is / en / dk

13. október 2018

Ársfundur Skólastjórafélags Íslands, sem fram fór í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í morgun, mótmælir því harðlega að framhaldsmenntun skólastjórnenda skuli ekki metin til jafns við undirmenn þeirra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktunum ársfundarins. 

Þá mótmælir ársfundurinn því harðlega að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga skuli ekki meta starfsreynslu við kennslu þegar kennarar eru ráðnir til stjórnunarstarfa í grunnskólum.

„Sérstaklega er þetta athyglisvert í ljósi þess, að við ráðningar í störf skólastjórnenda í grunnskólum, er kennslureynsla ávallt talin kostur eða skilyrði. Í ljósi þessa er það algjörlega óásættanlegt að starfsreynsla við kennslu skuli ekki metin sem ávinningur við launaröðun þegar kennarar ráða sig sem skólastjórnendur við grunnskóla," segir í ályktun fundarins. 

Ársfundurinn gerir jafnframt alvarlegar athugasemdir við störf og viðhorf samninganefndar sveitarfélaganna enda sé ljóst að skólastjórnendur hafi dregist verulega aftur úr í launum á undanförnum árum. Dæmi séu um að launamunur skólastjórnenda og kennara í sömu skólum sé óverulegur og sú staða hafi komið upp að farsælir skólastjórnendur hafi horfið aftur til kennslu af þessum sökum. 

 

Ályktanir ársfundar Skólastjórafélags Íslands 2018 eru svohljóðandi: 


Framhaldsmenntun
Ársfundur Skólastjórafélags Íslands, haldinn í Reykjanesbæ 13. október 2018, mótmælir því harðlega, að Samninganefnd sveitarfélaga fyrir hönd stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, meti ekki framhaldsmenntun skólastjórnenda til jafns við framhaldsmenntun grunn- og leikskólakennara.

Í lögum um grunnskóla nr. 91/2008, 7.gr. segir: „Við grunnskóla skal vera skólastjóri sem er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum, veitir faglega forystu og ber ábyrgð á starfi skólans samkvæmt sveitarstjórn.“

Í ljósi lögboðins hlutverks skólastjóra er algjörlega óásættanlegt að framhaldsmenntun skólastjórnenda skuli ekki vera metin til jafns við undirmenn þeirra.

 

Starfsreynsla kennara í stjórnunarstarfi
Ársfundur Skólastjórafélags Íslands, haldinn í Reykjanesbæ 13. október 2018, mótmælir því harðlega, að Samninganefnd sveitarfélaga fyrir hönd stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, meti ekki starfsreynslu kennara við kennslu, þegar þeir eru ráðnir til stjórnunarstarfa í grunnskólum.

Sérstaklega er þetta athyglisvert í ljósi þess, að við ráðningar í störf skólastjórnenda í grunnskólum, er kennslureynsla ávallt talin kostur eða skilyrði.

Í ljósi þessa er það algjörlega óásættanlegt að starfsreynsla við kennslu skuli ekki metin sem ávinningur við launaröðun þegar kennarar ráða sig sem skólastjórnendur við grunnskóla.
 

Lögfræðilegt mat á kjaralegri stöðu skólastjórnenda í grunnskólum
Ársfundur Skólastjórafélags Íslands, haldinn í Reykjanesbæ 13. október 2018, fagnar þeirri ákvörðun stjórnar Kennarasambands Íslands, að heimila Skólastjórafélagi Íslands að leita lögfræðilegrar ráðgjafar vegna hugsanlegra brota á lögum um jafnrétti og mismunun við greiðslu launa til skólastjórnenda hjá einstökum sveitarfélögum.

Ljóst er að í einstökum tilfellum gætu skólastjórnendur fengið hærri laun sem kennarar við sama skóla, þrátt fyrir ábyrgð og lagalegar skyldur í störfum sínum sem skólastjórnendur. Kanna þarf hvernig launagreiðslum er háttað til einstaklinga í sömu skólum, félagsmanna SÍ og FG, með tilliti til verðmætis starfa, jafnréttis og lagalegrar ábyrgðar einstaklinga í störfum þeirra.
 

Viðhorf og ábyrgð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga á launakjörum skólastjórnenda í grunnskólum
Ársfundur Skólastjórafélags Íslands, haldinn í Reykjanesbæ 13. október 2018, gerir alvarlegar athugasemdir við störf og viðhorf Samninganefndar sveitarfélaga, fyrir hönd stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, til starfsumhverfis og launakjara skólastjórnenda í grunnskólum.

Ljóst er að skólastjórnendur hafa á undanförnum árum dregist verulega aftur úr í launum í sambanburði við sambærilegar stéttir samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

Dæmi eru um það að launamunur skólastjórnenda og kennara í sömu skólum sé orðinn óverulegur, svo ekki sé minnt á hversu erfitt er orðið að fá stjórnendur til starfa við grunnskóla landsins. Þá eru dæmi um það að farsælir skólastjórnendur hafi vegna þessa horfið á ný til kennslu.

Þrátt fyrir ofangreint hefur Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga, fyrir hönd stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, ekki verið tilbúin að grípa til nauðsynlegra leiðréttinga á launakjörum skólastjórnenda.

 

 

Tengt efni