is / en / dk

17. Febrúar 2018

Kosið verður með rafrænum hætti og hefst kosning klukkan 12:00 mánudaginn 5. mars og lýkur klukkan 14:00 föstudaginn 9. mars 2018. 

Tvö eru í framboði til formanns; Guðmundur Björgvin Gylfason, framhaldsskólakennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands, og Guðríður Arnardóttir, núverandi formaður Félags framhaldsskólakennara.

Átta eru í framboði til stjórnar FF: Baldvin Björgvinsson (FB), Guðjón H. Hauksson (MA), Hanna Björg Vilhjálmsdóttir (BS), Helga Jóhanna Baldursdóttir (TS), Óli Njáll Ingólfsson (VÍ), Rannveig Klara Matthíasdóttir (Flensborg), Sigrún Lilja Guðbjörnsdóttir (MS), Simon Cramer Larsen (FS). Ný stjórn tekur formlega við á aðalfundi FF sem fram 26. til 27. apríl næstkomandi. Kjörtímabil er frá aðalfundi 2018 til aðalfundar 2022. 

Minnum á opinn framboðsfund í Gerðubergi klukkan 20 fimmtudaginn 22. febrúar. Frambjóðendur til formanns FF kynntu sig og áherslur sínar á opnum framboðsfundi í Gerðubergi að kvöldi 22. febrúar. Fundurinn var sendur út á vef Netsamfélagsins. Fundarstjórn annaðist Þórhallur Gunnarsson fjölmiðlamaður. 

HORFIÐ Á UPPTÖKU FRÁ FUNDINUM HÉR

 

Hér að neðan kynna formannsframbjóðendur sig og sínar helstu áherslur. 

Nafn: Guðmundur Björgvin Gylfason
Kennslugrein: Sérkennsla á starfsbraut
Skóli: Fjölbrautaskóli Suðurlands

Menntun:

 • Nám í húsasmíði, 1993
 • Lauk grunnskólakennaraprófi (B.Ed.) haustið 1999
 • Lauk námi í sérkennslu vorið 2009


Starfsreynsla:

 • Vann við smíðar að loknu námi í húsasmíði, keyrði einnig steypubíl og rútur á sumrin
 • Starfaði í þjónustuíbúðum fyrir fatlað fólk og varð síðar forstöðumaður þar
 • Starfaði við kennslu í grunnskóla í 11 ár sem umsjónarkennari, kenndi stærðfræði, samfélagsgreinar, smíði, heimilisfræði og sérkennslu
 • Hef starfað við kennslu á starfsbraut í Fjölbrautaskóla Suðurlands frá árinu 2009
   

Félagsstörf:

 • Sat í stjórn Kennarafélags Suðurlands (Félag grunnskólakennara á Suðurlandi)
 • Hef setið í stjórnum þriggja sjóða KÍ; Orlofssjóði, Vinnudeilusjóði og er nú varamaður í stjórn Sjúkrasjóðs
 • Frá árinu 2016 hef ég sinnt formennsku í Kennarafélagi Fjölbrautaskóla Suðurlands og verið trúnaðarmaður við sama skóla frá árinu 2014
 • Hef verið formaður Einstakra barna, barna með sjaldgæfa sjúkdóma og heilkenni frá árinu 2012. Auk þess sinnti ég formennsku í Umhyggju eitt kjörtímabil 2016-17.

 

Hvers vegna býður þú þig fram?
Ég vil með framboði mínu stuðla að lýðræðislegri vinnubrögðum og auka aðkomu félagsmanna að ákvarðanatöku um hagsmunamál. Einnig vil ég tryggja sjálfstæði FF innan KÍ samstarfsins, t.d. að Vísindasjóður renni ekki inn í sameiginlegan starfsmenntasjóð.
 

Helstu áherslur í kjara-, skóla- og félagsmálum:

