is / en / dk

12. Júní 2018

Fulltrúar sextán samtaka, stofnana og félaga komu saman til fundar í gær til þess að ræða hvernig fylgja megi eftir þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur í kjölfar #metoo byltingarinnar þegar konur stigu fram og afhjúpuðu stöðu kvenna á vinnumarkaði og stöðu þolenda kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni ásamt öðru ofbeldi. Ákveðið var á fundinum að efna til samstarfs um framhaldið. 

Á fundinum, sem fór fram í húsakynnum Alþýðusambands Íslands, var rætt um þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til og möguleika til samstarfs varðandi næstu skref. Fundarfólk var sammála um að forgangsraða aðgerðum og vinna að því að koma þeim til framkvæmda. 

Áhersla verður lögð á samvinnu og úrbætur sem geta nýst sem flestum á vinnumarkaði, til dæmis með gerð fræðsluefnis og með því að vinna leiðbeiningar um hvernig bregðast eigi við áreitni og ofbeldi á vinnumarkaði.

Þeir sem taka þátt í samstarfinu eru Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bjarkarhlíð – miðstöð þolenda ofbeldis, BSRB, Félag forstöðumanna ríkistofnana, Félag kvenna í atvinnulífinu, Jafnréttisstofa, Kennarasamband Íslands, Kjara- og mannauðssýsla ríkisins, Kvenréttindafélag Íslands, Mannauður – félag mannauðsfólks, Samband Íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Sálfræðingafélag Íslands, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK starfsendurhæfingarsjóður. 


Tengdar fréttir og hlekkir: 

#metoo konur: Hustum á konur, lögðum samfélagið. (frétt 17. apríl 2018)

Hvað getum við gert? – samtal við #metoo konur (frétt 10. febrúar 2018)

Samtal við #metoo konur – hvað getum við gert? (Skýrsla um niðurstöður fundarins 10. febrúar 2018). 

Tekið verði á kynferðislegu ofbeldi innan menntastofnana (frétt 21. desember 2017)

Rjúfum þögnina!

Tengt efni