is / en / dk

08. Febrúar 2018

Rafræn atkvæðagreiðsla hefst klukkan 9:00 þriðjudaginn 13. febrúar og lýkur klukkan 14:00 föstudaginn 16. febrúar. Atkvæðamagn ræður hverjir veljast í stjórnina; fjórir verða aðalmenn og fjórir verða varamenn.

Kosið verður í önnur embætti Félags leikskólakennara á aðalfundi félagsins sem fram fer í Hveragerði dagana 14. og 15. maí 2018. Nánar hér.

Frambjóðendur eru Hanna Berglind Jónsdóttir, Hanna Rós Jónasdóttir, Helga Charlotte Reynisdóttir, Hulda Þorbjörg Stefánsdóttir, Jakobína Rut Hendriksdóttir, Laufey Heimisdóttir, Sigurlaug Einarsdóttir, Sveinlaug Sigurðardóttir, Sverrir Jensson Dalsgaard.

Frambjóðendurnir kynna sig og sínar áherslur hér að neðan. 

 

 

 

 

Hanna Berglind Jónsdóttir 45 ára leikskólakennari í Stórutjarnaskóla í Þingeyjarsveit.

 • Útskrifaðist frá HA árið 2000
 • Leikskólinn Sunnuból Akureyri 2000-2004. Deildarstjóri 2 ár, leikskólastjóri 2 ár
 • Leikskólinn Síðusel (núna Hulduheimar) Akureyri 2006-2014. Leikskólakennari
 • Stórutjarnaskóli Þingeyjarsveit frá 2014

Ég hef verið í stjórn FL frá því að félaginu var skipt upp í tvö félög árið 2010. Kennarastarfið skiptir mig miklu máli og velferð nemenda minna. Mér þykir mikilvægt að leikskólinn sé metnaðarfull stofnun þar sem ríkir fagmennska og virðing fyrir starfinu, samkennurum og nemendum. Stéttarfélag skiptir miklu máli, ég tel mig geta lagt mikið af mörkum til að Félag leiksólakennara megi áfram vera öflugt félag. Ég vil berjast fyrir stöðu leikskólakennara og leikskólans í samfélaginu, að leikskólinn sé stofnun sem fólk þekkir og ber virðingu fyrir.

Mínar helstu áherslur eru velferð barna, að börn fá bestu tækifæri til mögulegs þroska. Ég vil sjá að börn alist upp við dygðugt líferni í jákvæðu og uppbyggjandi umhverfi. Leikskólinn er stór hluti af uppeldi barna 21. aldarinnar, því er það gríðarlega mikilvægt að leikskólar séu vandaðar og metnaðarfullar stofnanir þar sem kennurum og börnum líður vel saman við leik og störf. Mjög hefur þrengt að börnum og starfsfólki, húsnæði leikskólans er víða ófullnægjandi, m.t.t. rýmis fyrir leik og störf. Því tel ég gríðarlega mikilvægt að fækka börnum í rými/deild þannig að hver og einn fái notið sín. Þannig minnkar einnig álag á kennara, bæði líkamlega og andlega, og þeir fá betur notið sín í starfi. Einnig þarf að bæta kjör kennara með hærri launum til jafns við aðra sérfræðinga, en einnig með styttingu vinnuvikunnar.
 

Ég heiti Hanna Rós Jónasdóttir og starfa sem hópstjóri í leikskólanum Hólmasól, Akureyri. Ég er 31 árs, í sambúð með Sveinbirni Pálssyni og saman eigum við 2 ára gamlan dreng.

