is / en / dk

25. Febrúar 2018

 

Níu bjóða sig fram í stjórn FSL. Félagar í FSL eru hvattir til að taka þátt í stjórnarkjörinu. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna Félags stjórnenda leikskóla fer fram dagana 7. til 12. mars. Kosnir verða sjö fulltrúar; fjórir aðalmenn og þrír varamenn. Níu gefa kost á sér í stjórnarkjörinu. Kjörtímabilið er fjögur ár, hefst á aðalfundi FSL í maí og stendur til aðalfundar 2022. Frambjóðendur eru Guðný Anna Þóreyjardóttir, Gyða Guðmundsdóttir, Halldóra Guðmundsdóttir, Hildur Arnar Kristjánsdóttir, Hulda Jóhannsdóttir, Jónína Hauksdóttir, Lena Sólborg Valgarðsdóttir, Sigrún Jónsdóttir og Vigdís Guðmundsdóttir. 

Kosið verður í önnur trúnaðarstörf innan FSL á aðalfundi félagsins á vordögum; svo sem samninganefnd, skólamálanefnd, framboðsnefnd, kjörstjórn, fulltrúa í stjórn Vísindasjóðs og skoðunarmenn reikninga. Þeir sem hyggjast gefa kost á sér í þessi embætti eru beðnir að senda tilkynningu þess efnis á netfangið frambodsnefndfsl@ki.is.

 

HÉR AÐ NEÐAN KYNNA FRAMBJÓÐENDUR SIG, STEFNUMÁL OG ÁHERSLUR:  

Nafn: Guðný Anna Þóreyjardóttir

Núverandi vinnustaður: Leikskólinn Austurkór

Aldur: Á 46 aldursári – fædd í september 1972…

Menntun: Útskrifaðist úr Fóstruskóla Íslands 1997. Útskrifaðist með diplómu í stjórnun menntastofnana 2006. 

Ég býð mig fram í stjórn FSL fyrst og fremst vegna áhuga. Ég hef reynslu af því að starfa að stéttar- og félagsmálum – bæði fyrir FL og KÍ. Ég sat í stjórn II. deildar FL fyrir þó nokkuð mörgum árum (bæði sem stjórnarmaður og formaður) og sit nú mitt annað tímabil í vinnuumhverfisnefnd KÍ. Einnig hef ég verið í nefndum tengdu kynningarstarfi o.fl. og sit í stjórn Faghóps leikskólakennara um skapandi skólastarf. En ég hef lítið starfað beint fyrir félagið okkar – FSL …og mig langar til þess.

Ef ég næ kjöri þá mun ég leynt og ljóst vinna í og tala fyrir breytingu á uppbyggingu FSL og annarra aðildarfélaga í KÍ. En ég er þeirrar skoðunar að fækka eigi aðildarfélögum og sameina í stærri. Ég trúi því að ef skólastjórnendur leik- og grunnskóla sameinist í eitt stjórnendafélag þá vinni félagafjöldinn með okkur sem vogarafl að bættum kjörum því ekki getum við beitt verkfallsvopninu. Að innan KÍ verði (með tíð og tíma) eitt stjórnendafélag og eitt kennarafélag…sömu samningar – sama virðing – sama starfsumhverfi.

Starfsumhverfi stjórnenda er mér líka hugleikið og ég tel afar mikilvægt að skapa umræðugrundvöll fyrir hugmyndir félagsmanna að leiðum til breytinga. Einkum og sér í lagi þeim sálfélagslegum áhættuþáttum sem fylgja starfinu. Við þurfum að halda áfram á svipaðri braut og fráfarandi stjórn – bjóða upp á fræðslu sem styrkir og bætir okkur sem stjórnendur. En við þurfum líka að skoða hvernig félagið getur styrkt og stutt við félagsmennina vegna utanaðkomandi aðstæðna sem geta haft gríðarleg áhrif á starfsumhverfið okkar. Það er mikilvægt að hafa „grænu hliðina“ uppi og vera í lausnaleitinni en það er ekki minna mikilvægt að vita hvar þolmörkin liggja og hvenær nóg er nóg.

