is / en / dk

16. Apríl 2018

Samninganefnd Félags grunnskólakennara ætlar að verða við ósk nýkjörinnar samninganefndar, sem tekur formlega við á aðalfundi félagsins 18. maí næstkomandi, um að koma formlega að kjaraviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga. Núverandi samninganefnd hefur farið þess á leit við nýju nefndina að hún myndi fimm manna viðræðunefnd sem taki við viðræðum við samninganefnd Sambandsins. Þessi ráðstöfun tekur gildi um leið og þær upplýsingar liggja fyrir og hafa verið tilkynntar samninganefnd Sambandsins. Heimildin nær ekki til annarra þátta í starfsemi FG.  

Þetta kemur fram í bréfi sem Ólafur Loftsson, formaður FG, sendi félagsmönnum fyrr í dag. Í bréfinu segir að „nýrri viðræðunefnd verða skapaðar eðlilega vinnuaðstæður til að geta rækt hlutverk sitt. Í því felst t.d. greiðslur fyrir fundarsetu, greiðsla ferða- og fundarkostnaðar og annað sem nauðsynlega þarf til kjaraviðræðna."

Þá segir í bréfinu að ekki sé um að ræða framsal á eiginlegu samningsumboði enda sé slíkt ekki hægt samkvæmt lögum KÍ og FG. „Leiði viðræður nýrrar viðræðunefndar til niðurstöðu nýs kjarasamnings mun núverandi samninganefnd tryggja eðlilegan framgang þess kjarasamnings og gera viðtakandi samninganefnd kleift að kynna samning, láta fram atkvæðagreiðslu o.s.frv.“

 

 

 

Tengt efni