Við fjölskyldan fluttum í sumar til Akureyrar eftir 10 ára búsetu á höfuðborgarsvæðinu, en ég er fædd og uppalin á Akureyri og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 2006. Árið 2010 útskrifaðist ég frá Háskólanum á Bifröst með BA- gráðu í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði. Árið 2011 lauk ég diplómugráðu í Hagnýtum jafnréttisfræðum með áherslu á opinbera stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.
 Árið 2013 útskrifaðist ég með M.Ed í leikskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands. Meistaraprófsverkefnið mitt heitir; „Þú þarft að vera búinn að afla þér þekkingar á mjög mörgum sviðum til þess að geta sýnt góða fagmennsku” - Reynsla fimm leikskólakennara af eigin fagmennsku, andstæðum viðhorfum í samfélaginu og sýn á leikskóla framtíðarinnar.

Frá árinu 2010 hef ég unnið í sex leikskólum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Ég hóf störf sem deildarstjóri yngstu deildar í leikskólanum Grænuborg árið 2013. Árið 2015 tók ég við sem kjarnastjóri stúlkna í leikskólanum Ásum í Garðabæ. Meðfram leikskólakennaranáminu vann ég í leikskólunum Lundarseli og Krógabóli á Akureyri og Leikskólanum Björtuhlíð í Reykjavík. Síðustu 4 ár hef ég setið í samninganefnd FL og var það mér mikill og góður skóli og góð reynsla sem gott er að búa að.

Ég býð mig fram í stjórn Félags leikskólakennara vegna þess að ég til mig búa yfir þeim eiginleikum sem þarf til að sinna því hlutverki vel. Ég hef gaman af því að starfa í félagsstörfum og hef mikinn metnað fyrir hönd félagsins og okkar félagsmanna. Þrátt fyrir ungan starfsaldur hef ég unnið víða og fundið hversu mikils virði það er að starfa með öðrum fagmönnum á jafnréttisgrundvelli.

Ég tel það forgangsmál að unnið sé að því að minnka álag og streitu innan stéttarinnar. Færa þarf starfsaðstæður nær öðrum skólastigum, stytta vinnuvikuna og/eða fjölga frídögum líkt og þekkist innan grunnskólans. Auka þarf það rými sem reiknað er á hvert barn og fækka börnum á hvern kennara. Einnig þarf að fjölga undirbúningstímum, svo hver kennari geti unnið að þeim verkefnum og undirbúið starf sitt á sem faglegasta máta. Einnig tel ég það mikilvægt að hækka laun kennara til að ýta undir sókn ungs fólks inn í stéttina því endurnýjun kennara þarf að aukast.

Nafn: Helga C Reynisdóttir
Núverandi vinnustaður. Leikskóli Seltjarnarness
Aldur: 41 árs
Menntun: BEd í leikskólakennarafræðum. Hef jafnframt lokið tveimur önnum í starfstengdri leiðsögn við Háskóla Íslands, sem er ætlað sem stétt innan stéttar sem sérhæfir sig í að kenna nemum í vettvangsnámi.

Starfsreynsla/starfsferill: Hef unnið á Leikskólum Seltjarnarness frá árinu 1998, fyrst sem leiðbeinandi (1998-2006) og svo sem leikskólakennari og deildarstjóri frá vorinu 2006 og til dagsins í dag.

Af hverju býð ég mig fram? Ég hef lengi verið virk innan FL og látið mig málefni leikskólakennar varða . Ég hef verið trúnaðarmaður, setið í uppstillingarnefnd í eitt kjörtímabil ásamt því að sitja í samninganefnd síðustu tvö kjörtímabil. Ég tel mikilvægt að starfið og menntun okkar sé metin að verðleikum og að launin okkar séu á við laun annarra sérfræðinga, ekki bara innan ríkis og sveitafélaga heldur einnig á við laun sérfræðinga sem starfa á hinum almenna markaði. Ég hef setið aðalfundi, ársfundi og þing á vegum KÍ og FL og hefur það verið fræðandi og veitt mér betri innsýn í starf og áherslur annarra skólastiga. Ég hef jafnframt setið námskeið í samningatækni og fengið innsýn í launaþróun og samningatækni kennarasambanda á hinum Norðurlöndunum. Ég hlakka til að fá tækifæri til þess að vinna áfram fyrir félagið á komandi kjörtímabili.

