is / en / dk

22. október 2018

Samninganefnd sveitarfélaga (SNS) hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem nefndin gerir athugasemdir við efni ályktana sem voru samþykktar á ársfundi Skólastjórafélags Íslands (SÍ) 13. október síðastliðinn. 

Ársfundur SÍ gerði í ályktun alvarlegar athugasemdir við störf og viðhorf SNS þegar kemur að starfsumhverfi og launakjörum stjórnenda í grunnskólum. „Ljóst er að skólastjórnendur hafa á undanförnum árum dregist verulega aftur úr í launum í samanburði við sambærilegar stéttir samkvæmt tölum Hagstofu Íslands," segir meðal annars í ályktun ársfundar SÍ. 

Þá mótmælti ársfundur SÍ því harðlega að starfsreynsla kennara við kennslu væri ekki metin þegar þeir væru ráðnir í stjórnendastörf í grunnskólum og aukinheldur mótmælti ársfundurinn því að SNS meti ekki framhaldsmenntun til jafns við framhaldsmenntun grunn- og leikskólakennara. 

Í yfirlýsingu SNS er þessum athugasemdum vísað til föðurhúsanna og segir meðal annars að í gildi sé kjarasamningur milli SÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga og að friðarskylda ríki þar til samningurinn renni út í lok mars á næsta ári. Þá kveðst SNS hafa boðið leiðréttingu á launum í kjölfar þess að grunnskólakennarar skrifuðu undir samning í maí á þessu ári og einnig hafi nefndin lýst áhuga á að ræða menntunarkafla samningsins sérstaklega. 

Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, brást við yfirlýsingunni í morgun og segir hann: „Á fundi 24. ágúst 2018, lagði forysta SÍ fram minnisblað, þar sem farið var fram á sambærilega leiðréttingu fyrir skólastjórnendur og Samninganefnd sveitarfélaga, SNS, hafði áður gert gagnvart öðrum félögum innan KÍ. Fram kom á fundi forystu SÍ og SNS, þann 5. september 2018, að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefði hafnað þeim hugmyndum sem þar voru settar fram um sambærilega leiðréttingu launa og breytingar á menntunarkafla stjórnenda."

Ályktanir ársfundar Skólastjórafélags Íslands

Yfirlýsing Samninganefndar sveitarfélaga

Tengt efni