Annað: Notaðu atkvæðið þitt – mundu að kjósa….Þú og ég ( og allir hinir) erum þetta félag smiley

Nafn: Gyða Guðmundsdóttir

Núverandi vinnustaður: Leikskólinn Borg, Reykjavík

Aldur: 43 ára

Menntun: B.ed. í leikskólakennarafræðum og Dipl.ed. í stjórnun menntastofnana

Starfsreynsla / starfsferill:

 • 2002 deildastjóri í Múlaborg
 • 2004 Aðstoðarleikskólastjóri í Múlaborg
 • 2008 Aðstoðarleikskólastjóri í Völvuborg
 • 2010 Aðstoðarleikskólastjóri í Holti, Fellaborg og Völvuborg sameinað
 • 2017 Leikskólastjóri í Borg

Af hverju býðurðu þig fram?
Ég hef einlægan áhuga á málefnum félagsmanna eins og starfsumhverfi og stuðningi við stjórnendur, launaþróun, fagþróun kennara sem og leikskólaumhverfinu öllu. Ég hef verið samráðsfulltrúi fyrir Reykjavík í nokkur tímabil og var á síðasta kjörtímabili einnig 3. varamaður í stjórn. Þrátt fyrir að starfa í Reykjavík hef ég mjög sterkar taugar til landsbyggðarinnar enda uppalin á Vestfjörðum. Mig langar til að hafa áhrif á starf félagsins og kjör félagsmanna og tel mig hafa það sem þarf til þess.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?
Áherslur mínar verða á bætt starfsumhverfi, starfsþróun og síðast en síst launaþróun félagsmanna.

Nafn: Halldóra Guðmundsdóttir
Vinnustaður: Leikskólinn Drafnarsteinn
Titill: Aðstoðarleikskólastjóri
Aldur: 44 ára
Menntun:
B-Ed í leikskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands, er einnig búin með 30 einingar í mastersnámi í stjórnum menntastofnana.

Starfsreynsla/ferill: 
Ég hef starfað í sama leikskólanum, Dvergasteini, frá því ég útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999. Ég hef starfað á öllum deildum leikskólans, fyrst sem leikskólakennari á elstu deild, svo varð ég deildarstjóri yngstu barnanna og að lokum deildarstjóri á miðdeild þar til ég fór í ársleyfi. Í þessu leyfi leysti ég leikskólastjóra af í ungbarnaleikskólanum Ársól veturinn 2010-2011. 

Sumarið 2011 voru leikskólarnir Dvergasteinn og Drafnarborg sameinaðir og hef ég starfað síðan þá sem aðstoðarleikskólastjóri í 100% stjórnun, sameinaðs leikskóla, Drafnarsteins.

 • Verkefnisstjóri Comeniusarverkefnis í Dvergasteini 2008-2010
 • Verkefnisstjóri Grænfánaverkefnis Landverndar í Drafnarsteini.
 • Leiddi samstarfsvinnu um gerð eineltisáætlun fyrir leikskóla Vesturbæjar „Virðing í Vesturbæ“.
 • Ég útbjó „Hugmyndabanka Sleipnis“ fyrir kennara ásamt kollega mínum fyrir Vetrarævinýri Sleipnis, sem er saga eftir Gerði Kristnýju og var unnin fyrir Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO að því markmiði að auka lestrargleði og lestur.
 • Sat í samstarfsnefnd í þrjú ár í Vesturgarði þvert á allar stofnanir í Vesturbæ um velferð og forvarnir fyrir börn og unglinga.
 • Sat sem áheyrnarfulltrúi í leikskólaráði Reykjavíkurborgar og svo seinna fyrir skóla- og frístundarsvið.
 • Var í vinnuhópi kennara um hvað mætti gera til að hvetja til iðnmenntunar á vegum Reykjavíkurborgar.
 • Var varamaður í skólamálaráði Menntaskólans í Kópavogi í fjögur ár.
 • Sem foreldri hef ég oft verið bekkjarfulltrúi og svo formaður foreldrafélags Hagaskóla í tvö ár.
 • Innan Kennarasambandsins felst reynsla mín í trúnaðarmannastörfum í mörg ár, sem formaður 1.deilar FL, í samninganefnd FL, varamaður í stjórn FSL og er nú í stjórn FSL og skólamálanefnd FSL.
 • Hef verið fengin af Rauða krossinum sem ráðgjafi vegna móttöku hælisleitenda í skólum og hef setið í nefnd (fyrir hönd KÍ) vegna réttinda barna í hælisleit til skólavistar.