Á hvað mun ég leggja áherslu á nái ég kjöri? Að stuðlað verði að betri líðan leikskólakennara í starfi og að áhersla sé lögð á að bæta starfsumhverfi þeirra. Meta þarf menntunina að verðleikum og hlúa að faglegu starfi með tilliti til aukinna og fjölbreyttra krafna sem koma bæði utan frá og innan skólanna sjálfra. Jafna þarf aðgang barna að fagmenntuðum kennurum og þannig stöðu þeirra þegar leikskólagöngu er lokið, en fækkun í stéttinni er mikið vandamál og mjög fáir fagmenntaðir starfsmenn eru í mörgum leikskólum landsins. Skoða þarf hvað þurfi að gera til þess að leikskólakennurum sem þurfa að sækja endurhæfingu hjá Virk fækki. Jafnframt þarf að rannsaka af hverju börnin okkar eru að glíma við sífellt meiri vanlíðan og kvíða og af hverju móðurmálskunnáttu fer stöðugt aftur og sífellt fleiri börn þurfa sérstaka málörvun. Ég tel einnig mjög mikilvægt að samfélagið meti starfið okkar og námið að verðleikum sem og við sjálf sem mun ekki gerast án þess að við tölum um það af virðingu og höldum áfram að gera það sýnilegt í máli og myndum.

Nafn: Hulda Þorbjörg Stefánsdóttir
Vinnustaður: Leikskólinn Laugasól
Aldur: 45 ára
Menntun: Leikskólakennari með B.Ed

Er að ljúka við meistaranám í Mannauðsstjórnun núna í vor

Starfsreynsla / starfsferill: Frá því að ég útskrifaðist árið 2003 hef ég unnið sem deildastjóri, einnig vann ég eitt ár sem aðstoðarleikskólastjóri.

Af hverju býð ég mig fram: Síðastliðin ár hef ég verið í samningarnefnd félagsins og fannst það áhugavert og skemmtilegt starf. Hins vegar langar mig að takast á við ný verkefni og því ákvað ég að bjóða mig fram til stjórnar FL og vinna á þann hátt í þágu félagsmanna. Um þessar mundir er ég að skrifa meistararitgerð mína en markmið rannsóknarinnar er að skoða sögu félagsins og sjá á hvaða hátt kjaraþróun stéttarinnar hefur breyst með tilliti til virðingar, menntunnar, lengingu námsins og lögverndunnar á starfsheiti. Tel ég að þessi vinna eigi eftir að skila mér góðum grunni að því að starfa í stjórn félagsins.

Á hvað mun ég leggja áherslu á ef ég næ kjöri: Ef ég næ kjöri þá mun ég leggja áherslu á að vinna að bættu starfsumhverfi leikskólakennar, betri kjörum og stuðla að því að leikskólakennarar haldi áfram að gegna því lykilhlutverki sem þeir gera þannig að leikskólar veiti góða og faglega þjónustu.

 

Nafn: Jakobína Rut Hendriksdóttir

Núverandi vinnustaður: Leikskóli Seltjarnarness

Aldur: 34 ára

Menntun: Leikskólakennari (B.ed)

Starfsreynsla/starfsferill: starfandi deildarstjóri frá útskrift árið 2008. Starfaði á leikskólanum Grandaborg frá 2004, með leikskólakennaranáminu og til ársins 2015. Réð mig árið 2015 í leikskóla Seltjarnarness.

Af hverju býðurðu þig fram? Ég hef mikinn eldmóð fyrir starfi leikskólakennara og réttindum barnanna. Ég vil hafa áhrif og veit að ég er fær um það.

