is / en / dk

12. Nóvember 2018

Ný stjórn Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum var kjörin á aðalfundi félagsins sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík laugardaginn 10. nóvember. Sigrún Grendal gaf ein kost á sér í embætti formanns og var þar af leiðandi sjálfkjörin. 

Eftirtaldir voru kjörnir í stjórn félagsins og varastjórn á aðalfundinum:
 

STJÓRN FT OG VARASTJÓRN
Stjórn FT skipa auk formanns:

 • Aron Örn Óskarsson, Ingunn Ósk Sturludóttir, Vilberg Viggósson og Örlygur Benediktsson.
   

Varastjórn skipa:

 • Árni Sigurbjarnarson, Jón Gunnar Biering Margeirsson og Þórarinn Stefánsson.
   

SAMNINGANEFND FT
Á aðalfundi félagsins skal kjósa þrjá fulltrúa sem ásamt stjórn félagsins mynda samninganefnd. Eftirtaldir þrír fulltrúar voru sjálfkjörnir á aðalfundinum:

 • Guðbjörg Sigurjónsdóttir, Guðlaugur Viktorsson og Kristín Kristjánsdóttir.
   

SKOÐUNARMENN REIKNINGA
Einnig skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til var og voru eftirtaldir kjörnir:

 • Júlíana Rún Indriðadóttir og Kristín Stefánsdóttir og Páll Eyjólfsson til vara.
   

FAGRÁÐ TÓNLISTARSKÓLA
Samkvæmt lögum FT skipa níu fulltrúar fagráð tónlistarskóla. Auk fimm manna stjórnar FT, sem kosin er á aðalfundi, skipa fjórir svæðisbundnir fulltrúar fagráð tónlistarskóla. Kjör svæðisbundnu fulltrúanna fer fram fyrir aðalfund félagsins og voru eftirtaldir kjörnir og skipa því fagráð tónlistarskóla tímabilið 2018-2022 auk stjórnar félagsins:

 • Dagný Arnalds, tónlistarkennari/skólastjóri í afleysingum við Tónlistarskóla Ísafjarðar, Hjörleifur Örn Jónsson, skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri, Inga Þórðardóttir, skólastjóri Tónlistarskólans í Grindavík og Jóhann Ingi Benediktsson, tónlistarkennari við Tónskóla Sigursveins.

 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á aðalfundinum: 

Aðalfundur Félags kennara og stjórnenda haldinn 10. nóvember 2018 á Grand Hótel Reykjavík tekur undir ályktun svæðisþinga tónlistarskóla 2018 um að koma þurfi tilgreindum forgangsmálum í kerfi tónlistarskóla í farveg innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins hið fyrsta.

Aðalfundurinn skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að verða við áskoruninni og styrkja þannig bæði faglegan og rekstrarlegan grundvöll tónlistarskóla til að rækja víðtækt hlutverk sitt á sviði menntunar, lista, menningar og samfélagsmála.
 

Ályktanir svæðisþinga 2018

Ályktun um forgangsmál í kerfi tónlistarskóla
Eftirfarandi var samþykkt á sex svæðisþingum tónlistarskóla sem fram fóru í september og októbermánuði 2018.

Koma þarf forgangsmálum tónlistarskóla í farveg innan ráðuneytisins.

Svæðisþing tónlistarskóla 2018 ítreka ályktun fyrra árs og skora á mennta- og menningarmálaráðherra að koma eftirfarandi forgangsmálum í kerfi tónlistarskóla á Íslandi í vinnufarveg innan ráðuneytisins hið fyrsta. Þessi forgangsmál eru:

 •  endurskoðun á frumvarpi til nýrra laga um tónlistarskóla,
 •  nefnd um mat á menntun og prófgráðum kennara og stjórnenda í tónlistarskólum,
 •  lögverndun starfsheitis tónlistarskólakennara,
 •  endurskoðun aðalnámskrár tónlistarskóla og
 •  sérfræðingur á sviði tónlistar/lista hjá ráðuneytinu.

Þau skipta öll sköpum fyrir faglega og rekstrarlega umgjörð í tónlistarskólakerfinu. Framangreind forgangsmál hafa verið á dagskrá Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum um árabil og eru nauðsynlegar umbætur fyrir löngu orðnar aðkallandi. Aðgerðaleysi í málaflokknum er farið að standa eðlilegri þróun fyrir þrifum.

