is / en / dk

19. Nóvember 2018

„Að setja kennslu á öllum skólastigum undir sama hatt með einu leyfisbréfi rýrir gildi kennaramenntunar á öllum skólastigum og gerir lítið úr þeirri sérþekkingu sem felst í starfi kennara." Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem var samþykkt á félagsfundi Félags framhaldsskólakennara sem fram fór í Fjölbrautaskólanum við Ármúla nú síðdegis. Efni fundarins var útgáfa leyfisbréfa til kennslu og fyrirhugaðar breytingar á þeim. 

Í ályktun fundarins er þeirri eindregnu afstöðu jafnframt lýst að „núverandi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008 verði virt hvað varðar útgáfu leyfisbréfa til kennslu.“ Þá er ráðherra menntamála hvattur til að bjóða fulltrúum félaga leik-, grunn- og framhaldsskólakennara beina aðild að starfshópi um inntak kennaramenntunar. 

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði fundinn. Hún sagði umræðu um breytingar á útgáfu leyfisbréfa nýhafnar og bauð Félagi framhaldsskólakennara formlega að skipa fulltrúa í samráðshóp ráðuneytisins. Formaður FF sagði félagið þiggja sæti í samráðshópnum. „Ég hef alltaf litið svo á að það sé mikilvægt og styrkur ef okkur býðst að koma að borðinu að við þiggjum það," sagði Guðríður Arnardóttir, formaður FF, í ávarpi sínu. 

Á annað hundrað manns sóttu fundinn og fjölmargir fylgdust með á netinu. 

Ályktun fundarins í heild sinni hljóðar svo: 

19. nóvember 2018

„Félagsfundur Félags framhaldsskólakennara haldinn í Fjölbrautaskólanum við Ármúla lýsir yfir þeirri eindregnu afstöðu að núverandi lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008 verði virt hvað varðar útgáfu leyfisbréfa til kennslu. Í lögunum eru skýrar menntunarkröfur til þeirra sem fá leyfi til kennslu í leik-, grunn- og framhaldsskóla, en jafnframt gert ráð fyrir sveigjanleika á milli skólastiga að uppfylltum lágmarks menntunarskilyrðum og sérhæfingu á hverju skólastigi.

Sjónarmið kennara eru mögulega mismunandi eftir skólastigum og tryggja verður að þau komi örugglega sem skýrast fram þegar grundvallarákvarðanir eru teknar. Fundurinn skorar því á mennta- og menningarmálaráðherra að bjóða fulltrúum félaga leik-, grunn-, og framhaldsskólakennara beina aðild að starfshópi um inntak kennaramenntunar.

Núverandi reglugerð um inntak kennaramenntunar er ígrunduð og var mótuð í kjölfar samráðs við kennarafélögin. Reglugerðin um inntak kennaramenntunar endurspeglar þann mun sem er á starfi og ábyrgð kennara á mismunandi skólastigum þar sem vægi kennslufræði og fagþekkingar er mismunandi á hverju skólastigi. Að setja kennslu á öllum skólastigum undir sama hatt með einu leyfisbréfi rýrir gildi kennaramenntunar á öllum skólastigum og gerir lítið úr þeirri sérþekkingu sem felst í starfi kennara.“
 

MYNDBANDSUPPTAKA FRÁ FUNDINUM. 

MYNDIR Á FACEBOOK.

 

 

 

Tengt efni