Áherslur:
Það er margt sem kemur upp i hugann þegar ég hugsa um áherslur leikskólakennara. Það er svo ótal margt sem þarf að huga að þegar kemur að því að vera áhrifavaldur i lifi barna.
Eitt af því mikilvægasta að mínu mati er jafnrétti, jafnrétti barna, sama hvaðan þau koma og sama hvaða kynfæri þau fæðast með. Mótun samfélagsins byrjar strax við fæðingu og heldur síðan áfram i gegnum lifið. Eg vil sjá mun meiri vakningu og breytingar i leikskólanum þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Við erum til að mynda enn að sjá bækur þar sem strákarnir eru hugrakkir og sterkir en stelpurnar hræddir (ekki hugrakkir) kjánar. Viðhorf okkar til þessara þátta er að sjálfsögðu ólíkt frá manni til manns og frá konu til konu og mörgum þykir þetta einfaldlega óþarfa vesen og tuð. Ég geri mér grein fyrir að það er erfitt að breyta "reglum" samfélagsins en með aukinni fræðslu getum við gert betur og i raun miklu betur. Ég er sannfærð um að við getum, með auknu jafnrétti kynjanna og jafnrétti i viðari skilningi, skapað betra framtiðarsamfelag með sterkari einstaklingum, óháð kynfærum.

Að sama skapi er mikilvægt að knýja fram viðhorfsbreytingar gagnvart menntun og starfi leikskólakennara. Við sem leikskólakennarar skiptum svo ótrúlega miklu máli i lifi hvers barns og höfum svo mikil áhrif á mótun þeirra. Það er sorgleg staðreynd að þrátt fyrir góða þróun þá er há rödd i samfélaginu sem einfaldlega skilur ekki hvers vegna þarf að fara i háskóla til þess að passa börn. Þetta viðhorf er hreint og beint óþolandi og löngu kominn timi til að þessar raddir verði þaggaðar niður, þaggaðar niður með umræðum, greinum og viðtölum við þá frábæru leikskólakennara sem starfa i leikskólum landsins. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og leikskólakennarar eru lykilfólk i samfélaginu, með æsku landsins á sinum herðum. Það að kennslan fari að mestu leyti fram i gegnum leik ætti ekki að skaða málstað okkar heldur efla hann. Við erum sífellt að berjast fyrir rétti barnanna og það verður seint sagt að við séum á þessum vettvangi til að verða rík. Við leikskólakennarar eigum samt sem áður og krefjumst þess að fá okkar starf metið að verðleikum með mannsæmandi launum og vinnuaðstöðu. Á hverju á útskrifast sárafáir leikskólakennarar úr leikskólakennaranáminu frá Háskóla Íslands. Sorgleg staðreynd en staðreynd samt sem áður. Þessu þarf að breyta og það gerum við með því að krefjast mannsæmandi launa og betra vinnuumhverfi fyrir okkur og börnin okkar.

Já við eigum og krefjumst! ÁFRAM VIÐ !

Annað: Stöndum saman og segjum stolt: ,,ég er leikskólakennari."

Kæru félagsmenn!

Ég heiti Laufey Heimisdóttir og vinn á leikskólanum Óskalandi í Hveragerði. Ég er 43 ára og útskrifaðist sem leikskólakennari 2009 frá HA en er núna í mastersnámi við HÍ. Ég hef unnið á leikskóla í tæp 13 ár en vann líka sem dagforeldri í fjögur ár og að hluta samhliða námi.

Ég hef verið varamaður í stjórn Félags leikskólakennara í um það bil 9 ár en síðasta hálfa árið hef ég verið ritari í stjórn FL. Mér finnst mikilvægt að í stjórn FL séu fulltrúar frá öllum landshlutum þannig að það sé möguleiki að fá sjónarmið allra og ólík sjónarhorn ef þess gerist þörf. Einnig er mikilvægt að í stjórn sé fólk með ólíkan bakgrunn og reynslu.