Ég er formaður AFS á íslandi, sem eru alþjóðleg, sjálfstæð félagasamtök, sem vinna markvisst að því að tengja saman menningarheima. Samtökin bjóða upp á námstækifæri tengd menningarlæsi með það að markmiði að vinna að réttlátari og friðsamari heimi. Ég hef unnið sem sjálfboðaliði hjá AFS samtökunum meira og minna síðan ég var sjálf skiptinemi í Brasilíu árið 1991. Samtökin vinna með grunn-og framhaldsskólum landsins.

Af hverju? Ég hef mikla reynslu af félagsstörfum bæði í FL og FSL, sem og hjá öðrum félögum, sem hafa snúist um skóla, menntun og samfélag. Ég tel að við séum á tímamótum mikilla breytinga í FSL sem og öllu kennarasambandinu, sem mér finnast spennandi og langar til að taka þátt í þeim.

Hvað ætla ég að gera? Ég hef áhuga á því að finna leiðir til að gera kennarastarfið ásóknarvert, þar þarf að vinna með ímynd og virðingu stéttarinnar. Mér finnst mikilvægt að stuðla að betri líðan kennara og barna í leikskólunum, þar þarf að vinna með starfsaðstæður, álag og aukin fjölbreytileika og samfélsagslega breytinga. Leikskólastjórnendur þurfa aukin stuðning við þau fjölda ólíkra verkefna og ábyrgð. Það má svo ekki gerast oftar að stjórnendur séu undir í launum undirmanna þeirra.

Ég bý í Vesturbæ Reykjarvíkur með börnunum mínum tveimur. Valþóri Reyni 17 ára, á öðru ári í Kvennaskólanum í Reykjavík og Rannveigu Ethel 11 ára, í 6.bekk í Melaskóla.

 

Hildur Arnar Kristjánsdóttir. 

Starfsferill
Ég hef starfað sem aðstoðarleikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Hamravöllum í Hafnarfirði frá hausti 2014. Þar áður starfaði ég sem deildarstjóri í sama leikskóla frá hausti 2010. Áður hef ég unnið sem ófaglærður starfsmaður á leikskóla. Einnig hef ég góða reynslu af störfum við bókhald.

Menntun
Ég lauk B.Ed gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands vorið 2006 og viðbótardiplómanámi í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun frá Háskóla Íslands vorið 2017. Ég er með leyfisbréf sem leikskólakennari.

Ástæða framboðs
Ég hef mikinn áhuga á uppeldis- og menntamálum og í dag eru mér sérstaklega hugleikin málefni er varða framtíð leikskólamála á Íslandi. Ég brenn fyrir því að gera leikskóla að eftirsóttum stað þar sem starfsfólk og börn geta blómstrað og þroskast í sameiningu.

Helstu baráttumál mín eru starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólum og mun ég þar einkum horfa til viðverutíma barna, vinnuskyldu starfsfólks, fjölda barna í rými, fjölda barna pr. starfsfólk o.fl.

