is / en / dk

15. Febrúar 2018

Starfshópur sem forsætisráðherra skipaði um málefni kjararáðs mælir með því að núverandi fyrirkomulagi á launaákvörðunum æðstu embættismanna verði gjörbreytt. Starfshópurinn segir launaákvarðanir kjararáðs ítrekað hafa skapað ósætti og leitt til óróa á vinnumarkaði. 

Þá hafi lögbundin viðmið kjaradóms og síðar kjararáðs verið óskýr og ósamrýmanleg. Gagnsæi og fyrirsjáanleika hafi skort og Alþingi hafi ítrekað hlutast til um endurskoðun úrskurða. Frá þessu er greint á vef forsætisráðuneytisins.

Í skýrslu starfshópsins er lagt til að hætt verði að úrskurða laun æðstu embættismanna eftir óskýrum viðmiðum – launafjárhæðir eiga að vera aðgengilegar og auðskiljanlegar almenningi og einnig þeim sem störfunum gegna. Starfshópurinn leggur til að laun æðstu embættismanna, í krónum talið, verði bundin í lög og þau endurskoðuð árlega og hækki þá í samræmi við þróun launa opinberra starfsmanna.

Starfshópurinn telur ekki fært að sett verði lög um afturvirka endurskoðun ákvarðana kjararáðs sem hefðu í för með sér endurgreiðslukröfu. „Meirihluti starfshópsins telur heldur ekki fært eða efnislegar forsendur fyrir því að lækka almennt laun þeirra sem eiga undir kjararáð til framtíðar. Meirihlutinn bendir á að ef laun þeirra verða óbreytt til ársloka 2018 myndi kjararáðshópurinn að meðaltali taka hækkunum sem ekki eru í ósamræmi við almenna launaþróun,“ segir jafnframt í frétt forsætisráðuneytisins.

Helstu röksemdir starfshópsins fyrir breyttu fyrirkomulagi eru að breytingar á launum æðstu embættismanna ríkisins verði ekki leiðandi. „Með því fyrirkomulagi að laun taki endurskoðun eftir að launaþróun næstliðins árs liggur fyrir er komið í veg fyrir ósamræmi á milli launaþróunar þeirra og annarra. Þróun á launum verður jafnari. Ekki mun koma til þess að endurskoðun dragist og hækkanir verði í stórum stökkum,“ segir á vef forsætisráðuneytisins.

Starfshópur forsætisráðherra var skipaður fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og velferðarráðuneytis, auk fulltrúa BSRB (sem var einnig fulltrúi BHM og KÍ), Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Skýrsla starfshóps um málefni kjararáðs.

 

 

Tengt efni