Ég hef mikinn áhuga á félagsmálum og vil að félag leikskólakennara verði sterkt félag með fagmennsku að leiðarljósi og til fyrirmyndar sem starfstétt. Ég vil gæta hagsmuna okkar sem stéttar og vinna að því að bæta starfsaðstæður og að laun okkar séu í samræmi við þá sérfræðinga sem við erum.

Með bestu kveðjum, Laufey
 

Ég heiti Sigurlaug Vigdís Einarsdóttir og er leikskólakennari fædd árið 1966. Í dag starfa ég sem deildarstjóri í leikskólanum Laugasól í Reykjavík. Ég býð mig fram bæði í stjórn FL og skólamálanefnd.

Ég útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands árið 1992 og síðan þá hef ég lokið tveim diplómagráðum frá Háskóla Íslands; í sérkennslufræðum 2003 og fötlunarfræðum 2008. Ég lauk Med gráðu í náms- og kennslufræði, með áherslu á Mál og læsi í júní 2016. Lokaverkefnið mitt heitir Orð og vísindi í leikskólastarfi. Námsleikir með áherslu á orðaforða og efnafræðileg viðfangsefni. Í verkefni mínu fléttast mín áhugasvið í starfi með börnum þ.e. orðforði og þá málþroski, vísindi og svo fyrst og fremst leikurinn.

Starfsferill: Ég hóf minn leikskólaferil í leikskólanum Múlaborg og kveikti það áhuga minn á sérkennslu og hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar sem hefur fylgt mér æ síðan. Árið 1997 lá leiðin upp í Breiðholt og eyddi ég næstu tuttugu árum í því frábæra og fjölbreytta hverfi. Þar sinnti ég áhugaverðum störfum, m.a. sem leikskólastjóri í Fellaborg, sérkennslustjóri í Fálkaborg og verkefnastjóri í Holti.

Eitt af verkefnum mínum í Holti var að sinna verkefnastjórn í þróunarverkefninu Okkar mál sem er samstarf um menningu, mál og læsi í Fellahverfi sem hefur það að meginmarkmiði að auka samstarf skóla í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti með það að leiðarljósi að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu. Þetta var ótrúlega spennandi og krefjandi verkefni og sýndi hversu mikilvægt það er að skólastig vinni saman sem og foreldrar og stofnanir í nærumhverfi barnanna til að efla öll börn

Í febrúar 2017 hóf ég störf sem leikskólakennari í Laugasól og sem deildarstjóri frá ágúst 2017.

Af hverju býð ég mig fram? Ég hef sinnt flestum stöðum í leikskólum og lokið þeim námsgráðum sem ég get, fyrir utan doktorsgráðuna sem er næst á dagskrá, en hef ekki verið dugleg að sinna félaginu okkar. Undanfarin ár hafa þó orðað breytingar þar á og í dag er ég bæði í stjórn 1. deildar FL í Reykjavík og stjórn faghóps leikskólasérkennara svo því liggur beinast við að ég skoði stjórn FL. Mig langar til að kynnast starfsemi félagsins betur og vonandi getur mín þekking og reynsla nýst félagsmönnum.

Áherslur Ég geri mér ekki fulla grein hversu mikil áhrif stjórn eða meðlimir stjórnar hafa á stöðu leikskólakennara í landinu en með þátttöku minni langar mig að leggja mín lóð á vogarskálarnar að bæta umhverfi og aðstæður leikskólakennara. Ég er svo heppin að vinna í leikskóla þar sem er mikill fjöldi fagmenntaðra starfsmanna og finn hversu mikilvægt er að hafa góðan hóp leikskólakennara að vinna mér við hlið og hvernig það hefur styrkt mig sem fagmann og aukið ánægju mína í starfi. Því tel ég mikilvægast að efla fagvitund og vellíðan leikskólakennara í starfi og bæta starfsumhverfi þeirra umtalsvert.