Ég lít á setu í stjórn FSL sem tækifæri til að hafa áhrif á framtíðina og koma góðu til leiðar. Ég mun leggja mig fram við að starfa af heilindum í þágu viðkomandi aðila með sanngirni að leiðarljósi. Ég er óhrædd við að segja sannleikann og láta mínar skoðanir í ljós.

Einkalífið
Ég er gift tveggja barna móðir og bý í Hafnarfirði. Ég hef áhuga á ferðalögum og heilbrigðu líferni.

Virðingarfyllst,
Hildur Arnar Kristjánsdóttir

Kynning á pdf-formi. 

Nafn: Hulda Jóhannsdóttir leikskólastjóri
Núverandi vinnustaður: Heilsuleikskólinn Krókur
Aldur: Ég er 55 ára

Menntun

 • Lauk Dipl.ed. í stjórnun menntastofnana og öðlaðist leyfisbréf í grunnskóla 2010
 • Lauk prófi frá Fósturskóla Íslands 1989
 • Nám og útskrift í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur 1983 – 1984
 • Nám á uppeldisbraut í Reykholti (útibú frá fjölbrautarskóla Akraness) 1979 – 1981

Starfsreynsla / starfsferill

VIÐ UPPELDI, MENNTUN OG STJÓRNUN:

 • Tók þátt í að opna Heilsuleikskólann Krók árið 2000 og starfa þar enn
 • Starfaði sem umsjónakennari í 1. og 2. bekk við grunnskólann í Grindavík 1999-2000
 • Starfaði sem fritids pædagog á frístundaheimili í Sönderborg í Danmörku 1997-1999
 • Var deildarstjóri við leikskólann Laut í Grindavík 1989-1997
 • Starfaði sem forstöðumaður Gæsluvallar í Grindavík sumrin 1987-1989.
 • Starfaði sem íþróttakennari/leiðbeinandi við grunnskóla Vopnafjarðar 1982-1983

FYRIRLESTRAR OG NÁMSKEIÐ:

 • Hef haldið fyrirlestra og námskeið um leikskólamál
 • Tekið þátt í að skipuleggja og stjórna ráðstefnum hjá leikskólum og hjá FSL
 • Haldið fyrirlestra um leikskólamál ýmiskonar bæði á ráðstefnum, hjá stjórnendafélögum s.s. Stjórnvísi, sveitarfélögum og í leik- og grunnskólum, s.s. um jafnrétti, heilsueflingu í skólasamfélaginu, lífsleikni, umhverfismennt/vernd, núvitund, jákvæð samskipti og viðhorf, góða viðveru, næringu í leikskóla o.fl.
 • Farið á námskeið í uppeldis- og menntunarfræðum ýmiskonar, viðtalstækni, tölvutækni, námskrárgerð, menntun til sjálfbærrar þróunar, stjórnun, í sveitarstjórnarmálum, heilsueflandi vinnustaður, orkustjórnun, vinnuvernd, verkefnastjórnun, jóga, hagnýting jákvæðrar sálfræði, sjálfrækt o.fl.
 • OPINBER TRÚNAÐARSTÖRF
 • Starfað í stjórnmálum 1986-2012. Setið í umhverfisnefnd, menningarnefnd, húsnæðisnefnd og félagsmála- og barnaverndarnefnd hjá Grindavíkurbæ, formaður í tveimur síðustu
 • Bæjarfulltrúi 1986 – 1987
 • Kosningastjóri í þremur kosningum bæði í sveitarstjórnar- og þingkosningum.
 • Starfað sem trúnaðarmaður í samninganefnd Félags leikskólakennara og formaður og varaformaður í skólamálanefnd Félags stjórnenda í leikskóla
 • Varaformaður í Samtökum heilsuleikskóla

