæðum kennslu, námsframboði og stoðþjónustu við nemendur.

Mikilvægt er að gefa framhaldsskólunum svigrúm til að bregðast við miklu brottfalli nemenda en algengasta orsök brottfalls eru félagslegir þættir og mikilvægt að þétta stuðningsnet við nemendur með aukinni sérfræðiþekkingu innan framhaldsskólanna.

Félag framhaldsskólakennara skorar á Alþingi að sjá til þess að fyrri loforð verði efnd og ekki verið dregið meira fé úr rekstri framhaldsskólanna en orðið er. Að framhaldsskólinn verði látinn njóta vafans því verði niðurstaðan til samræmis við þær tölur sem birtast í ríkisfjármálaáætlun er ljóst að staða framhaldsskólanna mun halda áfram að versna til framtíðar.

 

Ályktun um breytingar á lögum um lífeyrissjóði
Fulltrúafundur félags framhaldskólakennara harmar þá gerræðislegu aðgerð Alþingis að samþykkja breytingar á lögum um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna þvert gegn fyrri yfirlýsingum um samstarf og sátt við stéttarfélög opinberra starfsmanna. Fundurinn beinir því til stjórnar Kennarasambands Íslands að hefja nú þegar málarekstur og láta reyna á réttmæti þess að Alþingi breyti lögum sem hafa afturvirkt áhrif til skerðingar núverandi sjóðsfélaga.

Skorað er á fulltrúa stjórnvalda að leggja fram aðgerðaáætlun um hvernig skuli jafna laun opinberra starfsmanna og hækka laun þeirra til jafns við samsvarandi hópa á almennum markaði. Slíkt var forsenda þeirra skerðinga sem mögulega gætu orðið á réttindum opinberra starfsmanna til framtíðar með afnámi bakábyrgða sjóðanna.

Senn líður að því að kjarasamningar stórra hópa starfsmanna ríkis og sveitarfélaga losni og mikilvægt að ganga af fullum þunga eftir efndum af hálfu ríkisins. Opinberir starfsmenn þurfa að þétta raðirnar og standa saman og knýja á um efndir á loforðum um frekari launaleiðréttingar.
 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42