Í dag er álag á kennara alltof mikið og við þurfum að vernda okkar fólk með bættri aðstöðu og stuðning svo þeir kennarar sem eru nú við störf brenni ekki út. Það þarf að auka virðingu fyrir starfinu okkar, bæta launakjör enn frekar og leita leiða til að efla áhuga fyrir leikskólakennaranámi. Þannig eflum við starfsánægju leikskólakennara og með sterkum hópi stoltra og ánægðra leikskólakennara hlýtur áhugi á námi og starfi að aukast og þá um leið faglegt starf sem styrkir enn frekar hópinn sem starfið okkar snýst um, leikskólabörnin.
 

Nafn: Sveinlaug Sigurðardóttir

Núverandi vinnustaður: Starfa við útikennslu í Krikaskóla í Mosfellsbæ

Aldur: 36 ára

Menntun: Leikskólakennari með B.Ed. próf frá KHÍ – útskrift 2006

Starfsreynsla / starfsferill:

 • 1 ár í leikskólanum Jörfa, 1 sumar í Sólborg og 1 sumar í Holtaborg – allt fyrir útskrift.
 • 1 ár sem leikskólakennari hjá Hjallastefnunni, í Hjalla Hafnarfirði.
 • 4 ½ ár sem deildarstjóri á elstu deild í Grænuborg, Reykjavík.
 • Var með í að „starta“ leikskólanum Ökrum, Garðabæ, frá grunni þegar hann opnaði, og starfaði sem deildarstjóri þar á eldri deild í tæp 3 ár.
 • Byrjaði sem deildarstjóri elstu deildar í Krikaskóla haustið 2014 en fór svo alfarið í útikennslu vorið 2015 og hef starfað við útikennslu þar síðan.

• Reynsla af störfum fyrir Félag leikskólakennara:

 • 3 ár sem fulltrúi FL í útgáfustjórn KÍ.
 • 3 ár sem trúnaðarmaður FL á vinnustað (Grænuborg).
 • 4 ár sem fulltrúi FL í leikskóladeild Norrænu kennarasamtakanna (NLS).
 • 4 ár sem fulltrúi FL í sameiginlegri skólamálanefnd FL og FSL.
 • Er núna fulltrúi í skólamálanefnd FL og hef verið síðustu 4 ár.

Sem fulltrúi í ýmsum trúnaðarstörfum fyrir FL og KÍ hef ég setið marga fræðslufundi, aðalfundi, ársfundi og þing hjá KÍ og FL ásamt því að taka að mér ýmsa vinnu innan félaganna sem og fyrir hönd félaganna út á við. Má þá t.d nefna: ritari á þingi KÍ, seta í hópi hjá Menntamálaráðuneyti til greiningar á aðgerðum til eflingar leikskólastigsins, þátttaka í fundi um mótun framtíðarsýnar leikskólans, seta í vinnuhópi til yfirlestrar og álitsgerðar á drögum að nýrri aðalnámskrá, slíta haustþingi, seta á fundum og fyrirlestrum á vegum Norrænu kennarasamtakanna (NLS) o.fl.

Af hverju býðurðu þig fram?

 • Af því ég hef brennandi áhuga á félagsstörfum og mjög gaman af vinnu fyrir stéttarfélagið.
 • Ég hef mikla ástríðu fyrir skólastarfi, störfum leikskólakennara ásamt uppeldi og menntun almennt.
 • Mér finnst félagsstörf FL gefandi fyrir mig sjálfa faglega en einng tel ég mig geta gert gagn fyrir félagið og félagsmenn.
 • Ég hef núorðið töluverða reynslu af félagsstörfum hjá FL, ásamt margra ára reynslu sem leikskólakennari/deildarstjóri á vettvangi, og ég held að reynsla mín geti nýst í stjórn FL og komið félagsmönnum til góða.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?