ÝMIS STJÓRNUNAR OG NEFNDARSTÖRF

 • Unnið tvisvar sinnum í nefnd á vegum Landlæknisembættisins um endurmat á Handbók um leikskólaeldhús
 • Er í starfshópi um geðræk í leikskóla á vegum Landlæknisembættisins
 • Starfað í rannsóknarteymi um Menntun til sjálfbærni á vegum HÍ og HA
 • Haldið fjölmörg námskeið og fyrirlestra um starfsmannamál, heilsustefnu, viðverustefnu, samskipti og núvitund í leikskóla
 • Tekið þátt í að skipuleggja um 6 ráðstefnur um leikskólamál
 • Tekið á móti hundruðum innlendra og erlendra kennara og skólastjórnenda í Heilsuleikskólann Króki
 • Tekið þátt í og/eða stjórnað skipulögðu styrkveittu þróunarstarfi í leikskólanum


Af hverju býðurðu þig fram?
Ég hef starfað sem fulltrúi í skólamálanefnd FSL frá stofnun félagsins 2011 og gef nú kost á mér í stjórn því ég hef hug á að hjálpa til við að lyfta starfi leikskólans sem menntastofnunar og starfi skólastjórnenda í leikskólum til enn meiri virðingar. Ég hef brennandi áhuga á málefnum Félags stjórnenda leikskóla og er tilbúin í að leggja mitt af mörkum til að gera félagsmenn sterkari saman. Ég tel að það sé nóg komið af skýrslum og vinnuhópum og nú þurfi að fá fjármagn í menntun og fara að framkvæma. Allar stofnanir sem koma að stjórnun og fjármögnun menntunar þurfa að sameinast um að bæta starfsumhverfi leikskólans og hlúa að bæði börnum og starfsmönnum. Mig langar líka að hafa áhrif á það að félagsmenn innan KÍ líði vel í starfi og segi frá því með stolti að þeir taki þátt í uppeldi og menntun þjóðarinnar, sem er eitt mikilvægasta starf samfélagsins.
 

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?
Mér er velferð, forysta og starfsþróun stjórnenda hugleikin og langar að beita mér fyrir því að efla stoðkerfi félagsins sem gerir okkur kleift að huga vel að þessum þáttum. Einnig er mjög mikilvægt að bæta kjör og starfsumhverfi félagsmanna jafnt sem barna.

Ég legg áherslu á:

 • Að setja velferð og vellíðan barna og starfsmanna í leikskólum í forgang
 • Að berjast fyrir því með FL að fækka börnum í rýmum með tilliti til velferðar
 • Að starfsþróunar- og sjúkrasjóður kennara og stjórnenda í leikskólum verði efldur
 • Að bæta vinnuaðstöðu stjórnenda og kennara í leikskólum
 • Að staða ritara verði fest í stærri skólum
 • Lágmarks undirbúningur verði skilgreindur á deildar miðað við fjölda barna og þá umfangs foreldrasamstarfs og starfsmannahalds


Annað?
Ég aðhyllist hugmyndafræði um jákvæða skólamenningu og tel margt hægt að gera til að bæta framtíð leikskólans sem stað fyrir börn og kennara að læra og lifa saman í sátt og samlyndi.
Ég geri mér grein fyrir því að mín áherslumál eru ekki eingöngu á könnu FSL að leysa og tel því mjög mikilvægt að fulltrúar innan KÍ vinni saman að því að bæta kjör og starfsumhverfi félagsmanna og einnig að efla þá sem jákvæða talsmenn okkar allra.

Fésbókarsíða
https://www.facebook.com/hulda.johannsdottir.1

 

Jónína Hauksdóttir 48 ára skólastjóri við leikskólann Naustatjörn á Akureyri.

Ég útskrifaðist úr Fósturskóla Íslands 1993 og frá HA 2003 með með diplómu í stjórnun menntastofnana. Ég hef starfað samfellt frá útskrift við tvo leikskóla á Akureyri, frá 1993 til 2003 við leikskólann Árholt og frá 2003 til dagsins í dag við leikskólann Naustatjörn og hef verið í starfi skólastjóra frá hausti 1997. Ég hef bæði reynslu af því að stýra 2 deilda leikskóla upp í 6 deilda leikskóla sem búið er að stækka tvisvar og ég var svo heppin að fá að opna Naustatjörn og fá að móta starfið þar með samstarfsfólki mínu.