Kennarar og stjórnendur í tónlistarskólum deila þeirri sannfæringu sem birtist í niðurstöðum annarrar heimsráðstefnu UNESCO um listfræðslu (Seoul, 2010) um að listfræðsla hafi mikilvægu hlutverki að gegna í uppbyggilegri umbreytingu menntakerfa á 21. öld. Tónlistarskólarnir vilja vera virkir þátttakendur í þróun samfélagsins á sviði menntunar, menningar og lista.

Svæðisþingin skora því á mennta- og menningarmálaráðherra að styrkja bæði faglegan og rekstrarlegan grundvöll tónlistarskóla til að rækja víðtækt hlutverk sitt á sviði menntunar, lista, menningar- og samfélagsmála.
 

Tónlistarskólar fái aðgengi að Sprotasjóði líkt og aðrar skólagerðir í Kennarasambandi Íslands
Svæðisþing tónlistarskóla 2018 skora á mennta- og menningarmálaráðherra að veita tónlistarskólum aðgengi að Sprotasjóði og styðja þannig við þróun og nýjungar í skólastarfi tónlistarskóla og þróunarstarf í samstarfi við aðrar skólagerðir.

Forsendur hafa lengi legið til framkvæmdarinnar og er ráðherra hvattur til að taka málið í sínar hendur og klára það. Tímalínan er sem hér segir:

Árið 2013: Í frumvarpstillögu nefndar um endurskoðun laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985, sem fór í opið samráðsferli í janúar 2013, var m.a. gert ráð fyrir því að tónlistarskólar ættu rétt á framlögum úr sameiginlegum sprotasjóði skóla, ásamt leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Árið 2016: Í skýrslu fagráðs um símenntun og starfsþróun kennara til mennta- og menningarmálaráðherra er m.a. lögð áhersla á eftirfarandi:

„Skapa þarf jafnar aðstæður og möguleika kennara til starfsþróunar óháð skólastigi og skólagerð [...]“

„Leggja þarf áherslu á aukið samstarf á milli skólastiga og skólagerða um starfsþróun.“

Árið 2018: Í tillögum starfshóps samstarfsráðs um stoðkerfi við starfsþróun, sem settar voru fram að ósk rýnihóps um aðgerðir til að auka nýliðun í kennslu og sporna gegn brotthvarfi úr starfi, er lagt til að eftirfarandi komi strax til framkvæmda:

„Veita þarf auknum fjármunum til Sprotasjóðs og efla hlutverk hans við að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum.“

Tillögur starfshópsins um stoðkerfi við starfsþróun byggja á niðurstöðum fagráðs um starfsþróun kennara og skólastjórnenda í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum sem afhentar voru mennta- og menningarmálaráðherra í mars árið 2016 en þær fela í sér sameiginlega sýn aðila samstarfsráðs á starfsþróun, fjölbreytni hennar og órjúfanlegt samhengi við fagmennsku og daglegt skólastarf.

Árið 2018: Í skólastefnu Kennarasambands Íslands, sem samþykkt var á 7. þingi KÍ í apríl 2018, kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Jafna þarf aðstæður og möguleika kennara, náms- og starfsráðgjafa og skólastjórnenda til starfsþróunar eftir skólum, skólastigum, skólagerðum [...].“

Af þessari upptalningu má vera ljóst að öll málefnavinna síðustu ár hefur leitt til þeirrar einróma niðurstöðu að tónlistarskólar eigi að hafa aðgengi að Sprotasjóði líkt og aðrar skólagerðir. Mennta- og menningarmálaráðherra er hvattur til að eiga samtal við forystu Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og afgreiða málið í takti við niðurstöður áðurnefndra starfshópa og fagráða í gegnum árin.

 

Frétt um svæðisþingin.

 

Þróunarverkefni Listaháskóla Íslands var sérstakt umræðuefni á aðalfundinum

Sérstök umfjöllun um þróunarverkefni á vegum Listaháskóla Íslands var á aðalfundinum en markmið verkefnisins er meðal annars að mæta menntunarþörf þeirra tónlistarkennara sem hafa mikla reynslu og færni af vettvangi en skortir kennslufræðilega menntun. Elín Anna Ísaksdóttir, fagstjóri og verkefnastjóri í tónlistardeild LHÍ, og Helgi Þorbjörn Svavarsson, sérfræðingur og eigandi Happy Bridges, sögðu frá verkefninu, kynntu hugmyndir að raunfærnimati og fór yfir hvernig ferlið er hugsað. 

 

 

Tengt efni