 • Ég brenn fyrir málefnum barna og legg mikla áherslu á vellíðan þeirra og góðan aðbúnað. Einnig tel ég leikskólakennara eina mikilvægustu stétt samfélagsins og tel að líðan okkar og aðbúnaður skipti sköpum. Því legg ég mikla áherslu á að beina sjónum að starfsumhverfi leikskólakennara sem einnig er námsumhverfi barnanna. Ég tel að eitt stærsta verkefni samfélagsins þessa dagana sé að hlú að starfsumhverfi kennara og stór þáttur í því er að bæta starfsumhverfi okkar leikskólakennara til muna. Með því á ég t.d. við aðbúnað í skólum okkar, vinnutíma, skipulag vinnutíma, fjölda barna pr. starfsmann, fjölda barna í rými o.fl.
 • Almenn velferð og vellíðan fólks er mér ofarlega í huga og því tel ég styttingu vinnuvikunnar sem lið í fjölskylduvænna samfélagi mjög mikilvægt baráttumál.
 • Ég legg mikla áherslu á frjálsan leik barna sem þeirra helstu námsleið og vil gjarnan halda mikilvægi frjálsa leiksins á lofti út á við. Og ég tel mikilvægt að standa vörð um frjálsa leikinn í leikskólanum og vil beita mér fyrir því.
 • Ég vil standa vörð um réttindi okkar leikskólakennara sem við eigum í stéttarfélaginu og stuðla að áframhaldandi góðum stuðningi FL við okkur félagsmenn sem þurfum á stuðningi og/eða styrk að halda frá félaginu okkar þegar eitthvað bjátar á. Bæði hvað varðar formleg atriði eins og t.d. veikindarétt, sjúkrastyrki o.þ.h. en einnig hvað varðar faglegt og andlegt „pepp“ þegar maður þarf á að halda.

• Annað?
Hér má finna grein sem ég skrifaði árið 2014, en hún ber heitið „Stoltur leikskólakennari“: http://www.visir.is/g/2014140719159
Sömu grein er einnig að finna inni á „Framtíðarstarfinu“, hér: https://framtidarstarfid.is/stoltur-leikskolakennari/

Nafn: Sverrir Jensson Dalsgaard
Núverandi vinnustaður: Heilsuleikskólinn Urðarhóll
Aldur: 43 ára

Menntun: Útskrifaðist 2005 sem "Professionsbachelor som Pædagog" frá Pædagogseminariet í Roskilde.

Starfsreynsla / starfsferill: Ég byrjaði að vinna með börnum 1997 í Höje Taastrup Kommune í Danmörku og vann í dægradvölum/grunnskólum fram til 2006.
Ég flutti aftur til Íslands 2006 og hef aðallega unnið á Heilsuleikskólanum Urðarhóli síðan þá.

Af hverju býðurðu þig fram?  Ég var kosinn í Samninganefnd 2014 og hef verið fulltrúi FL í vinnudeilusjóði á sama tíma. Það hefur verið áhugavert að vera í þessum störfum og ég finn að ég hef metnað til að starfa meira fyrir félagið. Þess vegna hef ég ákveðið að bjóða mig fram í stjórn.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri? Baráttan fyrir betri kjörum er mikilvægust. Ég veit að það þarf að fjölga leikskólakennurum, en það má ekki vera með skammtímalausnum eða á kostnað okkar sem nú þegar eru í starfi. Leikskólakennarar eru líklegastir allra háskólamenntaðra að sækja sér aðstoð hjá Virk og það er óviðunnandi. Ef það á að vera eftirsóknarvert að mennta sig sem leikskólakennari verður það að vera vegna þess að okkur líði vel í vinnunni og að álagið sé ekki of mikið.

Í því sambandi verðum við að vera sýnileg í fjölmiðlaumræðunni um kjör og aðbúnað leikskólakennara, þangað til að við setjumst aftur við samningaborðið og er það hlutverk stjórnar að sjá til þess.

Það er líka mín skoðun að atvinnurekendur eiga ekki að skipa fulltrúa í okkar lífeyris- eða vísindasjóð og mér finnst tími kominn til að breyta því.

 

 

 

Tengt efni