Ég hef brennandi áhuga á félagsstörfum og hef mikinn metnað fyrir hönd félagsins og okkar félagsmanna. Ég hef setið í samninganefnd FSL frá 2010 og á þeim tíma fengið innsýn inn í hvað felst í störfum stjórnar. Ég er tilbúin til að takast á við ný og krefjandi verkefni og því ákvað ég að bjóða mig fram til stjórnar FSL og vinna á þann hátt í þágu félagsmanna. Einnig tel ég mikilvægt að í stjórn FSL séu fulltrúar af landsbyggðinni þannig að sem ólíkust sjónarmið komi fram. Ég er dugleg, drífandi, lausnamiðuð, jákvæð og hæfilega ákveðin og tel að þessir eiginleikar nýtist í starfi fyrir félagsmenn FSL.

Mér þykir mikilvægt að leikskólinn sé metnaðarfull stofnun þar sem ríkir fagmennska og virðing til starfsins, samkennara og barna. Ég legg áherslu á velferð barna og kennara, að leikskólinn bjóði upp á sem bestu námsaðstæður fyrir börnin og sem bestu starfsaðstæður fyrir kennara. Ein af þeim leiðum til að ná þessu fram er að auka rými fyrir hvert barn sem þýðir færri börn á hvern kennara. Með því að skapa slíkar aðstæður léttir það á krefjandi starfi stjórnenda. Jafnframt tel ég mikilvægt að vinna að styttingu vinnuvikunar fyrir bæði börn og kennara og vil að sú umræða fái rými í næstu kjaraviðræðum.

Lena Sólborg Valgarðsdóttir
Starf: Aðstoðarleikskólastjóri í leikskólanum Miðborg, Reykjavík
Aldur: 36 ára

Menntun
Ég útskrifaðist árið 2009 með B.Ed. í leikskólakennarafræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Nú er ég að leggja lokhönd á M.Ed. nám í Námi og kennslu yngri barna við sama skóla og stefni á útskrift í vor.

Starfsreynsla/ starfsferill
Áður en áhuginn á leikskólafræðum vaknaði starfaði ég meðal annars í Kaupfélagi V- Húnvetninga, IKEA og á fæðingardeild Landspítalans. Áhuginn kviknaði í leikskólanum Arnarsmára í Kópavogi og þaðan var haldið í nám.

Eftir útskrift hef ég starfað sem leikskólakennari, deildarstjóri og aðstoðarleikskólastjóri í leikskólunum Ösp, Garðaborg og nú í Miðborg.

Skólaárið 2013 – 2014 var ég starfsmaður Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna (RannUng).

Á árunum 2013 – 2017 sat ég í stjórn Samtaka áhugafólks um skólaþróun.

Þá var ég þátttakandi í starfendarannsókninni Leikum, lærum, lifum og birtust niðurstöður hennar í samnefndri bók árið 2016.

Af hverju býðurðu þig fram?
Ég býð mig fram því ég hef áhuga á félagsstörfum innan KÍ og tel að kraftar mínir væru vel nýttir þar. Mig langar að vera gerandi í því að bæta umhverfi okkar og barnahópsins. Ég hef áhuga á hlutverki stjórnenda sem faglegir leiðtogar og hlutverki í starfsþróun.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?
Ég mun beita mér fyrir bættum kjörum og vinnuaðstöðu. Ég mun leggja áherslu á að finna leiðir til að minnka streitu og álag sem getur fylgt stjórnunarstarfinu.

