is / en / dk

09. Febrúar 2018

Árleg vorráðstefna Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri verður haldin þann 14. apríl 2018. Þema ráðstefnunnar er samstarf heimila og skóla. 

Samkvæmt gildandi lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla ber skólum að stuðla að samstarfi milli heimila og skóla með líðan og velferð barna og ungmenna að leiðarljósi. Samstarf heimila og skóla er útfært með ýmsum hætti á öllum skólastigum. Á ráðstefnunni verður lögð sérstök áhersla á umfjöllun um það sem vel hefur gefist í samstarfinu. Ráðstefnan er ætluð skólafólki, foreldrum og öðrum þeim sem áhuga hafa á þessu mikilvæga málefni.

Sérstök athygli er vakin á því að efni ráðstefnunnar varðar samstarf heimila og skóla á öllum skólastigum þ.e. á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar verða:

  • Ingibjörg Auðunsdóttir, fyrrum sérfræðingur hjá MSHA
  • Bryndís Jónsdóttir, verkefnastjóri Heimila og skóla
  • Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri og fulltrúar úr Oddeyrarskóla

Auk aðalfyrirlestra verða málstofur þar sem reifuð verða ýmis mál er lúta að því sem vel hefur gefist í samstarfi heimila og skóla. Hver málstofa er 30 mínútur og innan þess tíma er gert ráð fyrir umræðum/fyrirspurnum.

Hér með auglýsum við eftir erindum á málstofur frá fagfólki á öllum skólastigum, foreldrum, nemendum og öðrum áhugasömum aðilum um efni ráðstefnunnar.

Einkum er leitað eftir:

  • kynningu á árangursríkum þróunarverkefnum
  • umfjöllun um árangursríkar leiðir/starfshætti í samstarfi heimila og skóla
  • kynningu á nýlegum íslenskum og erlendum rannsóknum
  • umfjöllun um strauma og stefnur varðandi samstarf heimila og skóla

Frestur til að senda inn lýsingu á erindi að hámarki 200 orð er til 12. febrúar 2018.

Senda inn ágrip.

Svör um samþykki frá ráðstefnunefnd munu berast 22. febrúar 2018. Verði erindið samþykkt fellur ráðstefnugjald niður sem svarar einum málstofuflytjanda.

Nánari upplýsingar veitir Laufey Petrea Magnúsdóttir, forstöðumaður MSHA, í síma 460 8590, netfang: laufey@unak.is og Sólveig Zophoníasdóttir, sérfræðingur MSHA, í síma 460 8564, netfang: sz@unak.is.

 

Tengt efni