is / en / dk

07. Febrúar 2018

Rafræn allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna í Félagi grunnskólakennara hófst í morgun. Kosið er í stjórn, samninganefnd, skólamálnefnd og kjörnefnd félagsins. Ríflega 40 félagar gefa kost á sér og er hægt að kynna sér frambjóðendur hér. 

Atkvæðagreiðslan hófst klukkan 9:00 í morgun, miðvikudaginn 7. febrúar, og stendur til klukkan 14:00 mánudaginn 12. febrúar. Atkvæðisrétt hafa allir félagsmenn Félags grunnskólakennara samkvæmt félagatali KÍ. 

Atkvæðagreiðslan er leynileg og leggur kjörnefnd áherslu á að félagsmenn virði það í hvívetna.

Atkvæðagreiðslan
Atkvæðagreiðslan fer fram á Mínum síðum á www.ki.is Hægt er að greiða atkvæði í hvaða nettengdri tölvu sem er. Kjósendur þurfa að skrá sig inn á Mínar
síður með Íslykli eða Rafrænum skilríkjum. Þeir sem ekki eru komnir með Íslykil geta pantað hann með því að smella á hnappinn Mig vantar Íslykil sem
er á innskráningarsíðunni.

Þegar komið er inn á Mínar síður sést kosningin. Smelltu á Kosning í stjórn og nefndir FG 2018 og þá birtist atkvæðaseðillinn.

Merktu við þá frambjóðendur sem þú vilt kjósa í stjórn, samninganefnd, skólamálanefnd og kjörnefnd.

Smelltu að lokum á flipann Kjósa og þá birtist eftirfarandi texti til að staðfesta að atkvæði hafi verið greitt: Atkvæði þitt hefur verið móttekið.

Ef þú vill fresta því að greiða atkvæði skaltu smella á: Hætta við kosningu.

Hlutverk trúnaðarmanna
Samkvæmt ákvörðun kjörnefndar um framkvæmd leynilegrar allsherjaratkvæðagreiðslu eru trúnaðarmenn Félags grunnskólakennara umboðsmenn
kjörnefndar í hverjum skóla.

Kjörnefnd beinir þeim tilmælum til trúnaðarmanna að þeir hlutist til um að kennarar hafi aðgang að tölvu í skólanum og veiti þeim aðstoð við atkvæðagreiðsluna sé þess óskað. Jafnframt beinir kjörnefnd því til trúnaðarmanna að þeir hvetji félagsmenn til að nýta kosningarétt sinn. Dæmi eru þess að upplýsingar um netföng félagsmanna hafi ekki borist KÍ. Trúnaðarmenn eru beðnir um að fylgjast með því hvort allir kennarar skólans hafi fengið upplýsingar um kosninguna.

Atkvæðaseðill birtist eingöngu hjá þeim sem eru á kjörskrá. Ef einhver telur sig eiga að vera á kjörskrá en fær ekki atkvæðaseðil á Mínum síðum skal viðkomandi hafa samband við starfsmann kjörnefndar sem athugar málið.

Nánari upplýsingar um atkvæðagreiðsluna eru veittar á skrifstofu KÍ en starfsmaður kjörnefndar er Fjóla Ósk Gunnarsdóttir, netfang: fjola@ki.is sími: 595 1111.
 

Tengt efni