Nafn: Sigrún Hulda Jónsdóttir
Núverandi vinnustaður: Heilsuleikskólinn Urðarhóll
Aldur: 46 ára
Menntun: Leikskólakennari 1994. Diploma í Stjórnun menntastofnanna 2006

Starfsreynsla / starfsferill
Hóf minn starfsferil sem deildarstjóri í leikskólanum Leikskálar á Siglufirði 1994-1995. Haustið 1995 byrjaði ég sem leikskólakennari í Skólatröð Í Kópavogi, fyrst sem leikskólakennari svo deildarstjóri og síðast aðstoðarleikskólastjóri til ársins 2006. Á þeim árum lauk ég diplómu í Stjórnun menntastofnana og öðlaðist einnig réttindi til kennslu á grunnskólastigi. Hóf störf í Vatnsendaskóla 2006 sem umsjónakennari í 3 – 4 bekk einn vetur. Líkað það vel en leikskólinn átti hug minn allan, því þar slær hjarta mitt. Árið 2007 tók ég við starfi leikskólastjóra í Heilsuleikskólanum Urðarhóli sem ég gegni enn.

Af hverju býðurðu þig fram?
Reynsla mín og þekking á leikskólastarfi mun nýtist vel til að bæta umhverfi barna, kennara og stjórnenda í leikskólum. Þá vil ég sérstakalega horfa til álags, fjölda barna á deildum og viðverutíma.
Sú þróun sem hefur átt sér stað á breyttum aðstæðum barna innan leikskólans hefur meira þróast út frá þörfum og réttindum foreldra í stað barna.
Áfram þarf að vinna í að fjölga kennurum í leikskólafræðum. Svo það gangi vel þarf að ráðast á rót vandans sem m.a. eru aðstæður innan skólanna, bætt launakjör, minnka álag, fjölga undirbúningstímum kennara og skilgreina sí og endurmenntun sem part af dagvinnu. Við þurfum hæft fólk í allar stöður innan leikskólans.

Við í FSL þurfum að bæta kjör og aðstæður félagsmanna þar sem okkar kjör hafa setið á hakanum miðað við launaþróun stjórnenda á almenna vinnumarkaðnum.
FSL og FL þurfa að tala meira saman til að efla okkur í baráttunni um að bæta starfsaðstæður innan skólanna. Starf leikskólastjóra verður auðveldara ef leikskólar eru fullmannaðir af leikskólakennurum.

Félögin þurfa að tala saman og standa undir slagorðinu tvö félög ein rödd.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?
Leggja áherslu á að laga leikskólaumhverfið þannig að við fáum fleiri einstaklinga sem hafa áhuga og metnað fyrir leikskólakennarastarfinu.
Bæta starfsaðstæður barna, kennara og stjórnenda.

Fleiri undirbúningstímar, fleiri skipulagsdaga, auka vægi sí- og endurmenntunar í dagvinnu. Samfélagslegt samtal um að stytta viðveru barna og kemur þar sterklega inn stytting vinnuviku.

Annað?
Mér er umhugað um að geta elst vel í starfi, því leikskólastarf er í mínum huga það mest gefandi starf sem ég gat valið mér. Til að svo megi verða þarf að laga aðstæður innan leikskólans, svo kennarar og stjórnendur hans verði ekki áfram stór hópur innan VIRK starfs -endurhæfingar.

Nafn: Vigdís Guðmundsdóttir.

Núverandi vinnustaður: Leikskólinn Rjúpnahæð

Aldur: Ég er fædd 16. júní 1974

Menntun: Ég er stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1995. Útskrifaðist sem leikskólakennari 1999 og sem grunnskólakennari 2005. Lauk M.Ed. í stjórnun menntastofnana frá HÍ 2010 með lokaritgerðinni „Að bera kennsl á kynferðisofbeldi hjá börnum á leikskólaaldri. Hvernig taka leikskólastjórar á málefninu í starfi?”