 • Í kjara- og skólamálum er endurskoðun á vinnumati réttlætismál bæði hvað varðar kjör framhaldsskólakennara og framþróun í menntun á framhaldsskólastigi.
 • Krafa kennara er að fá tækifæri til þess að kjósa um framtíð vinnumatsins.
 • Mikilvæg kjaramál á alltaf að bera undir atkvæði félagsmanna, það mun ég gera nái ég kjöri.
  • Undirskrift forystu FF á svokölluðu september-samkomulagi vegna lífeyrismála gekk gegn samþykktum 6. þings KÍ árið 2014. Mörgum er spurn hvers vegna þetta mál fór ekki í allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna KÍ.
  • Samkomulag/framlenging kjarasamnings í október 2016 kom mörgum félagsmanni í FF á óvart. Forysta FF tók ákvörðun að félagsmönnum forspurðum um að framlengja kjarasamning um eitt ár. Telja má það nánast einsdæmi að stjórn taki slíka ákvörðun án þess að bera hana undir dóm félagsmanna í kosningu, svona vinnubrögð mun ég ekki viðhafa.
 • Krafa félagsmanna er að laun þeirra verði jöfnuð við almenna markaðinn, eins og samþykkt var á síðasta þingi KÍ ef til breytinga á lífeyriskjörum kæmi.
 • Þing KÍ og aðalfundir FF leggja línur og samþykkja framtíðaráherslur. Mikilvægt er að stjórn og formaður fylgi þessum samþykktum. Ég mun ekki ganga gegn vilja félagsmanna og samþykktum löglegra funda félagsins.
 • Í félagsmálum er nauðsynlegt að fara í nána skoðun á rekstri KÍ með sparnað og hagræðingu í huga og lækkun félagsgjalds í kjölfarið. Gagnsætt og opið bókhald er krafa félagsmanna og ég mun berjast fyrir því að það verði að veruleika.
 • Mikilvægt er að efla félagsdeildirnar enn frekar, sem og trúnaðarmannakerfið.
 • Auka þarf framboð á endur- og símenntun framhaldsskólakennara, bæði á og utan starfstíma skólanna. Efla verður samstarf félagsins við fagfélögin og háskólanna, með það að markmiði að standa fyrir fleiri og enn fjölbreyttari námskeiðum.
 • Enn þarf að fjölga námsleyfum til handa framhaldsskólakennurum.
 • Ég vil leita leiða til þess að virkja félagsmenn til þátttöku í starfi félagsins.


Að lokum:
Það er mjög mikilvægt að allir framhaldsskólakennarar taki þátt í kosningu formanns og stjórnar FF. Ný stjórn og formaður verða að fá óskorað umboð meirihluta félagsmanna til þess að leiða félagið næstu fjögur árin.

Framboðssíða mín á netinu.

Með kveðju frá Selfossi,
Guðmundur Björgvin 

Guðríður Arnardóttir formaður Félags framhaldsskólakennara

 • Ég hef lagt á það mikla áherslu að vera í góðum tengslum við félagsmenn og haft það markmið að heimsækja hverja félagsdeild að minnsta kosti einu sinni á ári. Ég vil tala við félagsmenn beint og milliliðalaust.
 • Ég hef lagt á það mikla áherslu að veita skjóta og góða þjónustu á skrifstofu félagsins og leiðarljósið er að verja hagsmuni félagsmanna og fara vel með þá fjármuni sem við höfum til ráðstöfunar.
 • Rekstur félagsins hefur verið til mikillar fyrirmyndar á kjörtímabilinu á sama tíma og bætt hefur verið í þjónustu við félagsmenn.
 • Ég tel mikilvægt að mennta og fræða forystufólk í stéttinni og höfum við í stjórn FF staðið fyrir fjölmörgum námskeiðum um stjórnsýslurétt, persónuvernd, fræðslu um einelti, áreiti, starfsmannaréttindi, upplýsingalög, samningatækni svo eitthvað sé nefnt.
 • Ég tel mikilvægt að Félag framhaldsskólakennara haldi sjálfstæði sínu innan KÍ en nýti sameiginlega þekkingu og reynslu sem þar er að finna.
 • Ég hef menntun og reynslu í samningamálum, bæði við kjarasamningagerð sem og aðra samningagerð. Við kennarar þekkjum það öðrum fremur að reynsla er dýrmætt veganesti.
 • Ég nálgast hlutina af jákvæðni og bjartsýni og tel mikilvægt fyrir sjálfsmynd okkar framhaldsskólakennara að við tölum okkur og stéttina upp. Þannig tel ég að maður nái bestum árangri, bæði innan og utan félags.
 • Ég bý enn yfir krafti og eldmóði til að takast á við verkefni komandi ára og er albúin að vinna áfram í þágu félagsmanna.Aldur: 47 ára jarðfræðingur, framhaldsskólakennari, stjórnsýslufræðingur
 

Menntun:

 • B.S. í jarðfræði
 • Diploma í kennslufræði
 • Diploma í opinberri stjórnsýsla og samningatækni
 • Diploma í viðskiptafræði og starfsmannastjórnun
 • Meistaranám – opinber stjórnsýsla og starfsmannastjórnun
   

Starfsreynsla / starfsferill

 • Formaður Félags framhaldsskólakennara frá 2014
 • Bæjarfulltrúi í Kópavogi 2006-2014
 • Varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga 2010-2014
 • Formaður nefndar um fyrstu aðgerðaráætlun Íslands gegn mansali
 • Fulltrúi Íslands í Evrópuráði sveitarstjórnarmanna og sat m.a. í nefnd sem mótaði aðgerðaráætlun Evrópuráðsins (One in five campaign) gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum
 • Fjölbrautaskólinn í Garðabæ 2004 – 2014: Kennari í eðlis- og efnafræði
 • Thorarensen Lyf: Markaðsstjóri Norpharma/Servier
 • Kögun: Hugbúnaðarsérfræðingur
 • Stöð 2 Veðurfréttir í sjónvarpi
 • Eiðfaxi: Blaðamaður og ritstjórnarfulltrúi
 • Hólabrekkuskóli Kennari í náttúrufræði og stærðfræði

Bloggsíða Guðríðar

Facebook-síða Guðríðar

Tengt efni