Starfsreynsla / starfsferill: Eftir útskrift starfaði ég sem deildarstjóri í Leikskólanum Múlaborg og leysti þar af sem aðstoðarleikskólastjóri í nokkra mánuði. Hóf störf í Leikskólanum Rjúpnahæð í Kópavogi 2002 sem aðstoðarleikskólastjóri og hef einnig leyst af sem leikskólastjóri þar.

Af hverju býðurðu þig fram?
Ég hef brennandi áhuga á velferð og framþróun stéttarinnar okkar og býð mig nú fram í annað sinn í stjórn FSL því ég tel að kraftar mínir og reynsla í þágu félagsins séu engan veginn fullnýttir. Mín sýn er að forystan okkar þarf að vera sterk, vinna vel saman og að í henni séu fulltrúar allra hópa félagsins sem saman vinna ötullega að hagsmunum allra félagsmanna. Það eru mörg krefjandi og spennandi verkefni framundan sem við þurfum að vera samtaka og einhuga um til að ná fram sem bestum árangri, t.d. í kjaramálum, faglegri þróun, og bættum starfsaðstæðum sem skilar sér beint til barnanna okkar, í námi þeirra, þroska og velferð.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?
Laun og starfsskilyrði okkar eru efst á baugi í áherslumálum mínum, ég tel þetta eitt af lykilatriðunum til að halda í okkar góða fagfólk og auka nýliðun í stéttinni okkar. Ábyrgð, auknar kröfur til fagmennsku, framþróunar og framhaldsnám á háskólastigi eiga vera ávísun á sambærileg laun og á hinum almenna vinnumarkaði.

Mikil þróun á sér stað í leikskólum og tel ég að við þurfum að vera í fararbroddi í að efla nútíma kennsluhætti og bjóða kennurum og nemendum jöfn tækifæri í leikskólum landsins. Til að standa vörð um leikinn og virða rétt barnsins þurfum við að bæta starfsumhverfið því við viljum halda í það góða faglega starf sem fram fer hjá okkur. Þannig byggjum við upp einstaklinga sem hafa frelsi til að velja og hafna og láta skoðanir sínar í ljós. Við þurfum leikskólakennara sem eru stoltir af starfi sínu, framsæknir og með jákvætt hugarfar því þá náum við lengra, aukum starfsánægju og vekjum athygli út á við og drögum fleiri inn í stéttina okkar. Til að ná þessu fram vil ég berjast fyrir bættum kjörum, betra starfsumhverfi og auknum skilningi í samfélaginu á mikilvægi okkar sem skilar sér í auknum stuðningi við okkur leikskólakennara, því það er staðreynd að skortur á leikskólakennurum er mikill. Ég tel einnig að öflug skólaþróun og fjölbreytni í endurmenntun styrki okkur enn frekar og stuðli að betri líðan í starfi.

Annað
Það er ótrúlegt að nú þegar séu fjögur ár liðin og kjörtímabilinu að ljúka. Ég hef setið m.a. sem fulltrúi okkar í framkvæmdastjórn KÍ, tekið þátt í að skipuleggja námstefnuna okkar í sveitinni, tekið þátt í nokkrum samningaviðræðum og setið aðalfundi og ársfundi. Ég hef lært ótrúlega margt og við höfum náð töluverðu fram en eins og máltækið segir - betur má ef duga skal.
Mér finnst mjög mikilvægt fyrir okkur í FSL sem eitt af aðildarfélögum KÍ að vinna í takt við hin félögin því saman erum við sterkari og getum eflt stétt okkar allra með jákvæðri ímynd, faglegri forystu sem er full af fróðleik og þekkingu sem býr í okkur öllum.
Ég vil vera hluti af sterkri og sýnilegri stjórn fyrir okkur öll sem hlustar á raddir allra félagsmanna og stuðlar að samvinnu sem leiðir til jákvæðrar ímyndar og bættra kjara okkar allra.

Ég hlakka til að takast á við spennandi og krefjandi verkefni með ykkur hljóti ég kosningu.

 

 

Tengt efni